01.12.2018 09:57

Góð Kolmunnaveiði við Færeyjar

 Tómas Kárasson Skipst á Beitir NK 123 © Þorgeir

                      2900 Beitir Nk 123 Mynd þorgeir Baldursson 2018 

Beitir NK á miðunum ásamt fleiri íslenskum skipum

Kolmunnaveiði var að glæðast við Færeyjar þegar rætt var við Tómas Kárason skipstjóra á Beiti en útlit er fyrir arfavitlaust veður sem mun hamla veiðunum á næstu dögum. Beitir var búinn að vera í tvo daga á miðunum og sagði Tómas að þrjú skip væru þá á heimleið með kolmunna, Heimaey VE og Bjarni Ólafsson AK með fullfermi og Sigurður VE.

„Veiðin hefur verið dræm fram að þessu. Það eru hérna líklega um átta skip sunnan við okkur. Við erum sennilega komnir með eitthvað nálægt 500 tonnum og það er ágætis útlit. Það er reyndar bræluspá framundan og þá hægist um. Annars hefur verið rjómablíða frá því við komum hérna á miðin á sunnudag og mér skilst að það hafi verið fínasta veður hérna undanfarna daga. Þetta er fyrsti túrinn okkar eftir síldina þar sem var mjög góður gangur í veiðunum en mér skilst að mjög hafi dregið úr þeim núna. Það passar vel að fara núna í kolmunnann. Veiðin byrjaði 26. nóvember í fyrra og það væri óskandi að hægt væri að stilla veiðarnar svona eftir dagatalinu,“ segir Tómas.

Á kolmunna á hverju ári í 22 ár

Hann segir að kolmunninn sem hafi fengist sé þokkalega stór. Menn hafi lent í því að fá smærri kolmunna í köntunum í kringum Færeyjar.  En nú spái brjáluðu veðri og líklegt er að leitað verði í var þegar mesti ofsinn gengur yfir. Ekki eru nema um 30 mílur í land og móttökurnar eru alltaf góðar í Færeyjum þótt vindar geti blásið í pólitíkinni. Tómas segir vissulega blikur á lofti hvað varðar framhald kolmunnaveiða við Færeyjar.

„Hugsanlega vilja Færeyingar ekkert semja núna því það hefur ekki verið gefinn út neinn loðnukvóti. Þá fá þá bara bolfiskinn í staðinn. Þeir eru sjálfsagt að reyna að tryggja sig og sækjast eftir meira í öðrum tegundum. Þetta er allt kaup kaups.“

Tómas hefur verið á kolmunnaveiðum við Færeyjar á hverju ári síðan 1996 eða í 22 ár. Hann segir horfurnar í uppsjávarveiðum ekkert sérstaklega bjartar um þessar mundir. Illa líti út með loðnuna og makríllinn er dyntóttur líka.

Öflugri rannsóknir

„Við höfum þurft að fara lengra eftir makrílnum núna síðustu tvær vertíðir, alla leið í Smuguna. Kannski er ráð að byrja veiðarnar fyrr á heimamiðum hvað varðar makrílinn. Við fylgjumst með honum því á vorin þegar við komum úr kolmunnanum sjáum við makrílinn á leiðinni norður eftir. Veiðarnar hafa hafist seint og menn vilja ná honum stærri. En það getur komið í bakið á okkur þótt ég held að flestallir hafi nú samt náð kvótanum sínum. Það hefur líka áður komið upp svipuð staða með loðnuna. Ég á nú frekar von á því að það verði gefinn út einhver kvóti. Það er alveg eins líklegt að loðnan haldi sig mun norðar, jafnvel við Jan Mayen. Reyndir áhugamenn hafa sagt mér að þeim finnist skipin aldrei fara nógu norðarlega og austarlega þegar þau leita loðnu. Það vantar dálítinn slagkraft í rannsóknirnar. Íslenski fiskiskipaflotinn er önnum kafinn í svo mörgum tegundum. Þetta er ekki eins og áður var þegar kom loðnuvertíð og menn fóru langt norður í haf að leita. Uppsjávarflotinn er með sín föstu verkefni í kolmunna, makríl og íslensku og norsk-íslensku síldinni  og þetta er eins og hjól sem þarf að snúast. Þetta eru margar tegundir og rannsóknirnar þurfa að vera öflugri í öllum tegundum,“ segir Tómas.

Hann segir að það þurfi að fylgjast með göngumynstrinu til dæmis með því að merkja makríl og sjá hvaða leið hann fer. Makríllinn gengur hratt yfir þegar hann kemur og allt fer þetta eftir lífríki sjávarins. Hann fer hratt yfir eða kemur alls ekki ef lítið er af fæðu í sjónum.

Heimild fiskifrettir 

Myndir Þorgeir Baldursson 

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Þorgeir Baldursson

Farsími:

8620479

Heimilisfang:

Móasiða 4f Akureyri

Staðsetning:

Akureyri

Heimasími:

4626947

Um:

Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist Sjávarútvegi

Tenglar

Flettingar í dag: 1292
Gestir í dag: 148
Flettingar í gær: 2178
Gestir í gær: 226
Samtals flettingar: 9309004
Samtals gestir: 1326395
Tölur uppfærðar: 19.7.2019 14:27:34
www.mbl.is