24.05.2022 08:10

BLÓÐÞORRI GREINIST Í FISKELDI VIÐ VATTARNES

Hið meinvirka afbrigði ISA-veirunnar, sem veldur blóðþorra, greindist í sýni sem tekið var í laxeldisstöð við Vattarnes í Reyðarfirði í síðustu viku. Aðgerðaráætlun hefur verið virkjuð og mun öllum laxi í stöðinni verða slátrað. Veiran er skaðlaus mönnum og sjúkdómurinn hefur hvergi í heiminum greinst í villtum laxi. Frá þessu er greint á heimasíðu Matvælastofnunar.

                          Sjókvi við Gripaldi við Vattarnes i Reyðarfirði SEPTEMBER 2021 Mynd Þorgeir Baldursson 

Allt frá því að ISA-veiran greindist fyrst í laxi í sjókví við Gripalda í Reyðarfirði í lok nóvember 2021, sjá frétt Matvælastofnunar frá 26. nóvember sl., hafa umfangsmiklar sýnatökur og ströng vöktun átt sér stað á öðrum eldissvæðum á Austfjörðum, með áherslu á Sigmundarhús og Vattarnes í Reyðarfirði. Eins og fram kom í frétt Matvælastofnunar 29. apríl sl., var greining á meinvirku afbrigði ISA-veirunnar staðfest á ný í einni kví við Sigmundarhús í apríl sl. Öllum laxi á þeim stað var umsvifalaust fargað. Undir lok síðustu viku voru svo tekin sýni úr grunsamlegum laxi við Vattarnes í Reyðarfirði, en það er jafnframt eina staðsetningin í firðinum sem Laxar fiskeldi ala lax í dag. Niðurstöður fengust í gær 22. maí, sem staðfesta að um hið meinvirka afbrigði veirunnar er að ræða. Við Vattarnes eru í eldi um 1.160.000 laxar í níu sjókvíum og er megnið af fiskinum á bilinu 2-3 kg.

Til að gæta fyllstu varúðar hafa Laxar fiskeldi, í samvinnu við Matvælastofnun, nú þegar virkjað aðgerðaráætlun með tilliti til slátrunar og tæmingu allra kvía. Þar með mun allur Reyðarfjörður tæmast af eldislaxi og fara í eldishvíld. Með þessari aðgerð skal gert hið ýtrasta til að uppræta og hreinsa fjörðinn af ofangreindu veirusmiti.

ISA-veiran tilheyrir fjölskyldunni Orthomyxoviridae og býr yfir flestöllum eiginleikum inflúensaveira, sem við þekkjum hjá bæði fuglum og spendýrum. Þekkt eru tvö afbrigði ISA-veirunnar. Annað er góðkynja afbrigði sem aldrei veldur sjúkdómi eða tjóni (HPR0) og hitt er meinvirkt og veldur misalvarlegri sýkingu og afföllum (HPR-deleted).

Veiran er skaðlaus mönnum og berst ekki með fiskafurðum. Þess ber einnig að geta að klínískur sjúkdómur hefur hvergi á heimsvísu verið staðfestur í villtum laxi í sínu náttúrulega umhverfi, jafnvel þótt hin meinvirka gerð veirunnar hafi verið einangruð úr slíkum fiski.

Heimild audlindin .is

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Þorgeir Baldursson

Farsími:

8620479

Heimilisfang:

Reynihlið 15 D 604 Hörgárbyggð

Staðsetning:

Hörgárbyggð

Um:

Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist Sjávarútvegi

Tenglar

Flettingar í dag: 1552
Gestir í dag: 77
Flettingar í gær: 3321
Gestir í gær: 184
Samtals flettingar: 599070
Samtals gestir: 24998
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 09:04:29
www.mbl.is