11.01.2026 14:07Baráttann um 200 milurnarBaráttan fyrir efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar
Myndina tók Jón Páll Ásgeirsson úr varðskipinu Baldri þegar verið var að klippa trollið aftan úr breska togaranum Artic Vandal í . Freigátan Bacchante F-16 kemur engum vörnum við. Deila
Eftir Hjálmar Jónsson Um þessar mundir er hálf öld liðin frá því að þriðja og síðasta þorskastríðinu við Bretland lauk með útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 200 sjómílur og algerum og óumdeildum sigri okkar Íslendinga og yfirráðum yfir fiskimiðunum við Ísland. Sannarlega mikið afrek hjá örþjóð á stærð við litla borg í Englandi að bera sigurorð af fyrrum heimsveldinu og flota þess, sem hafði allt frá því um miðja sextándu öld verið drottnari heimshafana.
Segja má með miklum rétti að útfærsla fiskveiðilögsögunnar hafi verið lokaáfanginn í baráttu íslensku þjóðarinnar fyrir sjálfstæði sínu. Baráttu sem hófst á fyrri hluta nítjándu aldar með Baldvini Einarssyni, Fjölnismönnum og Jóni Sigurðssyni í Kaupmannahöfn, þjóðfundinum í Reykjavík 1851, stjórnarskrá úr hendi konungs okkar og konungs Dana á þeim tíma 1874, heimastjórn 1904, fullveldi 1918, stjórnmálalegu sjálfstæði 1944 og efnahagslegu sjálfstæði 1. júní 1976 með samningunum við Breta um lok þriðja og síðasta þorskastríðsins og viðurkenningu á 200 sjómílna efnahagslögsögu. 500 þúsund tonna þorskafliYfir 90% af útflutningstekjum þjóðarinnar komu frá fiskveiðum á þessum árum og þær hafa því verið undirstaðan undir velmegun og framþróun þjóðarinnar síðan þá. Það var lífsspursmál fyrir okkur Íslendinga að tryggja okkur yfirráð yfir fiskimiðunum í kringum landið, ekki bara vegna þess afla sem Bretar og aðrir fengu hér með veiðum á Íslandsmiðum og námu mörg hundruð þúsund tonnum á ári hverju, heldur einnig til þess að tryggja verndun fiskistofnanna á Íslandsmiðum.
Um gríðarlegt hagsmunamál Íslendinga var að ræða. Heildarþorskafli á Íslandsmiðum á árabilinu 1930-1960 var aldrei undir 300 þúsund tonnum á ári ef styrjaldarárin eru undanskilin. Sjaldnast var hann undir 400 þúsund tonnum og oft langt yfir 500 þúsund tonn. Á þeim tæpu tveimur árum sem þorskastríðin stóðu yfir er árlegur afli Breta á Íslandsmiðum einungis í tvígang undir 100 þúsund tonnum og oft um 150 þúsund tonn. Á sama tíma voru aðrar þjóðir, einkum Belgar og Vestur-Þjóðverjar að veiða hér oft í kringum 50 þúsund tonn. Óhætt er að segja að 30-40% af heildarþorskafla á Íslandsmiðum hafi verið veiddur af öðrum en Íslendingum á þessu tímabili.
Þorskafli á Íslandsmiðum hefur aldrei náð þeim hæðum sem hann var í um miðja síðustu öld og fram til níunda áratugs aldarinnar þegar kvótakerfið var sett á af illri nauðsyn. Árlegur úthlutaður heildarkvóti nær ekki 200 þúsund tonnum á ári. Þorskstofninn hefur ekki náð sér á strik aftur þrátt fyrir margvíslegar aðgerðir til þess. Þannig eru Íslendingar enn að súpa seyðið af skefjalausu arðráni og nokkuð ljóst hvernig farið hefði ef Íslendingar hefur ekki farið í þessa baráttu fyrir landhelginni og yfirráðum yfir fiskistofnunum. Sjálfsvörn smáþjóðar„Aðgerðir íslenskra stjórnvalda í þessu máli eru sjálfsvörn smáþjóðar sem á líf sitt og frelsi að verja. Að dómi ríkisstjórnarinnar byggjast þær auk þess á lögum og rétti. Í heimi samstarfs og vinahugar ættu Íslendingar því að mega treysta því að málstaður þeirra verði skoðaður með sanngirni. Það nægir Íslendingum. Ella er að taka því sem að höndum ber,” sagði Ólafur Thors, sem þá var atvinnumálaráðherra, í lok útvarpserindis til íslensku þjóðarinnar þegar reglugerð um verndun fiskimiða umhverfis Ísland kom út 19. mars 1952, en þar var landhelgin stækkuð úr þremur sjómílum í fjórar og miðaðist auk þess við grunnlínupunkta, en ekki strandlengju landsins.
© Morgunblaðið/Ólafur K. Magnú (Morgunblaðið/Ólafur K. Magnú)
Ólafur ítrekar þessa afstöðu í erindi sínu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna rúmum sjö árum síðar þegar hann var orðinn forsætisráðherra og fyrsta þorskastríðið var í fullum gangi. Þar gerir hann árásir breskra herskipa á varðskip okkar á miðunum við Ísland að umtalsefni og segir einhliða að útfærsla lögsögunnar í 12 mílur hafi þótt „lífsnauðsyn vegna framtíðarhags og sjálfstæðis þjóðar minnar að hafast eitthvað að til að vernda megintekjulind hennar, fiskimiðin umhverfis Ísland. Efnahagur þjóðarinnar er algjörlega háður fiskveiðum og afurðir þeirra eru nú 95-97% af öllum útflutningi hennar til annarra þjóða.”
TrumanyfirlýsinginÁ fyrri hluta 20. aldarinnar var meginreglan í alþjóðahafrétti þriggja mílna lögsaga strandveiðiríkja. Þau sjónarmið tóku að breytast eftir seinni heimstyrjöldina, þar sem lögð var áhersla á ríkari rétt strandríkja til auðlinda landgrunnsins og fiskveiðiréttinda þar. Bandaríkin áskildu sér þannig rétt til auðlinda landgrunnsins undan ströndum Bandaríkjanna með svonefndri Trumanyfirlýsingu haustið 1945 og útfærsla landhelgi strandríkja og átök vegna hennar færðust í vöxt. Hér á landi var hafinn undirbúningur að setningu laga um landgrunnið og haustið 1947 var lagt fram frumvarp til laga um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins. Alþingi samþykkti frumvarpið einróma um vorið og varð það að lögum 5. apríl árið1948. Í fyrstu grein laganna segir að sjávarútvegsráðuneytið skuli með reglugerð ákvarða takmörk verndarsvæða við strendur landsins innan endimarka landgrunnsins þar sem allar veiðar skulu háðar íslenskum reglum og eftirliti. „Ráðuneytið skal einnig ákvarða allar þær reglur sem nauðsynlegar eru til verndar fiskimiðunum á ofangreindum svæðum. Ráðstafanir þessar skulu gerðar að fengnum tillögum Fiskifélags Íslands og Atvinnudeildar Háskóla Íslands. Reglugerðin skal endurskoðuð eftir því sem vísindalegar rannsóknir gefa tilefni til.”
Landgrunnslögin urðu síðan grunnurinn að aðgerðum Íslendinga í landhelgismálum næstu áratugina. Á grundvelli þeirra var samningum um þriggja mílna lögsögu sagt upp haustið 1949 með tveggja ára fyrirvara. Um vorið 1950 var landhelgin færð út í 4 sjómílur fyrir Norðurlandi og þá miðað við grunnlínur en ekki strandlengjuna, þannig að firðir og flóar voru þveraðir og 19. mars 1952 var gefin út reglugerð um 4 mílna fiskveiðilögsögu allt í kringum landið mælt frá grunnlínum og tók hún gildi 15. maí 1952. LöndunarbannBretar brugðust ókvæða við enda um verulega hagsmuni fyrir fiskveiðiflota þeirra að tefla og um haustið settu útgerðarmenn í Hull og Grimsby löndunarbann á íslenska togara með þegjandi samþykki breskra stjórnvalda, þó það væri í trássi við þarlend lög. Löndunarbannið var verulegt högg fyrir íslenskar útgerðir og þjóðarbúið, enda fór mikill meirihluti afla íslenskra ísfisktogara á markað í Bretlandi. Löndunarbannið olli Íslendingum verulegum búsifjum og áhyggjum til að byrja með, en þeim varð það til happs að Sovétríkin gerðu við þá vöruskiptasamning ári seinna,1953. Þeir keyptu af Íslendingum síld og frosinn fisk sem fengu í staðinn olíu og ýmsan vélbúnað. Þarna nutu Íslendingar, eins og oft síðar, legu landsins mitt milli stórveldanna, og þeirra aðstæðna sem ríktu í alþjóðamálum þann tíma sem þorskastríðin þrjú stóðu yfir, auk þess sem vera landsins í NATO og herstöðin í Keflavík, reyndust þjóðinni mikilvæg vogarstöng í deilunum við Breta.
Löndunarbannið stóð í fjögur ár áður en því var aflétt haustið 1956. Þróunin í hafréttarmálum á þessum tíma hafði verið Bretum í óhag og 4 mílur og mun víðari lögsaga var ofarlega á baugi. Þannig gerðu strandríkin á vesturströnd Suður-Ameríku kröfu um 200 mílna landhelgi á þessum tíma og Sovétríkin færðu út fiskveiðilögsögu sína í Barentshafi í 12 sjómílur. Bretar þráuðust við og gáfu ekki eftir fyrr en í fulla hnefana. Þá voru hins vegar ný viðhorf uppi og ríkisstjórn Framsóknarflokks, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags sem tók við völdum 1956 lýsti yfir að hún stefndi að útfærslu landhelginnar í 12 mílur. Það var og gert og tók útfærslan gildi 1. september 1958. Í kjölfarið sigldu hörð átök við Breta næstu þrjú árin með þátttöku breska sjóhersins, sem reyndi að verja bresku togarana fyrir afskiptum skipa íslensku landhelgisgæslunnar. Ísland og Bretland voru bæði innan NATO og það þótti afar sérkennilegt, svo ekki sé meira sagt, að eitt ríki innan NATO beitti annað NATO ríki hernaðarlegu ofbeldi. Íslendingar nýttu sér þá aðstöðu vel og létu liggja að og jafnvel hótuðu oftar en einu sinni úrsögn úr NATO. Greindarvísitala Íslendinga 111Andrew Gilchrist, sem var sendiherra Breta á Íslandi á þessum árum og skrifaði bókina „Þorskastríð og hvernig á að tapa þeim” um veru sína hér á landi, gerir þar einmitt að umtalsefni hversu lagnir Íslendingar voru að nýta þessa stöðu í alþjóðamálum sér til framdráttar og til þess að draga tennurnar úr breska ljóninu. Hann ber Íslendingum annars afar vel söguna og af bók hans má greinilega ráða að hann hefur notað tíma sinn hér vel til þess að kynna sér sögu og menningu landsins. Auk þess eignaðist hann fjölda vina og kunningja, einkum á hinu stjórnmálalega sviði. Til marks um hæfni Íslendinga í þessum efnum segir hann segir meðal annars að ef meðalgreindarvísitala Evrópubúa sé 100 þá sé meðalgreindarvísitala Kínverja 110 og Íslendinga 111!
Þessu fyrsta þorskastríði okkar Íslendinga lauk með samningum snemma árs 1961. Bretar viðurkenndu 12 mílna landhelgi Íslands gegn þriggja ára aðlögunartíma þar sem þeir mættu veiða innan lögsögunnar, en það var bundið takmörkunum varðandi veiðisvæði og árstíma. Það sem mestum ágreiningi olli í samningnum var ákvæði um málskotsrétt til Alþjóðadómstólsins í Haag yrði af frekari útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Viðreisnarstjórnin var komin til valda á þessum tíma og stjórnarandstaða Framsóknarflokks og Alþýðubandalags fordæmdi ákvæðið um málskotsréttinn. Ákvæðið átti eftir að valda okkur vanda við síðari útfærslu lögsögunnar á áttunda áratugnum. Íslenska þjóðin virtist almennt sátt við niðurstöðuna og Bretar litu þannig á að Íslendingar hefðu unnið stórsigur í deilunni og fengið sitt fram.
Ný vinstri stjórn tók við völdum hér á landi undir forystu Framsóknarflokksins árið 1971 eftir 12 ára samfellda stjórnarsetu Viðreisnarstjórnarinnar. Helstu kosningaloforð hennar var útfærsla landhelginnar í 50 mílur og brottför bandaríska herliðsins frá Miðnesheiði. Alþingi samþykkti einróma að færa landhelgi Íslands út í 50 mílur einhliða 1. september 1972 og hafna málskotsrétti til Alþjóðadómstólsins í Haag, þrátt fyrir ákvæðið þar að lútandi. Bretar höfnuðu rétti Íslendinga til einhliða útfærslu með öllu og samningaviðræður um sumarið voru árangurslausar. KlippurnarVið tók rúmlega árs barátta og viðsjár á miðunum við Ísland. Nýtt vopn hafði bæst í vopnabúr Íslendinga, þ.e.a.s. klippurnar sem varðskipin notuðu til þess að klippa á togvíra bresku togaranna. Það vopn reyndist afar áhrifaríkt og beittu varðskipsmenn því óspart. Þegar upp var staðið höfðu íslensku varðskipin klippt á togvíra 64 breskra togara og 15 vesturþýskra.
Bretar sendu fyrst dráttarbáta á Íslandsmið til að aðstoða og vernda bresku togarana og þegar það dugði ekki til komi til kasta sjóhers hennar hátignar vorið 1973. Átökin voru afar hörð og beittu íslensku varðskipin fallbyssum sínum til að stöðva för togara og oftar en ekki reyndu bresku dráttarbátarnir ásiglingar á íslensku varðskipin.
Íslensk stjórnvöld töldu óþolandi að breski sjóherinn væri innan landhelginnar og jöfnuðu því við árás eins bandalagsríkis á annað. Málið var meðal annars rætt á leiðtogafundi Richards Nixons, forseta Bandaríkjanna og Georges Pompidou Frakklandsforseta hérlendis í sumarbyrjun 1973. Kom fram að Íslendingar myndu aldrei gefa eftir í landhelgismálinu. „Ég sat þarna stjarfur af undrun. Hér höfðum við 200 þúsund manna eyþjóð sem hótaði því að fara í stríð við 50 milljóna manna stórveldi út af þorski,” rifjaði Henry Kissinger, þáverandi þjóðaröryggisráðgjafi Nixons og síðar utanríkisráðherra Bandaríkjanna upp síðar.
© Morgunblaðið/Ólafur K Magnússon (Morgunblaðið/Ólafur K Magnússon)
Það var ekki fyrr en Íslendingar hótuðu að slíta stjórnmálasambandi við Bretland að breski sjóherinn fór út úr landhelginni um haustið og í kjölfarið náðust bráðabirgðasættir í deilunni. Bretar fengu kvóta í tvö ár upp á 130 þúsund tonn hvort árið, samkvæmt nánari reglum. Bretar viðurkenndu ekki 50 mílna lögsögu formlega, en réttur Íslendinga til eftirlits og löggæslu var viðurkenndur. 200 sjómílur verða ofan áÞess var þó skammt að bíða að aftur drægi til tíðinda á Íslandsmiðum. Hafréttarmál voru í örri þróun og sjónarmið um 200 sjómílna efnahagslögsögu voru að verða ofan á í heiminum. Á hafréttarráðstefnu í Caracas í Venesúela 1974 og á framhaldsráðstefnu í Genf 1975 náðist að vísu ekki samkomulag um það, en það var engu að síður orðið ríkjandi sjónarmið meðal velflestra þeirra þjóða sem áttu hagsmuna að gæta. Bretar voru meira að segja farnir að átta sig á að þeir voru að berjast fyrir glötuðum málstað og áhersla þeirra var að færast yfir á það að reyna að standa vörð um sjónarmið varðandi sögulegan rétt þjóða sem veitt höfðu áratugum eða árhundruðum saman á fjarlægum miðum. Þar að auki hefði brotthvarf þeirra af Íslandsmiðum þýtt dauðadóm yfir útgerðarbæjunum á austurströnd Englands og andstaða þar því mikil við tilslakanir af hálfu breskra stjórnvalda.
© Morgunblaðið/Ólafur K Magnússon (Morgunblaðið/Ólafur K Magnússon)
Svört skýrsla um ástand botnfisktegunda á Íslandi kom út sumarið 1975, sem sýndi ljóslega að óheft sókn undanfarna áratugi með stórtækum atvinnutækjum hafði stefnt fiskistofnunum í mikla hættu. Útfærsla fiskveiðilögsögunnar í 200 sjómílur og verndun fiskistofnanna þoldi því enga bið og 15. júlí 1975 var gefin út reglugerð um útfærslu lögsögunnar að liðnum þremur mánuðum, nema gagnvart Bretum vegna samningsins frá því tveimur árum áður. Útfærslan gagnvart þeim tók gildi frá og með 14. nóvember.
Stysta og harðasta deilanÍ kjölfarið sigldi stysta en jafnframt harðasta fiskveiðideilan við Breta, þar sem Íslendingar beittu klippunum eins og kostur var, en breski sjóherinn ítrekuðum ásiglingum á íslensku varðskipin. Mikil mildi má telja að ekki varð manntjón í þessum átökum veturinn 1975-1976, því svo harðvítug voru þau og sótt af mikilli kappsemi af beggja hálfu. Eftir á að hyggja var það líka happ að ekki tókst að semja í deilunni um veturinn, því þá er næsta víst að breski togaraflotinn hefði verið lengur á Íslandsmiðum, en reyndin var þegar upp var staðið. Í framhaldi af því að breski flotinn sigldi inn í íslenska lögsögu til þess að vernda bresku togarana létu íslensk stjórnvöld verða af því að slíta stjórnmálasambandi við Bretland. Það var afdrifaríkt skref og án fordæma í samskiptum tveggja NATO ríkja. Hápunkti náðu átökin á miðunum 6. maí þegar freigátan Falmouth sigldi í tvígang á Tý þannig að varðskipið lagðist á hliðina svo litlu mátti muna að það sykki. Alls urðu að minnsta kosti 54 árekstrar í átökunum á miðunum og 22 freigátur breska heimsveldisins voru í lengri og styttri tíma á miðunum við Ísland þennan vetur.
Þegar hér var komið sögu var orðið ljóst að varla yrði haldið lengra áfram á þessari braut og samherjar okkar innan NATO lögðu áherslu á að sættir tækjust. Einkum voru Norðmenn þar framarlega í flokki, en auk þess stóðu Bretar frammi fyrir því á heimaslóð og í samningum við Efnahagsbandalag Evrópu að 200 mílna efnahagslögsaga var niðurstaðan. 1. júní 1976 var undirritaður samningur um lok fiskveiðideilunnar í Ósló, þar sem Bretar viðurkenndu 200 sjómílna fiskveiðilögsögu umhverfis Ísland. 24 togarar þeirra máttu veiða innan lögsögunnar næstu sex mánuði. Síðasti breski togarinn hvarf af Íslandsmiðum í lok nóvember það ár og hafa ekki verið þar síðan. Þar með lauk 500 ára sögu útgerðar enskra fiskiskipa á Íslandsmiðum. Helstu heimildir: Guðni Th. Jóhannesson: Þorskastríðin þrjú; Saga landhelgismálsins 1948-1976; Hafréttarstofnun Íslands 2006. Sir Andrew Gilchrist: Þorskastríð og hvernig á að tapa þeim; Almenna bókafélagið 1977. 126. löggjafarþing 2000-2001. Þskj. 679 – 335. Mál: Svar sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Guðjóns A. Kristjánssonar um löndun á þorski erlendis sem veiddur var á Íslandsmiðum og stærðarflokkun þorskaflans á árunum 1930-1980. Heimild fiskifrettir.is
Skrifað af Þorgeir |
Eldra efni
Um mig Nafn: Þorgeir BaldurssonFarsími: 8620479Tölvupóstfang: thorgeirbald62@gmail.comHeimilisfang: Reynihlið 15 D 604 HörgárbyggðStaðsetning: HörgárbyggðUm: Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist SjávarútvegiTenglar
Flettingar í dag: 1945 Gestir í dag: 2 Flettingar í gær: 1601 Gestir í gær: 5 Samtals flettingar: 2466011 Samtals gestir: 70501 Tölur uppfærðar: 11.1.2026 20:53:06 |
© 2026 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is