11.10.2009 08:06

Íslandsmet í skötuselsveiði

- Útgerðarmaðurinn fékk þó ekki veiðikvóta árið eftir og fór í mál við ríkið og vann málið og fékk 25 milljónir í skaðabætur

Hér segjum við frá sérstöku máli sem snýst um skötuselsveiðar á Hafnarröst ÁR árið 2000, en meðal skipverja þar um borð voru sem vélstjórar vinirnir og sveitungarnir frá Húsavík, Svafar Gestsson og Þorgeir Baldursson. Skipstjóri var Jónas Sigmarsson og útgerðarmaðurinn Lúðvík Börkur Jónsson. Samkvæmt lönduðum afla var um íslandsmet að ræða og í fyrri hlutanum fjöllum við um veiðarnar og birtum myndir sem Þorgeir tók, fyrir utan eina sem er af Þorgeiri og Svafar tók. Í síðari hluta greinarinnar birtum við frétt um dóminn sjálfan.

Íslandsmetið á Skötuselsveiðum á Hafnarröst ÁR 250 árið 2000

Íslandsmetið snýst um eina veiðiferð, sem tók 5 daga og voru þeir með 1100 net og var afraksturinn 5.034 fiskar (skötuselur) sem þeir lönduðu frosnum í land.


              Lúðvík Börkur Jónsson, útgerðarmaður


           Jónas Sigmarsson, skipstjóri


               Jón Ólafur við netadráttinn


                                        Greitt úr netunum og aðgerð


                Magni Árnason með einn góðan


   Auðvitað tók þessi mikla aflahrota á menn og hér sjáum við vin okkar Þorgeir Baldursson taka sér smá dúr


                                                   Frosnum skötusel landað


            Hvert karið á fætur öðru var híft í land


           Að sjálfsögðu fengu menn tertu að launum er komið var í land

© myndir Þorgeir Baldursson, nema myndin af honum sem Svafar Gestsson tók.

Til að forðast allan misskilning, þá er myndin af Þorgeiri, birt með samþykki hans og því ekki um skot að ræða.

Nú skildu menn halda að miðað við þetta úthald, hefði það verið leikur einn að fá kvóta til áframhaldandi veiða, en öðru nær og því fór útgerðarmaðurinn í mál og vann það eins og áður segir. Birtum við hér umfjöllun mbl.is af málinu, daginn sem málið féll í sl. viku.

                        Fær 25 milljónir í bætur

 Hæstiréttur dæmdi í dag íslenska ríkið til að greiða útgerðarmanni rúmlega 25 milljónir kóna í skaðabætur, þar sem sjávarútvegsráðuneytið notaði ekki rétt viðmiðunartímabil við úthlutun aflaheimilda í skötusel.

Útgerðarmaðurinn keypti bát árið 2000 en með í kaupunum fylgdi skötuselsúthald af af öðru skipi. Maðurinn áformaði að hefja veiðar á skötusel og löngu, en þessar tegundir voru á þeim tíma utan kvóta. Hann ætlaði sérstaklega að einbeita sér að veiðum á skötusel í net, enda taldi hann að sú tegund hefði verið vannýtt og að möguleikar til að vinna sér inn veiðireynslu áður en tegundin yrði færð inn í kvótakerfið væru miklir.

Útgerðarmaðurinn var frumkvöðull að því að gera skip sérstaklega út til veiða á skötusel. Hann hóf skötuselsveiðar í maí 2000 og gerði út frá Þorlákshöfn. Veiðarnar gengu mjög vel og skötuselsafli hans var samtals tæplega 360 tonn frá maí til ársloka.

Maðurinn hélt áfram veiðum veturinn 2001, sem hann segir að hafi gengið sæmilega.

5. júní 2001 gaf sjávarútvegsráðherra út reglugerð um aflamark fyrir fiskveiðiárið 2001/2002 en þá var ekki sett aflamark á skötusel. Með fréttatilkynningum frá sjávarútvegsráðuneytinu sama dag kom fram að ráðuneytið teldi ekki ástæðu til þess að verða við tilmælum Hafrannsóknarstofnunar um að setja aflamark á keilu og löngu.

Ný reglugerð var svo gefin út af sjávar­útvegs­ráðuneytinu 16. ágúst 2001 um aflamark fyrir fisk­veiðiárið 2001/2002, sem kom í stað hinnar fyrri. Með nýju reglugerðinni var gerð sú breyting að takmörkun á veiðum tók til nýrra tegunda, keilu, löngu og skötusels, sem ekki höfðu áður verið bundnar ákvæðum um leyfilegan heildarafla.

Í ákvæði til bráðabirgða var kveðið á um það að fiski­skipum, sem höfðu veiðileyfi með almennu aflamarki og veiðireynslu á tímabilinu 1. júní 1998 til 31. maí 2001, skyldi úthlutuð aflahlutdeild í þessum tegundum á grund­velli veiðireynslu.

Við úthlutun aflaheimilda í skötusel var ekki tekið tillit til veiðireynslu mannsins sumarið 2001. Útgerðarmaðurinn gerði athugasemdir við þetta og taldi að taka hefði átt tillit til þeirra sem hefðu hafið sérstaka sókn í skötusel og í því skyni fjárfest í tækjum og búnaði til veiðanna. Þar sem það var ekki gert taldi maðurinn að ekki væri lengur grundvöllur fyrir útgerðinni. Því lagði hann skipinu og höfðaði síðan skaðabótamál.

Bæði Héraðsdómur Reykjavíkur og síðan Hæstiréttur töldu að brotið hefði verið gegn rétti mannsins og reglugerðin, sem sett var í ágúst 2001 hefði ekki verið í samræmi við lög um stjórn fiskveioða.

Ríkissjóði ber því að greiða rúmar 25 milljónir króna í skaðabætur, með vöxtum frá 21. nóvember 2003 til 27. janúar 2007 en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Einnig þarf ríkið að greiða málskostnað.

 

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Þorgeir Baldursson

Farsími:

8620479

Heimilisfang:

Reynihlið 15 D 604 Hörgárbyggð

Staðsetning:

Hörgárbyggð

Um:

Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist Sjávarútvegi

Tenglar

Flettingar í dag: 1759
Gestir í dag: 100
Flettingar í gær: 3321
Gestir í gær: 184
Samtals flettingar: 599277
Samtals gestir: 25021
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 09:46:58
www.mbl.is