26.03.2020 09:35

Við verðum að stækka hratt

Skaginn 3X með verkefni út um allan heim

   Ingólfur Árnasson framkvst mynd Hag 

 Flæðilínur, ofurkæling, mannlausar lestar, risavaxin verkefni út um allan heim og framundan er fjórða iðnbyltingin í landvinnslunni. Allt hefur þetta orðið til í hugskoti íslenskra frumkvöðla og fáir þekkja söguna betur en Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skagans 3X.

Burðarásinn í atvinnulífinu á Akranesi er Skaginn 3X. Fyrirtækið og umfang þess stækkar með hverju árinu. Nú er svo komið að framleiðslan á Sindragötu á Ísafirði hefur sprengt utan af sér og sömu sögu er að segja á Akranesi. Framundan eru mörg stór verkefni, ekki síst erlendis, og innleiðing nýrrar tækni í eigin framleiðslu fyrirtækisins.

Ingólfur Árnason er driffjöðurin að baki fyrirtækinu og stærsti eigandi. Að loknu tæknifræðinámi í Danmörku á níunda áratugnum hóf hann störf hjá Framleiðni, sjávarafurðadeild Sambands íslenskra samvinnufélaga. Hans hlutverk var að heimsækja fiskvinnslur víða um land og innleiða nýja tækni. Á þessum árum var allur fiskur flakaður í bökkum og bakkarnir fluttir fram og til baka með handafli. Þá fæddist honum sú hugmynd að færa vinnuna inn á færibönd og útkoman var sú að fyrsta flæðilínan var kynnt til sögunnar 1983. Þar með var flæðilínuvæðingin hafin í íslenskri fiskvinnslu. Hugmyndin og heitið á fyrirbærinu varð til í hugskoti Ingólfs, sem og enska útgáfan flowline. Með flæðilínunni urðu miklar framfarir og framleiðniaukning í sjávarútvegi.

Mjór er mikils vísis

Fyrir um 30 árum þótti mjög gott ef nýtingin úr þorski í flök væri 40-43% en Ingólfur bendir á að hún sé nú miklu nær 48-50%. Þannig hefur fiskvinnslunni fleygt fram á þremur áratugum.

Þessi 7 prósentustiga aukning úr 40-43% nýtingu í 48-50% nýtingu þýðir að nýtingin á hverjum þorski hefur aukist um 20%. Þetta má þakka flæðilínuvæðingunni og því að láta fiskinn ekki stöðvast í vinnslunni. Þetta gerist með betri meðferð á hráefninu sem hefst strax úti á sjó og hvatinn er ekki síst takmörkuð auðlind og nauðsyn þess að fullnýta hráefnið.

Kvótakerfið var tekið upp á svipuðum tíma og flæðilínuvæðingin hófst og á örfáum árum var búið að flæðilínuvæða allt Ísland. Í framhaldinu var tæknin innleidd í Noregi, Kanada og víðar um heim.

Ingólfur fór í framhaldinu að starfa sjálfstætt og í samstarfi við Þorgeir & Ellert á Akranesi sem tóku að sér smíðavinnu. Í dag eru Skaginn og Þorgeir & Ellert systurfyrirtæki. Við tók þróun og smíði á næstu kynslóð flæðilína sem var með vigtareftirliti. Til varð fyrsta vigtartengda flæðilínan sem sýndi nýtinguna frá hverjum starfsmanni, afköst og fleira. Innleiðing á þessari tækni hófst árið 1988 og var mikið framfaraspor fyrir fiskvinnsluna og stuðlaði að mikilli framleiðniaukningu.

Ný kynslóð flæðilínu hafði verið þróuð í samstarfi við Pólstækni á Ísafirði sem á þessum árum var annað tveggja, lítilla fyrirtækja sem sérhæfði sig í framleiðslu á vogum. Hitt var Marel. Fyrsta vigtartengda flæðilínan var seld til Vestmanna í Færeyjum. Um svipað leyti fór Pólstækni í gjaldþrot. Þórólfur Árnason, fyrrverandi borgarstjóri og núverandi forstjóri Samgöngustofu, var þá hægri hönd Geirs Gunnlaugssonar, forstjóra Marel. Hann hafði samband við Ingólf og bauð upp á samstarf við Marel.

Fyrsta skurðarvélin

Samstarfið við Marel varði í talsverðan tíma og samhliða því byrjar Ingólfur einnig að þróa fyrstu sjálfvirku skurðarvélina.

„Menn höfðu nú ekki mikla trú á því að unnt væri að skera fisk á milli færibanda en við smíðuðum vél og sýndum fram á að það væri hægt. Í framhaldinu gerði ég samning við Marel um að fyrirtækið smíðaði fyrstu skurðarvélina með myndavél fremst í henni. Það hittist þannig á að hjá Marel vann ungur maður að sínu doktorsverkefni og sérsvið hans var myndgreiningartækni. Hann hafði þróað tæki fyrir færabandaflokkara sem átti að greina sporð frá miðstykki eða hnakka. Marel nefndi tækið formflokkara. Doktorsefnið var Hörður Arnarson, núverandi forstjóri Landsvirkjunar. Ég hafði séð þessa tækni og fannst kjörið að tengja hana við nýju skurðarvélina. Það varð úr og til varð fyrsta skurðarvélin með myndgreiningartækni og hún rokselst enn þann dag í dag hjá Marel. Hún hefur auðvitað verið þróuð mikið áfram en það voru við Hörður sem gerðum fyrstu skurðarvélina með myndgreiningartækni,“ segir Ingólfur.

Ingólfur seldi Marel framleiðsluréttinn á skurðarvélinni sem hann segir nú að hafi verið mikil mistök af sinnu hálfu. Marel hóf einnig framleiðslu á flæðilínum þegar fyrirtækið flutti framleiðslu sína í Garðabæinn enda var þessi uppfinning Ingólfs ekki einkaleyfisvernduð.

Skaginn 3X verður til

1998 stofnaði Ingólfur fyrirtækið Skagann. Hófst strax á vegum nýstofnaðs fyrirtækis útflutningur á vigtartengdum flæðilínum um allan heim. Það sem hefur einkennt feril Ingólfs og fyrirtækja hans er framsýni. Nú var búið að flæðilínuvæða vinnsluna en fjölmörg verkefni önnur í tengslum við meðferð sjávarafla voru framundan. Skaginn fór að beina sjónum sínum að kælitengdum lausnum. Undanfarin 20 ár hefur fyrirtækið unnið að þróun á kælitækni og hefur sá þáttur starfseminnar vaxið gríðarlega.

Fyrir fjórum árum varð 3X Technology á Ísafirði systurfélag Skagans. Hófst þá þróun á enn einni byltingarkenndri tækninni sem ekki sér fyrir endann á, íslausri kælitækni. Þróunarvinnan byggði á góðu samstarfi við FISK Seafood, Iceprotein á Sauðárkróki og Matís sem styrkt voru af Tækniþróunarsjóði og AVS-sjóðnum.  Sambærilegt þróunarsamstarf hefur átt sér stað hvað varðar nýsköpun í uppsjávarvinnslum sem jafnframt hefur verið stutt af opinberum sjóðum. Þau fyrirtæki sem hvað mest hafa rutt brautina með Skaganum 3X, í uppsjávarlausnum, eru HB Grandi, Síldarvinnslan, Eskja, Skinney-Þinganes, Ísfélagið í Vestmanneyjum og færeyska fyrirtækið Varðin Pelagic.


Framfarir kvótakerfinu, umhverfis- og auðlindastýringu að þakka

 

Ingólfur þakkar það kvótakerfinu og aukinni umhverfis- og auðlindastýringu þann vilja og áhuga sem stóru sjávarútvegsfyrirtækin hafa sýnt nýrri tækni og aðferðafræði.

„Það góða við kvótakerfið er að það leggur þá ábyrgð á menn að þeir fari vel með auðlindina og nýti hana til hins ítrasta. Aukin nýting á þorski í afurðir um 20% á er að stórum hluta kvótakerfinu að þakka. Það varð að skapa meiri verðmæti úr aflanum og leita leiða til að auka geymsluþol og koma vörunni meira út í ferskfisk og dýrari afurðir. Þetta skipti miklu minna máli þegar allir gátu veitt eins og þeir vildu. Þegar það þarf að greiða fyrir aðgang að auðlindinni þá þurfa menn gera sem mest úr aflanum. Þetta virkar sem hvati til þess að gera betur og smitar út frá sér í aðrar greinar, til að mynda tæknigreinarnar. Sem dæmi má nefna að nútímavædd uppsjávarvinnsla greiðir um eina klukkustund í laun fyrir 1.500 kíló af pakkaðri vöru. Fyrir tæknivæðingu uppsjávarvinnsla þótti gott að sleppa með 150 klukkustundir fyrir sambærileg störf. Með tækniframförum er því búið að tífalda afkastagetuna. Við erum alveg að komast á þann stað að uppsjávarvinnsla fari fram án þess að mannshöndin komi nokkurn tíma nærri afurðinni.“

Hefja uppsetningu á Kúril-eyjum í haust

Lykillinn að vexti Skagans 3X er samstarf við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki.

„Við værum ekki að selja uppsjávarverksmiðju til Kúril-eyja núna nema vegna þess að við nutum samstarfs við Síldarvinnsluna á sínum tíma við þróun á fyrstu stóru plötufrystunum. Svo kemur til samstarfs við önnur sjávarútvegsfyrirtæki og tæknistigið eykst jafnt og þétt,“ segir Ingólfur.

Tækniforskot Íslands spyrst út og eftirspurn kemur erlendis frá. Nýjasti samningur Skagans 3X í samstarfi við Frost og Rafeyri á Akureyri snýst einmitt um uppbyggingu á uppsjávarvinnslu rússneska sjávarútvegsrisans Gidrostroy í Rússlandi. Til að gefa hugmynd um stærð fyrirtækisins má nefna að það fer með álíka stóran kvóta og allur íslenski kvótinn er. Á Kúril-eyjum verður reist hátæknivædd uppsjávarverksmiðja með afkastagetu upp á 800 tonn á sólarhring. Hráefnið, sem verður mestmegnis sardína, fer inn í verksmiðjuna og kemur út úr henni pakkað og tilbúið til flutnings á markaði nánast án þess að mannshöndin snerti nokkurn tíma á því.

Fulltrúar frá Gidrostroy komu hingað til lands á einkaþotu á síðasta ári í þeim erindum að skoða lausnir Skagans 3X. Frá Reykjavík var síðan flogið til Egilsstaða og ekið þaðan til Eskifjarðar og á Neskaupstað þar sem uppsjávarverksmiðjur voru skoðaðar. Frá Íslandi hélt hópurinn til Noregs og skoðaði  tæknilaunir varðandi uppsjávarverksmiðjur þar. Eftir þessa yfirreið barst Ingólfi símtal frá Alexander Verkhovksy, eiganda Gidrostroy. Skilaboðin voru þau að Rússar væri á sínum stað hvað viðkemur lausnum í uppsjávarvinnslu, Íslendingar í fararbroddi og Norðmenn einhvers staðar þar á milli. Gidrostroy vildi lausn Skagans 3X.

Hafist verður handa við uppsetninguna í haust. Eitt af úrslausnarefnunum var hvernig koma ætti starfsmönnum fyrirtækjanna fram og til baka. Þessu fylgir umtalsverður kostnaður því á milli 50-60 manns frá Skaganum 3X, Frost og Rafeyri munu vinna við uppsetninguna í tveimur áföngum og ferðakostnaðurinn fram og til baka er á aðra milljón króna á hvern mann. Ráðgert er að flogið sé til Moskvu, þaðan til Vladivostok og Shakalin-eyju. Þaðan er farið síðasta spölinn með skipi til Shikotan-eyju í Kúril-eyjaklasanum. Ferðalagið tekur þrjá daga. Verið er að reisa góða starfsaðstöðu í eynni þar sem mannskapurinn mun halda til meðan á verkinu stendur. Vinna við fyrri áfangann hefst í haust og stendur fram á vetur. Svo stendur til að hefja seinni áfangann næsta vor.

4. iðnbyltingin í landvinnslu

Þróun og framleiðsla á flæðilínum fyrir bolfiskvinnslu var upphafið að farsælum ferli Ingólfs innan tæknigeirans. Og þangað leitar hugurinn. Hann segir að framundan sé fjórða iðnbyltingin í landvinnslu á bolfiskafla.

Fyrir dyrum stóð árið 2014 að FISK Seafood léti smíða fyrir sig nýjan togara sem síðar fékk nafnið Drangey og kom til landsins síðla sumars 2017. FISK Seafood óskaði eftir þróunarsamstarfi hvað varðar ofurkælingu, vinnslubúnað til að kæla fisk um borð í veiðiskipum án þess að ís eða krapi komi þar nærri. Úr varð að farið var í verkefnið með aðkomu rannsóknaraðilanna Iceprotein og Matís.  Íslaus kæling var í framhaldinu sett í skip FISK Seafood, Málmey, fyrst skipa í heiminum. Það var gert 2014 og hefur búnaðurinn því fengið eldskírn sína þar og var því ákveðið að búnaðurinn yrði einnig settur um borð í Drangey.

„Í framhaldi af þessu ákveður HB Grandi að láta smíða sín skip. Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, kallar mig á sinn fund og segir fyrirtækið ekki vilja byggja ný skip með sama fyrirkomulagi í lest og tíðkast hafði. Hann taldi það ekki boðlegt fyrir áhafnirnar. Ég taldi nú í fyrstu að ekki væri svo einfalt að gera stórar breytingar á því fyrirkomulagi. En Vilhjálmur vildi að við leystum þetta verkefni í samvinnu. Eftir miklar vangaveltur duttum við niður á alveg einstaka lausn. Við gerðum teikningu að mannlausri lest en vissum samt ekki alveg hvernig við áttum að leysa verkefnið tæknilega. Við smíðuðum módel í skipamíðastöðinni hérna á Akranesi til þess að sjá hvernig tæknin gæti virkað. Tæknilausnir af þessu tagi, sem þróaðar hafa verið allt frá veiðum til sjálfvirkrar löndunar á síðustu fjórum árum er það byltingarkenndasta sem gert hefur verið í íslenskum sjávarútvegi. Þær eiga eftir að breyta öllu. Nú erum við að fara af stað með þessum sömu fyrirtækjum, HB Granda og FISK Seafood, og ætlum að skoða möguleika á nýrri tækni í bolfiskvinnslu í landi,“ segir Ingólfur.

Knarr

Markmiðið verður að auka kælingu og meðferð fisksins í vinnsluferlinu með nýrri hugsun. Ingólfur segir að litlar framfarir hafi í raun orðið í þessum efnum í fiskvinnslunni, fram að vatnskurðarvél, frá því fyrstu flæðilínurnar voru teknar í notkun. Þróunarferlið verður einnig í samstarfi við Iceprotein, sem hefur þróað vinnslu á próteinum úr afskurði og öðrum hliðarafurðum bolfisks. Slík vinnsla byggist á hágæða hráefni – fiski sem hefur verið ofurkældur. Markmiðið er sem sagt að hámarka virði aðalafurðarinnar, flaksins, og hliðarafurðanna.

Þróunarvinnan er hafin. Ingólfur segir að hún væri ekki möguleg nema í samstarfi við fyrirtækin. Þannig verði tæknin til og síðar tilbúin til notkunar innanlands og til útflutnings á erlenda markaði. Sama hefur gerst í uppsjávarfiski. Þar hefur orðið til tækni í samstarfi við íslensku sjávarútvegsfyrirtækin sem nú eru seld víða um heim. Fimm milljarða samningur var gerður um uppsjávarverksmiðju fyrir Vardin Pelagic í Færeyjum og nú síðast var gerður samningur á Kúril-eyjum. Fjölmargt fleira er í farvatninu hjá Skaganum 3X jafnt innanlands sem erlendis.

Afsprengi (e. Spin-off) þess samstarfs sem Skaginn 3X hefur átt við önnur tæknifyrirtæki á Íslandi er Knarr. Skaginn 3X á 30% hlut í þessu sameiginlega markaðsfyrirtæki sex af fremstu tækni- og þjónustufyrirtækja landsins innan sjávarútvegs.

Tækifæri út um allt

„Við sækjumst ekki lengur sérstaklega eftir því að selja búnað eða einstaka hluti búnaðar í skip. Hugsunin er sú að framleiða allan búnaðinn og skipið utan um hann. Starfsemi Knarr er komin í fullan gang. Verið er að smíða uppsjávarskip í Noregi fyrir hollenska útgerð og í farvatninu er framleiðsla á búnaði fyrir fleiri frystiskip, innanlands og erlendis. Það er núna verið að teikna uppsjávarskip með Knarr-laginu með afköst upp á 400 tonn af frystri vöru á sólarhring. Tækifærin eru út um allt. Sem dæmi erum við nú að vinna að því að flytja uppsjávartækni í landi um borð í veiðiskipin. Við höfum sáð vel í akurinn og það eru að koma upp margvísleg tækifæri,“ segir Ingólfur.

Skaginn hf., eitt af systurfélögunum þremur innan Skagans 3X, velti eitt á árinu 2016 um 4,3 milljörðum króna sem var 42% aukning frá árinu 2015. Veltuaukningin varð enn meiri á árinu 2017 þótt tölur um það liggi ekki fyrir enn.

Ingólfur segir ekki standa til að skrá fyrirtækið á markað. „Við höfum getað vaxið sjálf í gegnum eigin vöxt um 30% á ári. Við erum að flýta okkur að vaxa eins hratt og við lifandi getum. Við gerum okkur grein fyrir því að það getur verið hættulegt að vaxa á þessum hraða. En það er líka hættulegt að verja milljörðum króna í þróun á einstakri tækni og hafa svo ekki afl til að framleiða. Við verðum því að stækka hratt,“ segir Ingólfur.

Heimild Fiskifrettir 

 

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Þorgeir Baldursson

Farsími:

8620479

Heimilisfang:

Reynihlið 15 D 604 Hörgárbyggð

Staðsetning:

Hörgárbyggð

Um:

Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist Sjávarútvegi

Tenglar

Flettingar í dag: 1516
Gestir í dag: 137
Flettingar í gær: 1762
Gestir í gær: 168
Samtals flettingar: 595713
Samtals gestir: 24874
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 13:36:47
www.mbl.is