26.12.2021 11:28

Það vantar allt malt í þetta

Guðjón Guðmundsson

 - gugu@fiskifrettir.is

22. desember 2021 kl. 13:00

 

Eyjólfur Guðjónsson skipstjóri á Ísleifi VE. Mynd/Óskar P. Friðriksson

                                                2388 Isleifur Ve 63 mynd þorgeir Baldursson 2020

 

Ísleifur VE í sinni annarri loðnulöndun.

Loðnuflotinn íslenski er kominn í land í jólafrí eftir fremur daufgerða byrjun á vertíðinni. Tilkynnt var um 904.000 tonna loðnukvóta í byrjun október og þar af var 627.000 tonnum úthlutað til íslenskra skipa. Veiðar máttu hefjast um miðjan október en hófust þó ekki að ráði fyrr en seinnihluta nóvember. Áætla má að íslensku skipin hafi nú veitt nálægt 10% af úthlutuðum aflaheimildum, eða nálægt um 60.000 tonnum.

Mikil bjartsýni ríkti í kjölfar kvótaúthlutunarinnar og spáði greiningardeild eins bankans að útflutningsverðmæti loðnu gæti orðið 50-70 milljarðar eða jafnvel meira. Hækkaði bankinn hagvaxtarspá sína fyrir næsta ár um 0,8%.

Veiðarnar hafa hins vegar ekki gengið af miklum krafti fram til þessa og hafa sjómenn á orði að loðnan haldi sig djúpt og veiðist lítt að næturlagi. Eyjólfur Guðjónsson skipstjóri á Ísleifi VE hefur marga fjöruna sopið og verið á öllum loðnuvertíðum allt frá árinu 1977 þau ár sem loðnuveiðar hafa verið heimilaðar.

Ísleifur VE kom inn til löndunar í Vestmannaeyjum aðfaranótt sunnudags í sinni annarri löndun á þessari vertíð. „Það hefur verið frekar rólegt yfir þessu. Það vantar allt malt í þetta. Þó hefur eitthvað verið að bætast í veiðina síðustu dagana. Það veiðist á stærra svæði og var heldur skárra en þetta var í byrjun. Við vorum þarna 50-60 sjómílur aust-norðaustur af Langanesi. Loðnan þokast aðeins í austur í rólegheitunum,“ segir Eyjólfur.

Ef þeir hafa mælt rétt

Hann segir lóðningarnar ágætar en gangurinn á þessu sé dálítið sérstakur. Veiðarnar gefa lítið af sér nema bara yfir hádaginn, eða frá því um níu á morgnana til þrjú eða fjögur síðdegis. Síðan veiðist lítið eftir það.

Eyjólfur er reynslumikill loðnuskipstjóri og segir margt með dálítið öðrum hætti en oftast áður. „Engu að síður var það svo að síðasta daginn, áður en við fórum af miðunum, þá dró ég fram á kvöld og það skilaði einhverju. Í framhaldinu köstuðu fleiri þarna og drógu þá nótt og fengu einhvern afla. Þetta er því vonandi eitthvað að breytast núna. Loðnan hefur legið djúpt og nánast ekkert komið upp fyrir 50 faðma. Mér finnst það frekar óvenjulegt. Aðeins tvisvar sá ég torfur koma upp á einhverja 20-30 faðma.“

Eyjólfur sagði ómögulegt að segja hvað valdi þessum takti núna. Hann var búinn að fara tvo loðnutúra á Ísleifi VE enda sagði langt að fara frá Eyjum. Stímið þaðan að veiðisvæðinu er rúmur sólarhringur. Í þessum tveimur túrum fengust 1.430 tonn og um 1.600 tonn í seinni túrnum. Ísleifur ber 2.000 tonn. Loðnan var stór og falleg og lítið upp á hana að klaga.

„Þetta verður vonandi betra eftir áramótin. Við höldum til veiða aftur 3. janúar á svipaðar slóðir en loðnan gengur auðvitað eitthvað áfram í austurátt. Þetta er sögulega stór kvóti og það þarf að vera gott veður og aðstæður í vetur til þess að hann náist allur. Veðrið hefur leikið við okkur í desember og maður varla vitað af því að maður væri á sjó. Það er samt ekki hægt að leggja mat á þessa vertíð ennþá, hún er svo nýbyrjuð. En ef þeir hafa mælt rétt hlýtur að verða mikið veitt af loðnu í vetur.“

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Þorgeir Baldursson

Farsími:

8620479

Heimilisfang:

Reynihlið 15 D 604 Hörgárbyggð

Staðsetning:

Hörgárbyggð

Um:

Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist Sjávarútvegi

Tenglar

Flettingar í dag: 1667
Gestir í dag: 268
Flettingar í gær: 911
Gestir í gær: 264
Samtals flettingar: 623785
Samtals gestir: 27367
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 16:53:41
www.mbl.is