18.01.2021 23:15

Fæðuskortur gæti verið skýringin

                                       1661 Gullver NS12  á Austfjarðamiðum  mynd þorgeir Baldursson 2020

 

Búið að vera dræmt úti fyrir Austurlandi

Fæðuskortur gæti verið skýringin

Á sama tíma og vel fiskast úti fyrir Vestfjörðum er veiðin fremur dræm úti fyrir Austurlandi og hefur verið allt frá því í haust. Steinþór Hálfdánarson, stýrimaður og afleysingarskipstjóri á Gullveri NS frá Seyðisfirði, segir að náðst hafi gott ufsaskot í Lónsdýpinu, um 40-50 tonn. Alls voru komin um 70 tonn í lest.

GUÐJÓN GUÐMUNDSSON
gugu@fiskifrettir.is

Gullver var í Lónsdýpi um 60 sjómílur út af landi þegar rætt var við Steinþór. Hann sagði að veiðarnar gengju upp og ofan en undanfarið hefði verið brælutíð.
„Við erum hérna í Lónsdýpi að leita að þorski. Það hefur ekki verið mikið af fiski. Mér finnst þetta hafa verið óvenju dapurt allt haustið og það sem af er þessu ári hérna fyrir austan og víðar. Það hefur reyndar verið ágæt veiði fyrir vestan undanfarið en við höfum ekki farið þangað. Auðvitað gætum við farið þangað og landað þá einhvers staðar annars staðar en hér heima,“ segir Steinþór.

Steinþór var áður skipstjóri á Bjart NK og síðast á Barða NK allt þar til hann var seldur til Rússlands sumarið 2017.
Veiðar gengu vel framan af síðasta ári á Gullveri og skilaði hann á land nálægt um 5.000 tonnum á árinu. Haustið var hins vegar óvenju lélegt, að sögn Steinþórs.
Vorrall í mars

„Ég held að það vanti bara æti hérna. Makríllinn kom náttúrulega ekkert hingað austur með landinu og það virðist bara skipta sköpum. Það var reyndar óvenjumikið af síld hérna fyrri hluta hausts og meðan það var veiddist ágætlega. Frá miðjum október og fram að þessu hefur þetta verið mjög tregt í þorski og lítið sést af ufsa.“
Að undanförnu hefur meðaltúrinn verið 50-70 tonn eftir um fjögurra til fimm daga túra sem Steinþór segir að sé auðvitað bara lélegt. Fram að því hafði meðaltúrinn gefið 25-30 tonn á dag.
Gullverið hefur ekki farið nema einstaka túra á vetrarvertíð fyrir sunnan land. Framundan sé vorrallið sem Gullverið tekur þátt í og fer lunginn af marsmánuði fer í það.

„Við verðum á norðaustursvæðinu og þar hefur aldrei fengist fiskur í ralli. Við erum að fá svipuð laun þannig að þetta kemur ekkert illa út fyrir okkur. Auk þess spörum við kvóta og fáum kvóta í staðinn. Rúmir 20 dagar fara í rallið þannig að með stoppum fer nánast allur marsmánuður í rallið,“ segir Steinþór.

Vantar loðnuna

Í framhaldinu verði skipið á heimamiðum en Steinþór telur þó ekki ósennilegt að eitthvað verði sótt vestur með landinu á hefðbundna vertíðarslóð. Hann vonast þó til þess að loðna gangi í suðurátt svo veiðin glæðist fyrir austan.
„Það hefur bara verið fæðuskortur hérna. Ég held að það sé meginskýringin. Það er engin spurning að það kemur fiskur á eftir loðnunni. Spurningin er bara hve mikið gengur af loðnu hingað. Um áramótin urðum við varir við lítið magn norður af Digranesflaki, Sléttugrunni og Langanesgrunni en það var sáralítið af loðnu í fiski. En það er reyndar nokkuð frá liðið. Það hefur verið fín veiði fyrir vestan frá því loðna fór að sjást en það hafði lítið sem ekkert fiskast þar frá því seinnipart sumars og fram á  haust sem er heldur óvenjulegt á þessum tíma.“

Steinþór hóf störf hjá Síldarvinnslunni árið 1969, þá 16 ára gamall. Hann hefur því séð tímana tvenna til sjós. Hann segir að stóra breytingin á þessum tíma til sjós séu samskiptin í land. Allt önnur tækni sé líka til veiða en var áður þegar menn höfðu ekki annað til að reiða sig á en einn dýptarmæli. Annað byggðist að mestu á ágiskunum og innsæi skipstjórnarmanna.

 

18.01.2021 20:31

Skip Brims færðu 128.000 tonn að landi í fyrra

                                               2890 Akurey Ak 10 mynd þorgeir Baldursson 

Heildarafli skipa Brims var um 11 þúsund tonnum minni afli en 2019. Heildaraflaverðmæti jókst um 525 milljónir króna milli ára.

Heildarafli skipa útgerðarfélagsins Brims var 128 þúsund tonn á árinu 2020, sem er um 11 þúsund tonnum minni afli en 2019.

Frá því segir á heimasíðu félagsins.

Afli uppsjávarskipa dróst saman um 7 þúsund tonn milli ára og munaði þar mestu um minni afla í kolmunna en árið áður. Engar loðnuveiðar voru leyfðar á árinu 2020 eða 2019.

Afli frystitogara var um svipaður og 2019.

Afli ísfiskskipa var tæplega 3 þúsund tonnum minni en 2019 aðallega vegna lokunar fiskiðjuversins við Norðurgarð, en það var lokað í um þrjá mánuði vegna endurnýjunar á vinnslubúnaði og lagfæringa á húsnæði. Með kaupunum á Kambi á síðasta ári bættist línuskipið Kristján HF 100 í flotann.

Heildaraflaverðmæti skipa félagsins var rúmlega átján milljarðar króna, og jókst um 525 milljónir króna milli ára. Hér má finna sundurliðun heildaraflans eftir skipum.

18.01.2021 11:01

Kirkella kemst ekki til veiða

                                   Kirkella H 7  á veiðum i Barentshafi mynd þorgeir Baldursson 2018 

Flaggskip breska úthafsveiðiflotans er kvótalaust eftir Brexit. Það hefur í meira en mánuð verið bundið við bryggju í Hull.

Skipið er í eigu breska fyrirtækisins UK Fisheries, sem er í eigu Samherja og hollensks útgerðarfyrirtækis.

Eitt stærsta skip breska flotans, frystitogarinn Kirkella, kemst ekki til veiða vegna þess að samningur Evrópusambandsins við Noreg um veiðarnar féll úr gildi þegar Bretland gekk úr Evrópusambandinu nú um áramótin.

„Enginn getur haft efni á því að sitja á 50 milljón punda fiskiskipi aðgerðarlausu til eilífðarnóns,“ segir Trevor Datson, talsmaður útgerðarinnar.

Kirkella er 81 metra langur frystitogari, til þess að gera splunkunýr því aðeins tvö og hálft ár er síðan það kom nýtt til Bretlands. Skipið hefur stundað úthafsveiðar á þorski og ýsu í norskri lögsögu og við Svalbarða.

„Venjulega væri skipið á siglingu inn í norska lögsögu eða til Svalbarða á þessum tíma árs, að hefja veiðar. En við erum ekki með neinn kvóta núna,“ segir Datson.

Datson sagði þríhliða viðræður milli Noregs, Bretlands og Evrópusambandsins vera að fara af stað nú í vikunni, en í kjölfar þeirra þurfi síðan að fara fram tvíhliða viðræður milli Noregs og Bretlands.

Komið í óefni

Útgerðin hefur harðlega gagnrýnt bresk stjórnvöld fyrir að sinna þessu máli ekki fyrr en í óefni var komið.

„Bresk stjórnvöld hafa lengi vitað af því að þessi staða myndi koma upp. Við höfum talað um það í meira en tvö ár.“

Hann sagðist þó ekki telja að samningsgerðin við Noreg þurfi að vera flókin.

„Það sem við erum að fara fram á er bara framhald á því fyrirkomulagi sem verið hefur í gildi. Við höldum að Norðmenn myndu taka því fagnandi að gera samning við okkur því þeir þurfa að veiða í okkar lögsögu líka.“

Hann bendir hins vegar á að allt sem tengist sjávarútvegi verði iðulega býsna flókið viðureignar þegar á reynir.

„Við höfum sagt að hvenær sem tveir sjómenn koma saman þar eru strax komnar upp fjórar ólíkar skoðanir.“

Tjón fyrir marga

Datson segir efnahagslegt tjón vera töluvert, ekki aðeins fyrir útgerðina heldur ekki síður fyrir sjómennina og fjölskyldur þeirra.

„Við erum með hundrað manna áhöfn og fólk sem reiðir sig á Kirkella um framfærslu. Við erum líka með sögu úthafsveiða sem nær aftur í aldir.“

Hann sagðist þó bjartsýnn á að bresk stjórnvöld muni á endanum koma til móts við útgerðina.

Skipstjórarnir á Kirkella eru tveir og þeir eru báðir íslenskir, enda er Kirkella gert út af breska fyrirtækinu UK Fisheries, sem er í eigu Samherja og hollenska útgerðarfyrirtækisins Parlevliet & Van der Plas.

Engir hnökrar þrátt fyrir Brexit

Þrátt fyrir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu hafa þó engir hnökrar hafa orðið á útflutningi á íslenskum fiski til Grimsby eftir áramótin, að því er Martyn Boyer, framkvæmdastjóri fiskmarkaðarins í Grimsby (Grimsby Fish Market) segir. 

Hann telur ekki að Brexit muni breyta neinu fyrir íslenskar sjávarafurðir í Bretlandi.

„Eftir frídaga um hátíðarnar eru hlutirnir hjá okkur aftur að komast í sitt vanalega horf með íslenska fiskinn. Í vikunni fengum við mjög góðar sendingar frá Íslandi án nokkurra truflana eða vandkvæða,“ sagði Boyer í lok síðustu viku þegar Fiskifréttir höfðu samband við hann.

Hann segir Brexit vissulega vera umdeilt í breskum sjávarútvegi. Sumir fari vel út úr því en aðrir illa, og skoðanir séu þess vegna skiptar.

„Ég get bara horft á það frá okkar sjónarhóli,“ segir hann. „Þrátt fyrir útgöngubannið hér þá var salan góð í byrjun vikunnar.“

Hann minnir á að Bretar flytji inn 80 prósent af þeim fiski sem neytendur kaupa þar í landi, og 75% af því sem breskir sjómenn veiða fer í útflutning.

„Þetta þýðir að Bretland er háð innfluttum fiski! Það mun ekki breytast því breska þjóðin er vanaföst og öll erum við hrifin af fiski og frönskum. Enginn vafi leikur á því að besta hráefnið í það er íslenskur fiskur!“

Heimild Fiskfrettir.is

15.01.2021 20:14

FISK Seafood kaupir útgerðarfélagið Ölduós á Höfn

15. janúar 2021 kl. 13:49

 

Dögg SU 118 er smíðuð hjá Trefjum árið 2007. Báturinn er tæplega 15 brúttótonn, 11,5 brúttórúmlestir og ríflega 11 metrar að lengd.

 

Aflaheimildir Daggar eru um 700 þorskígildistonn og eru heildarverðmæti viðskiptanna ríflega 1,8 milljarður króna.

Gengið hefur verið frá samningi um kaup FISK Seafood á útgerðarfélaginu Ölduósi ehf. á Höfn í Hornafirði og um leið á krókaaflamarksbáti félagsins, Dögg SU 118. Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Aflaheimildir Daggar eru um 700 þorskígildistonn og eru heildarverðmæti viðskiptanna ríflega 1,8 milljarður króna. Báturinn hefur til þessa verið gerður út frá Stöðvarfirði og munu seljendur bátsins ljúka þessu fiskveiðiári með áhöfn sinni áður en afhending hins selda fer að fullu fram.

Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu FISK Seafood. Þar segir:

„Með kaupunum styrkir útgerð FISK Seafood rekstur sinn og hlutdeild í bolfiskvinnslu félagsins. Þorskveiðikvótinn eykst um tæplega 5% og gera má ráð fyrir að viðbótaraflinn samsvari tveggja til þriggja vikna afkastagetu landvinnslu FISK Seafood á Sauðárkróki og Snæfellsnesi.

Friðbjörn Ásbjörnsson, framkvæmdastjóri FISK Seafood, segir í fréttinni að með þessum viðskiptum sé FISK Seafood að fikra sig inn í smábátaútgerð á línu og skak „og ef vel tekst til munum við halda áfram að byggja okkur upp á því sviði. Vertíðarbátarnir yrðu kærkomin viðbót við það aukna líf sem höfnin hér á Sauðárkróki hefur öðlast á undanförnum árum og þetta fyrsta skref með kaupunum á Dögg verður strax mikil styrking fyrir landvinnsluna og verðmætin sem hún er að skapa á hverjum degi.“fiskifréttir greina frá 

15.01.2021 16:35

Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar kallaðar út vegna vélsleðaslys

Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar voru kallaðar út að beiðni lögreglunnar á Norðurlandi eystra á öðrum tímanum í dag vegna vélsleðaslyss í Tröllaskaga, nálægt Lágheiði. Áhöfnin á TF-EIR var á eftirlitsflugi þegar útkallið barst laust eftir klukkan hálf tvö í dag og hélt beint á staðinn. Óvíst var með meiðsli vélsleðamannsins og því var áhöfnin á TF-GRO jafnframt kölluð út ásamt lækni. TF-EIR var komin á slystað klukkan 14:30 og TF-GRO hálfri klukkustund síðar. Vélsleðamaðurinn var hífður um borð í TF-EIR og fluttur sjúkrahúsið á Akureyri.
Þorgeir Baldursson tók meðfylgjandi myndir af TF-EIR þegar hún lenti við sjúkrahúsið á Akureyri á fjórða tímanum.
IMGL9354

TF-EIR lendir við sjúkrahúsið á Akureyri í dag. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

IMGL9353

TF-EIR á Akureyri. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

IMGL9347Hrannar Sigurðarson, spilmðaur, og Björn Brekkan Björnsson, flugstjóri, ræða við lögreglumenn á Akureyri í dag. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.
BjornBrekkanHrannarSigurdarson-Andri-johannessonBjörn Brekkan Björnsson, Hrannar Sigurðarson og Andri Jóhannesson. Á myndina vantar Elvar Stein Þorvardsson, sigmann. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.

12.01.2021 13:55

Fékk í skrúfuna og dregin til Akureyrar

Skapti Hallgrímsson - skapti@akureyri.net  12.01.2021 kl. 13:05

Bergey VE kemur með Bylgju VE til Akureyrar í hádeginu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Bergey VE kemur með Bylgju VE til Akureyrar í hádeginu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Togarinn Bergey VE frá Vestmannaeyjum kom með annað Eyjaskip, Bylgju VE, í togi til Akureyrar í hádeginu. Bylgja fékk í skrúfuna norður af Vestfjörðum,

kafari mun bjarga málum í Akureyrarhöfn og skipið síðan snúa til veiða á ný. Bergey var komin með fullfermi og tækifærið verður því notað og landað á Akureyri.

Bergey er í eigu Bergs-Hugins en eigandi Bylgju er samnefnd útgerð.

10.01.2021 15:17

Fóðurpramminn Muninn sem að sökk i Reyðarfirði

Skandi Acercy flytur nýja prammann til landsins og er væntanleg .                                                         Skandi Acercy flyt­ur nýja pramm­ann til lands­ins og er vænt­an­leg ttil Eskifjarðar í lok næstu viku. Skipið er 157 metra langt og 27 m á breidd.

 

Lax­ar ehf. hafa gert lang­tíma­samn­ing um leigu á fóðurpramma, sem á að þjóna eld­is­stöð fyr­ir­tæk­is­ins við Gripalda í sunn­an­verðum Reyðarf­irði. Pramm­inn er aðeins minni held­ur en Mun­inn, sem sökk þar um síðustu helgi.

Pramm­inn fer vænt­an­lega um borð í stórt flutn­inga­skip í Nor­egi á mánu­dag og er reiknað með hon­um til Eskifjarðar í lok næstu viku, að sögn Jens Garðars Helga­son­ar fram­kvæmda­stjóra.

Þangað til sinna fjór­ir þjón­ustu­bát­ar með fóður­byss­ur fóðrun fisks í 16 kví­um við Gripalda, þrír þeirra eru í eigu Laxa, en sá fjórði er í eigu Fisk­eld­is Aust­fjarða. Á Gripalda eru nú um 3.900 tonn af fiski sem verður kom­inn í slát­ur­stærð í haust.

Jens Garðar seg­ir ljóst að all­ur tækni­búnaður um borð í Mun­in sé ónýt­ur og skrokk­ur­inn veru­lega laskaður.

            Fóðutpramminn Muninn sem að sökk i Reyðarfirði i gær mynd þorgeir Baldursson 7 ágúst 2020

200 míl­ur | mbl | 10.1.2021 | 14:30 | Upp­fært 15:16

Tíu þúsund lítr­ar af olíu um borð

Sjór komst inn í prammann, sem sökk að lokum.                                                                                                         Sjór komst inn í pramm­ann, sem sökk að lok­um. Ljós­mynd/?Land­helg­is­gæsl­an

 

Mikið tjón varð hjá fisk­eld­is­stöðinni Löx­um í Reyðarf­irði þegar fóðurprammi sem sér 16 fisk­eldisk­ví­um fyr­ir fóðri sökk í vondu veðri í gær. Um tíu þúsund lítr­ar af díselol­íu eru um borð í pramm­an­um sem er nú á sjáv­ar­botni. Eng­in svartol­ía er þó um borð.

Varðskip Land­helg­is­gæsl­unn­ar, Þór, er á vett­vangi en viðbragð er að öðru leyti í hönd­um fyr­ir­tæk­is­ins.

Í sam­tali við mbl.is seg­ir Jens Garðar Helga­son, fram­kvæmda­stjóri Laxa fisk­eld­is, að ekki sé gert ráð fyr­ir að olía leki í mikl­um mæli í sjó­inn en all­ur búnaður og girðing­ar séu þó til taks ef illa fer.

                                                                                                                               Ljós­mynd/?Land­helg­is­gæsl­an

Af­taka­veður var á öllu Aust­ur­landi í gær, kalt og mik­ill vind­ur. Vatn fór að leka inn á pramm­ann á ní­unda tím­an­um en heppi­lega var varðskipið Þór í firðinum og kom á vett­vang. Var það hins veg­ar mat viðbragðsaðila að ekk­ert væri hægt að gera stöddu. Pramm­inn fyllt­ist fljótt af sjó og sökk svo í nótt.

Heimild mbl.is og Landhelgisgæslan 

07.01.2021 19:28

Ljósafell Su með 75tonn til Fáskrúðsfjarðar

        1277 Ljósafell Su 70 á útleið frá Fáskrúðsfirði í dag 7 janúar 2021 mynd þorgeir Baldursson 

05.01.2021 20:57

Hannes Andresson SH á leið í pottinn

HannesAndresson SH737  í drætti í dag á leið í niðurrif í Njarðvík mynd jói sig 

03.01.2021 13:58

Fyrsti túr 2021 í bliðunni

         Á útleið í bliðunni í dag 3janúar 2021 mynd þorgeir Baldursson 

02.01.2021 12:49

Haldið til veiða eftir á nýju ári

Flestir isfisktogarar Samherja héldu til veiða eftir miðnætti i nótt og tók nokkrar myndir þegar 

Þorsteinn Már Baldvinsson  forstjóri Samherja sleppti springnum skipanna en með i för var Baldvin Þorsteinsson 

sonur þorsteins Más einn eigenda Samherja 

                         Þorsteinn Már Baldvinsson sleppir Kaldbak EA 1 i nótt  Mynd þorgeir Baldursson 

     Baldvin Þorsteinsson og þorsteinn Már Baldvinsson við Kaldbak EA 1 mynd þorgeir Baldursson 2 jan 2021

                       2891 Kaldbakur EA 1 heldur til veiða frá Akureyri i nótt mynd þorgeir Baldursson 2jan 2021

01.01.2021 19:49

Við katlana í 47 ár

Við katlana í 47 ár

Guðjón Guðmundsson

 - gugu@fiskifrettir.is

1. janúar 2021 kl. 09:00

 

                             Gunnar Sverrisson. Mynd/GuGu/fiskifrettir.is

Gunnari Sverrissyni telst það til að á 47 ára löngum starfsferli hafi hann komið að framleiðslu á mjöli og lýsi úr tæpum 3,9 milljónum tonna af uppsjávarfiski.

Gunnari Sverrissyni telst það til að á 47 ára löngum starfsferli hafi hann komið að framleiðslu á mjöli og lýsi úr tæpum 3,9 milljónum tonna af uppsjávarfiski. Ekki einn og óstuddur heldur í samstarfi við sína menn sem vaktformaður og verksmiðjustjóri á Siglufirði og Seyðisfirði hjá Síldarverkverksmiðjum ríkisins, SR-mjöli og nú síðast hjá Síldarvinnslunni. Úr hráefninu má áætla að hafi komið tæp 773 þúsund tonn af mjöli og 386 þúsund tonn af lýsi og mikið gjaldeyrisinnstreymi til landsins.

Gunnar varð nýlega sjötugur og lét af störfum síðastliðið sumar eftir 47 ár við katlana. Hann ákvað að hætta 1. júlí því það hefur merkingu í hans huga. Í júlímánuði 1930 var nefnilega fyrsta fiskimjölsverksmiðja Síldarverksmiðja ríkisins ræst á Siglufirði.

Gunnar man tímana tvenna í þessum gjaldeyrisskapandi iðnaði. Hann hefur upplifað meiri breytingar en gengur og gerist í öðrum atvinnugreinum eða allt frá því verksmiðjurnar voru reykspúandi og illa þefjandi gúanóbræðslur upp í hátæknivædd, sjálfvirk en orkufrek iðnaðarver.

Í gæslunni

Gunnar fæddist á Ísafirði og á ættir að rekja til Stranda og í Ísafjarðardjúpið. Hann útskrifaðist úr Vélskóla Íslands árið 1973 sem vélfræðingur.

23. janúar það ár hófst eldgos í Heimaey í Vestmannaeyjum, brú á milli Evrópu- og Asíuhluta Tyrklands um Bosporussund var opnuð og Richard Nixon tilkynnti um friðarsamkomulag milli Bandaríkjanna og Víetnam, svo hlutirnir séu settir í sögulegt samhengi. Gunnar hafði líka starfað hjá Landhelgisgæslunni sem vélstjóri og stóð vaktina með öðrum á varðskipinu Óðni á miðunum í kringum Ísland þegar tekist var á við Breta vegna útfærslu landhelginnar í 50 mílur.

„Við lentum í talsverðum átökum og það var siglt á okkur fjórum sinnum á meðan ég var á Óðni. Fyrsta skiptið var 28. desember 1972 þegar togarinn Brucella frá Fleetwood sigldi aftan á okkur innan 50 sjómílna markanna út af Austfjörðum. Svo lentum við í þremur árekstrum sumarið 1973, við dráttarbátinn Statesman út af Vestfjörðum, eins sigldu freigáturnar HMS Arethusa og HMS Andromeda á okkur. Við klipptum líka nokkrum sinnum trollið aftan úr bresku togurunum meðan ég var hjá Gæslunni,“ segir Gunnar.

Siglufjarðarárin

Þegar öðru þorskastríðinu lauk með samkomulagi Íslendinga og Breta haustið 1973 fluttist Gunnar til Siglufjarðar þar sem hann fór í vélvirkjanám hjá Vélaverkstæði Síldarverksmiðja ríkisins til þess að ná fullum réttindum sem vélstjóri. Hann byrjaði fljótlega sem viðgerðamaður í verksmiðjunni en verkstæðið þjónustaði verksmiðjuna með viðgerðir. Þar vann hann sig upp í það að verða vaktformaður í verksmiðjunni. Einnig kenndi hann nokkur fög við annað stig vélskóladeildar Vélskóla Íslands á Siglufirði 1975.

„Í kjölfar Vestmannaeyjagossins dreifðist loðnan á fleiri löndunarhafnir í kringum landið en áður. Um var að ræða vetrarloðnu og fékk Siglufjörður þarna í fyrsta skipti að kynnast loðnuvinnslu. Síðan gerðist það í kringum 1976-1977  að veiðar á sumarloðnu hefjast úti fyrir Norðurlandi og upphófust þá tímar mikilla loðnuveiða þar um slóðir. Sá galli var þó á gjöf Njarðar að sumarloðnan var full af átu. Aflinn sem skipin komu með að landi var því hálfgerð loðnusúpa. Uppistaða verksmiðjunnar á Siglufirði var tækjabúnaður frá 1946 sem hannaður var fyrir síld og við vorum að reyna að gera verðmæti úr hráefninu undir þessum kringumstæðum. Búnaðurinn réði illa við hráefnið sem oft var farið að gerjast þegar því var landið. Það var náttúrulega engin kæling í skipunum eins og nú er og hásumar þar að auki. Menn kepptust um að veiða sem mest og koma með sem mest að landi. Stundaðar voru magnveiðar og menn urðu bara að leysa vandann í landi. Þetta voru vægast sagt sérstakir tímar. Nýting hráefnisins var ekkert í líkingu við það sem er í dag. Ekki var óalgengt á þessum tíma að fjörðurinn væri litaður af soði og grútur í fjörum. En smátt og smátt náðu menn meiri tökum á þessu með nýjum tækjabúnaði og breyttum vinnsluaðferðum.“

Til Seyðisfjarðar

Gunnar starfaði hjá Síldarverksmiðjum ríkisins á Siglufirði í níu ár eða allt þar til falast var eftir starfskröftum hans hjá SR á Seyðisfirði. Árið 1982 tók hann við sem verksmiðjustjóri þar. Verksmiðjan byggði á gömlum búnaði eins og á Siglufirði. Hún var með eldþurrkara sem þýddi óhjákvæmilega að mikinn reyk lagði upp úr skorsteinum og „peningalyktin“ lá í loftinu. Búnaður verksmiðjunnar var að stofni til frá árinu 1962 þegar Síldarverksmiðjur ríkisins tóku verksmiðjuna yfir af Síldarbræðslu Seyðisfjarðar.

Tvær vaktir voru í verksmiðjunni þegar vinnslan stóð yfir og um 20 manns á hvorri vakt. Þar sem lítil sem engin sjálfvirkni var í verksmiðjunni voru menn út um alla verksmiðju að snúa krönum og stilla búnað og  virkni tækjanna þannig að verksmiðjan gengi sem best. Það tók tíma að læra þetta því menn urðu að fá tilfinningu fyrir þessum stillingum. Með aukinni sjálfvirkni breyttist þetta, stjórnunin varð auðveldari og færri starfsmenn þurfti til að keyra verksmiðjurnar. Núna keyra fjórir menn á vakt heila fiskimjölsverksmiðju. Gunnar segir þetta í raun algjöra byltingu. Mun færri starfsmenn þurfi til að sinna vinnslunni og  öll vinna varð auðveldari en áður þrátt fyrir að afköst verksmiðunnar hafi aukist til muna.

„Þegar horft er til baka var umhverfið í kringum þennan iðnað ekki manneskjulegt hvað varðar allan aðbúnað. Það sem rak menn áfram voru tekjurnar og svo var kannski ekki um mörg önnur störf að ræða. Óneitanlega spilaði inn í þetta einnig að það voru áhugaverðar áskoranir með óteljandi vandamálum og spennandi vinnsluferli. Til að hafa úthald í þetta þurftu menn að vera pínulítilð léttgeggjaðir og með eitthvert „gúanógen“ í blóðinu.“

1990 var farið í það að endurbyggja verksmiðjuna á Seyðisfirði. Settir voru upp heitloftþurrkarar í stað eldþurrkaranna og vélbúnaður verksmiðjunnar endunýjaður verulega. „Það sem vannst með því var að við fengum verðmeira mjöl, losnuðum við reykinn og lyktina, nýting varð betri og allur aðbúnaður starfsfólks í verksmiðjunni batnaði til muna.“

Bylting eitt og tvö

Verksmiðjan á Seyðisfirði var fyrsta verksmiðjan á Ísland sem gat framleitt hágæðamjöl að einhverju marki. Hærra verð fékkst fyrir mjölið og aðrar verksmiðjur tóku í framhaldinu upp sams konar framleiðsluferla. Gunnar segir Síldarverksmiðjur ríkisins og síðar SR-mjöl hafi verið leiðandi í því  að koma á kerfi sem umbunaði sjómönnum fyrir að koma með sem ferskastan afla að landi. Reynt var að fá sjómenn til að láta af þeirri magnveiði sem alltaf hafði verið stunduð, stytta túrana og koma með sem ferskast hráefni að landi. Vinnsla slíks hráefnis gengur hraðar fyrir sig, meira fæst fyrir afurðirnar og þar með var hægt að greiða hærra verð fyrir hráefnið. Í þessu sambandi má nefna að í allar verksmiðjur SR-mjöls voru settar upp svokallaðar sugur (vakumdælur) sem notaðar voru til að ná blóðvatns- og fiskleifum upp úr lestum skipanna eftir löndun.

Það má segja að Þórður Jónsson, sem var tæknilegur framkvæmdastjóri SR-mjöls, hafi verið ákveðinn frumkvöðull hvað þetta varðar sem og annað sem tengdist gæðamálum og reyndar ýmsum tæknimálum í verksmiðjunum.

„Það tók mörg ár að breyta viðhorfum sjómanna í þessa veru. En í dag er þetta auðvitað þannig að hvert einasta uppsjávarveiðiskip er með kælingu um borð og eigin dælu til að dæla aflanum í land. Kæling aflans er önnur bylting sem varð í þessum iðnaði.“

SR verður SR-mjöl

Síldarverksmiðjum ríkisins var breytt í hlutafélagið SR-mjöl hf. 1. ágúst 1993 með 100 % eign ríkisins. Ríkissjóður seldi síðan alla sína hluti til hóps fjárfesta og tóku nýir eigendur við félaginu 1. febrúar 1994. Inni í sölunni voru fimm verksmiðjur; Siglufjörður, Raufarhöfn, Seyðisfjörður, Reyðarfjörður og Helguvík. Í kaupendahópnum voru m.a. margir útgerðaraðilar sem tryggðu félaginu hráefni og með tímanum fikraði félagið sig aðeins inn á svið útgerðar.

„Mikil breyting verður á rekstri SR verksmiðjanna þegar þær fara úr því að vera ríkisreknar verksmiðjur í einkarekstur. Stjórnunarprófíllinn varð öðruvísi, í stað pólitíkskjörinna stjórnarmanna, sem að manni fannst stundum vera litaðir af hagsmunum ótengdum rekstrinum, komu inn fjárfestar sem voru með að mörgu leyti aðrar áherslur í rekstrinum. Sem dæmi má nefna að ein af kjarnastefnum fyrirtækisins varð sú að leggja meiri áherslu á markaðsmál, rannsóknir og gæðamál. Það má ekki taka orð mín þannig að Síldarverksmiðjur ríkisins hafi ekki staðið sig vel í þeim efnum, en áherslurnar breyttust.“

Á þessum árum fór SR-mjöl að greiða sjómönnum eftir fituinnihaldi loðnunnar. Teknar voru prufur úr aflanum og því meira fituinnihald því hærra verð fékkst. Gunnar segir að þetta hafi þó farið út í vitleysu. Kerfið var þannig útfært að taka átti sýni úr lestunum með löngu áhaldi sem náði sýnum á mismunandi dýpi. Fleiri verksmiðjur voru á höttunum eftir hráefni og þær buðu sjómönnum upp á aðrar aðferðir við sýnatöku sem gaf sjómönnum meira í aðra hönd.

„Í dag er þetta mun einfaldara, með aukinni þekkingu á fituinnihaldi fisksins eftir árstíma og með reglulegum sýnatökum við löndun stilla menn verðin af.“

Uppbygging gæðakerfa

Ráðinn var markaðsstjóri til SR-mjöls, sem breyti æði mörgu í markaðsmálum fyrirtækisins. Fram að því höfðu umboðsmenn selt afurðir verksmiðjanna til útlanda. Verksmiðjurnar voru því ekki í beinum tengslum við kaupendurna.

„Með markaðsstjóranum fengum við beina tengingu við kaupendur, fengum að vita hverjar óskir þeirra væru og reyndum að laga okkar vinnslu að því. Það var mikil framför og hugsunarhátturinn breyttist algjörlega. Upp frá þessu hefst uppbygging gæðakerfa, meiri áhersla var lögð á öll þrif í verksmiðjunum og lestar skipanna hreinsaðar milli landana.

Sem dæmi má nefna varðandi sölumál að tug þúsundir tonna af mjöli voru seld til Bandaríkjanna og Suður-Ameríku, sem ekki var gert áður. Var mjölið afgreitt í u.þ.b. 6.000 tonna förmum og var ætlað í gæludýrafóður og fiskeldi. Eins var allnokkuð selt til Kanada. Þessi aðgerð hafði óneitanlega áhrif til hækkunar á mjölverði á nærmörkuðum okkar í Evrópu.

Lögð var einnig mikil áhersla á lýsisframleiðluna, því meðhöndlun á því skipti miklu máli varðandi gæðin. Einnig eru eiginleikar lýsisins breytilegir eftir hráefnistegundum og árstíma. Reynt var því að blanda því ekki öllu saman og flokka það eftir gæðum. Þetta kunnu kaupendur vel að meta.“

Á Siglufjarðarárunum og hluta tímans á Seyðisfirði var mjölið sekkjað í 50 kg sekki. Sekkjunarvélarnar voru að hluta til sjálfvirkar en síðan þurfti mannshöndin að koma sekkjunum á færiband og stafla þeim svo á bretti. Þetta breyttist því kaupendur vildu fá mjölið „bulk“,  þ.e. í lausu. Þá var farið að setja mjölið í stórsekki sem taka 1.200-1.500 kg. Tæmt var síðan úr þeim niður í lestarnar. Einnig var nokkuð um það að mjöl færi í sekkjunum til kaupandans.

„Árin á eftir uppbygginguna 1990 -1991 á Seyðisfirði voru m.a. byggðir mjölturnar sem voru teknir í notkun 1997, frá þeim lág flutningsbúnaður beint um borð í skipin. Áður voru allt að 10 -15 manns við útskipun á mjöli en þeir eru tveir núna.“

Rafvæðingin

Þriðja stóra byltingin í fiskmjölsiðnaðinum hér á landi er rafvæðing verksmiðjanna. Rafkatlar voru komnir í verksmiðjurnar í Helguvík og Neskaupstað á árunum fyrir 2000 og reyndust vel. Rafketill var settur í verksmiðjuna á Seyðisfirði árið 2002. Hann var keyptur notaður frá Noregi og er enn í notkun. Með honum er framleidd gufa til hitunar hráefnis og þurrkunar á mjöli, í stað olíukatla áður. Í framhaldi af því voru sett upp rafdrifin soðeimingartæki og gufuþurrkari til forþurrkunar á mjöli. Verksmiðjan notaði áður allt upp undir 48-50 lítra af olíu á hvert hráefnistonn en með rafkatlinum, nýju soðeimingartækjunum og gufuþurrkaranum, fór notkunin niður í um 20 lítra. Þetta hafði mikil áhrif til lækkunar á koltvísýringslosun verksmiðjunnar og á rekstrarkostnaði. Aflnotkun rafketilisins er hátt í 11 - 12 megawött.

Síldarvinnslan

Árið 2003 eignaðist Síldarvinnslan hf. SR-mjöl. Þá voru verksmiðjurnar þrjár í rekstri. Lagðar voru niður verksmiðjurnar á Siglufirði, Raufarhöfn og Reyðarfirði. Ekki var þörf fyrir þessar verksmiðjur lengur með stærri skipum, minnkandi kvóta og þeirri þróun að stöðugt hærra hlutfall aflans fór til manneldisvinnslu.

Í kringum 2008 var ákveðið að stækka verksmiðjuna í Helguvík með vélbúnaði úr verksmiðjunni í Grindavík, en sú verksmiðja hafði skemmst í bruna.

Árið 2012 gerist Gunnar rekstrarstjóri yfir fiskimjölsverksmiðjum fyrirtækisins. Um það leiti er farið í það að rafvæða meira verksmiðjuna í Neskaupstað. Með rafkatli var einungis hluti af framleiðsluferlinu rafvæddur en gengið var skrefinu lengra í Neskaupstað með rafvæðingu á öllu ferlinu, þar með talið heitloftsþurrkurunum. Í dag er verksmiðjan einungis keyrð á rafmagni.

Verksmiðjunni í Helguvík var lokað árið 2019 og vélbúnaður úr henni seldur til útlanda. Í dag eru því einungis tvær fiskimjölsverksmiðjur reknar af fyrirtækinu, þ.e. á Seyðisfirði og í Neskaupstað.

          Bræðslan á Neskaupstað Mynd þorgeir Baldursson 2020

Tímamót á heimsvísu

„Í dag er nokkrar verksmiðjur hér á landi með 100% rafvæðingu á sínu framleiðsluferli og má segja að það séu ákveðin tímamót á heimsvísu. Eru afkastamestu verksmiðjurnar að nota um og yfir 20 Mw.

Verksmiðjurnar hafa keypt svokallaða afgangsraforku á orkufrekasta búnaðinn, sem er ódýrari en hefur þann galla að hægt er að rjúfa raforkuafhendinguna með mjög skömmum fyrirvara. Þess vegna þurfa verksmiðjurnar að vera með tvöfalt kerfi, þ.e. að olían grípi inn í við skerðingu. Kerfið var frekar ótraust í byrjun en síðastliðin ár hefur þetta gengið mjög vel.“

Mjöl og lýsi

Mjöl og lýsi sem framleitt er á Íslandi í dag fer að langstærstum hluta til fiskeldis. Verðið á afurðunum sveiflast til eftir framboði og eftirspurn, en hefur verið í hærri kantinum hin síðari ár. Í kringum árið 1987 voru t.d. verð á afurðum óvenjulág. Verð á lýsi var í kringum 150 USD tonnið og mjöl innan við 4 þúsund NOK tonnið. Á þessum tíma var eldsneytisolía dýrari en lýsið og var það því nýtt sem eldsneyti.

Verið er að selja mjölið í dag á nálægt 15 þúsund NOK, og lýsið á u.þ.b 2.000 USD tonnið. Það eru því nánast einungis framleiðendur dýrra matvæla, eins og laxeldisfyrirtæki sem nýta fiskimjöl í miklum mæli til fóðurblöndunar. Eldisfyrirtækin minnka gjarnan hlutfall fiskimjöls í fóðri þegar verð er hátt en Gunnar telur það verði sennilega aldrei hægt að ala upp lax einungis á jurtapróteini. Lax með grænmetisbragði er ekki það sem menn sækjast eftir.

Kynlegir kvistir

„Ég hef verið farsæll með samstarfsmenn í gegnum tíðina. Sumir eru eftirminnilegri en aðrir, eins og gerist og gengur, en sammerkt er með þeim flestum að þetta var hæfileikaríkt og duglegt fólk sem hélt tryggð við sinn vinnustað. Til að krydda þetta hafa verið innanum misskrautlegir karakterar sem sumir myndu kalla kynlega kvisti. Þeir lífguðu sannarlega upp á tilveruna. Hægt væri að segja margar skemmtilegar sögur í því sambandi. Auðvitað hefur á löngum vinnuferli komið upp ágreiningur og smá átök en yfirleitt hefur unnist vel úr því. Oft var þessi ágreiningur tengdur viðskiptum við sjómenn sem voru ekki alltaf ánægðir með vigt upp úr bátunum. Svona í lokin má til gamans geta að fyrir allmörgum árum réðum við í verksmiðjuna á Seyðisfirði ungan mann, nýskriðinn út úr skóla. Þessi maður er í dag framkvæmdastjóri fyrirtækisins.“

01.01.2021 02:37

Gleðilegt Nýtt ár

Siðueigandi óskar öllum þeim sem hafa heimsótt siðuna og léð henni efni til birtingar 

Gleðilegs árs og friðar með þökkum fyrir árið sem liðið er 

Kv þorgeir Baldursson 

                                                                                        Drónaskot áf flugeldaskothriðinni á Gamlárskvöld 2020 mynd þorgeir Baldursson 31 des 2020

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Þorgeir Baldursson

Farsími:

8620479

Heimilisfang:

Móasiða 4f Akureyri

Staðsetning:

Akureyri

Heimasími:

4626947

Um:

Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist Sjávarútvegi

Tenglar

Flettingar í dag: 743
Gestir í dag: 72
Flettingar í gær: 720
Gestir í gær: 170
Samtals flettingar: 10457376
Samtals gestir: 1457412
Tölur uppfærðar: 19.1.2021 05:57:40
www.mbl.is