©Mynd Þorgeir Baldursson
Sjávarútvegsráðherra hefur samþykkt tillögur stjórnar AVS rannsóknasjóðs varðandi úthlutun aflaheimilda til áframeldis á þorski fyrir yfirstandandi fiskveiðiár. Þetta er í sjöunda sinn sem úthlutað er. Níu fyrirtæki sóttu um kvóta að þessu sinni, og sóttu þau um tæp 700 tonn, en til ráðstöfunar eru 500 tonn, sem átta fyrirtæki fengu að þessu sinni til þess að vinna með í sínum verkefnum.
Vestfirðingar fá mest af þessum heimildum, en þar fá fimm fyrirtæki úthlutað alls 350 tonnum. Mest fá fyrirtækin Álfsfell á Ísafirði og Hraðfrystihúsið Gunnvör í Hnífsdal, 125 tonn hvort. Þóroddur á Tálknafirði fær 75 tonn, Glaður í Bolungarvík 15 tonn og Einherji á Patreksfirði 10 tonn. Önnur fyrirtæki, sem fá úthlutað eru Brim fiskeldi á Akureyri 80 tonn, Þorskeldi á Stöðvarfirði 50 tonn og Síldarvinnslan í Neskaupstað 20 tonn.
Þorskurinn, sem um ræðir, er veiddur seinni hluta vetrar og færður lifandi í sjókvíar þar sem hann er alinn fram á haust. Þá hefur hann aukið þyngd sína verulega og er slátrað til sölu erlendis.Heimild Morgunblaðið hjgi@mbl.is