29.06.2008 08:50Keilir seldur til DanmerkurEkkert olíuskip lengur í eigu þjóðarinnarOlíuflutningaskipið Keilir, sem var eina slíka skipið í eigu Íslendinga, var í sinni síðustu ferð umhverfis landið í liðinni viku og er komið til Danmerkur þar sem nýir eigendur hafa tekið við því. ,,Þar með lauk þeim hluta í íslenskri skipasögu," segir Hörður Gunnarsson, framkvæmdastjóri Olíudreifingar sem átti skipið, sem var selt fyrir um mánuði. ,,Það er mjög erfitt að vera að gera út eitt skip og þurfa að reyna að afla vinnu fyrir það 200 daga á ári þar sem verkefnin hérlendis taka ekki nema 110 til 120 daga á ári," segir hann. ,,Einnig hefur dregið úr verkefnum síðan olíuverð fór að hækka og hafa sífellt fleiri útgerðarfyrirtæki byrjað að nota svartolíu en við fluttum lítið af svartolíu með Keili." Keilir hefur bæði flutt olíu til fjölmargra staða á landsbyggðinni en einnig flutt olíu hingað til lands frá Noregi og Svíþjóð. Þau erlendu skip sem flytja olíu hingað eru of stór til að koma til hafnar á fjölda þessara staða á landsbyggðinni svo ekkert skip fer með olíu þangað eins og staðan er nú. ,,Við munum hugsanlega leigja skip í staðinn fyrir Keili. Við munum taka ákvörðun um það á næstu tíu dögum," segir Hörður. ,,Þetta er dapurlegt," segir Kristján Möller samgönguráðherra. Hann lýsti því yfir fyrir nokkrum árum að honum væri umhugað um að koma strandflutningum á þar sem þeir séu þjóðhagslega hagkvæmir. ,,Ég er ennþá áhugamaður um strandsiglingar en helst hefði ég viljað að þær gengju á markaðslegum forsendum en ef svo er ekki verður að skoða aðrar leiðir," segir hann. Kristján segir að ekki sé að vænta útboðs á ríkisstyrktum strandflutningum. ,,Það var gerð tilraun í fyrra til að koma hér á alþjóðlegri skipaskrá og að koma til móts við skipafélög með skattaafslætti og slíku en það var ekki hljómgrunnur fyrir því hjá fyrirtækjunum þar sem þetta gengi of skammt og kæmi of seint. Mér er hins vegar spurn hvort vandi strandsiglinga hérlendis sé sá að sömu aðilarnir skuli flytja vöruna til og frá landinu og eiga jafnframt tvö stærstu landsflutningafyrirtækin." Þar á hann við Samskip og Eimskip.
Skrifað af Þorgeir |
Eldra efni
Um mig Nafn: Þorgeir BaldurssonFarsími: 8620479Tölvupóstfang: thorgeirbald62@gmail.comHeimilisfang: Reynihlið 15 D 604 HörgárbyggðStaðsetning: HörgárbyggðUm: Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist SjávarútvegiTenglar
Flettingar í dag: 1527 Gestir í dag: 51 Flettingar í gær: 1455 Gestir í gær: 74 Samtals flettingar: 992948 Samtals gestir: 48558 Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:48:29 |
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is