Þorskur
Kvótalaus bátur hefur verið gerður út frá Sandgerðishöfn síðastliðinn mánuð og landað um það bil tveimur og hálfu tonni af afla. Ásmundur Jóhannsson sjómaður hefur nú róið í um mánaðartíma án aflaheimilda. Þrátt fyrir aðvaranir yfirvalda lætur hann engan bilbug á sér finna og hyggst leita til dómsvalda verði hann stöðvaður. Ásmundur segir að kvótakerfið sé hryðjuverk og vill að það verði afnumið.
Ásmundur segir að allur kvótinn hafi verið tekinn af honum þegar hann átti loðnuskipið Þórshamar og síðan hafi hann ekki þorað að kaupa kvóta þar sem hann viti í raun ekki hver réttmætur eigandi hans sé.
Hann segist hafa látið yfirvöld vita um fyrirætlanir sínar áður en hann hélt til veiða. Ásmundur segir að bréfi hans hafi verið svarað með vísunum í ótal reglugerðir um það hvað mætti og mætti ekki gera og hvað yrði gert við hann héldi hann áfram að veiða. Ásmundur segist óhræddur við aðgerðir yfirvalda.
Sagt er frá þessu á ruv.is