2154. Árbakur RE 205 © mynd Þorgeir Baldursson 2008
Togarinn Árbakur, sem er í eigu Brims ehf., fer í sinn síðasta túr á fimmtudaginn. Konráð Alfreðsson, formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar, lýsir yfir áhyggjum sínum vegna þess að verið er að leggja togurum sem gerðir eru út frá Akureyri.
Karl Már Einarsson, útgerðarstjóri Brims, segir að engar aflaheimildir hafi verið fluttur frá Akureyri á þessu veiðiári, hins vegar hafi fyrirtækið flutt aflaheimildir frá Reykjavík til Ólafsfjarðar.
Eins og fram hefur komið í fréttum lýsti Konráð Alfreðsson yfir áhyggjum sínum vegna þess að verið er að leggja niður togara sem gerðir eru út frá Akureyri. Samherji lagði Víði EA á dögunum og nú stefnir í að togaranum Árbaki sem er í eigu Brims verði lagt á næstunni. Konráð sagði að samdráttur hefði orðið í útgerð á Akureyri og Brim væri búið að flytja allan kvóta suður og ekki liti út fyrir að breyting yrði þar á.
Karl Már Einarsson, útgerðarstjóri Brims, staðfesti að Árbakur fer í sinn síðasta túr á fimmtudaginn og verður honum lagt um óákveðin tíma að þeim honum loknum. Karl tók það fram í samtali við fréttastofu Útvarps að Árbakur sé ekki skráður á Akureyri heldur í Reykjavík. Hann sagði að einu aflaheimildirnar sem hefðu verið fluttar til á síðasta veiðiári væru frá Reykjavík til Ólafsfjarðar. Frá þessu var sagt á ruv.is