22.08.2008 16:21Sameiginlegur flökkustofn
Brynjólfur Oddsson er margreyndur skipstjóri sem stundað hefur veiðar víða í Norðurhöfum. Í viðtali við Fiskifréttir lýsir hann þeirri skoðun sinni að þorskurinn flakki meira á milli íslensku og grænlensku lögsögunnar en talið hefur verið © mynd Þorgeir Baldursson 2008
KJARTAN STEFÁNSSON kjartan@fiskifrettir.is
Frystitogarinn Kiel, sem Deutsche Fishfang Union GmbH dótturfélag Samherja gerir út, kom úr Barentshafinu í síðustu viku eins og fram kom í síðasta tölublaði Fiskifrétta með metafla, 2.100-2.200 tonn upp úr sjó eftir 59 daga veiðiferð. Fiskifréttir hittu skipstjóra Kiel, Brynjólf Oddsson, að máli og spurðu hann fyrst um ástand þorskstofnsins í Barentshafi.
,,Í Barentshafinu og við Noreg og Rússland eru að vaxa upp þrír mjög stórir þorskárgangar. Sá elsti er að koma inn í veiðina sem 45-50 sentímetra fiskur og mun skila sér upp að strönd Finnmerkur í vetur með loðnunni sem geldfiskur og verður kominn á hrygningarstöðvarnar suður við Lofoten eftir 3 til 4 ár. Hinir árgangarnir koma inn í veiðina á næstu tveimur árum þannig að útlitið er gott varðandi þorskveiðina í Barentshafi, bæði í Svalbarðalögsögunni og við Noreg og Rússland. Ég spái kvótaaukningu í þorski á þessum svæðum á næstu árum en Rússar og Norðmenn hafa gert með sér samkomulag um að þorskkvótinn verði ekki aukinn eða minnkaður nema um 10% milli ára. Það sem hefur komið mér hvað mest á óvart við veiðar á Svalbarðasvæðinu síðustu tvö árin er að ufsi er farinn að sjást í veiðinni. Við höfum fengið þokkaleg ufsahöl í kringum Bjarnarey og hann veiðist í stykkjatali allt norður á 78°N. Annars er Barentshafið fullt af lífi, af loðnu, síld, þorski, rækju, ískóði og hval. Ég skyldi fyrst merkingu orðsins selavaða þegar ég sá hundruð og þúsundir sela í ætisleit ekki fyrir löngu síðan," sagði Brynjólfur.
Talið barst að veiðum togara fyrr og nú. Brynjólfur sagði að erfitt væri að bera þetta saman því tækninni fleygði fram. Afköstin hefðu margfaldast. ,,Tækni þeirra afreksmanna, togaraskipstjóranna Tryggva Ófeigssonar og Eldeyjar-Hjalta, mundi til dæmis duga skammt í dag. Ég fengi ekki upp á hálfan bæklaðan kött með þeirra veiðarfærum og tækni ef ég má nota samlíkingu ónefnds togaraskipstjóra," sagði Brynjólfur.
Þorskveiðar við Grænland
Brynjólfur sagði að Kiel væri nú að fara til veiða við Grænland í sína aðra og seinustu veiðiferð á þessu ári en skipið var mikið endurnýjað í Þýskalandi í ár. ,,Í fyrra fengu ESB-skipin að veiða þorsk í grænlensku lögsögunni í fyrsta sinn eftir nokkurt hlé en Grænlendingar hófu þorskveiðar árinu áður. Veiðarnar voru aðallega við austurströndina norðan 63°N. Fiskurinn var mjög stór og fullur af hrognum hjá þeim skipum sem voru að veiðum á hrygningartímanum. Hjá okkur, sem komum seinna eða í ágúst en vorum samt fyrstir ESB-skipanna, var fiskurinn mjög stór. Þau skip sem á eftir okkur komu í fyrra urðu að veiða sunnan 63°N. Reglugerðum var breitt í ágúst. Pólitísk stefna var þá tekin um að hlífa stórfiski við veiðum og sækja frekar í smærri fisk. Veruleg hrygning hefur verið síðustu 3 árin við Austur-Grænland norðan 63°N á hinum hefðbundnu íslensku síðutogaramiðum hér áður fyrr.
Í fyrra fóru Kiel og fleiri ESB-skip einnig að veiða grálúðu norðan Dorhnbanka. Grænlendingar voru búnir að ná árangri þar við grálúðuveiðar í nokkur ár þar á undan. Grálúðuveiðin var frá íslensku miðlínunni og norður undir Scoresbysund. Þó nokkuð var um "íslenska" loðnu á svæðinu. Ég vissi, eins og reyndar er fyrir löngu viðurkennt, að grálúðan sem við höfum veitt við Austur-Grænland til fjölda ára er samstofna við grálúðu á Íslandsmiðum enda heitir hún á ensku "Greenland Halibut". Loðnan, sem nú hefur valið sér sumarhaga í grænlensku lögsögunni, er einnig sameiginlegur fiskstofn okkar og Grænlands."
Velur sér stað eftir skilyrðum en ekki lögsögu
-- Hvað finnst þér þá um þorskinn sem Grænlendingar og ESB-skip hafa veitt við Grænland. Hver eru tengsl hans við íslenska þorskinn að þínum dómi?
,,Ég tel að þorskurinn við Grænland sé mun ,,meira samstofna" þorskinum hér, ef þannig má að orði komast, heldur en hefðbundnar kenningar fiskifræðinnar um seiðarek og endurkomu hrygningarþorsks í íslenska lögsögu fela í sér, enda nær efniviður í fiskifræðilegar kenningarsmíðar stutt aftur í tímann. Áratugir eru stuttur tími í náttúrulegum sveiflum í hafinu og ekkert er nýtt undir sólinni. Íslensk-grænlenski þorskurinn hefur að mínu áliti alltaf valið sér stað til hrygningar og hagagöngu eftir lífsskilyrðum og flakkað mun meira á milli lögsaga en hefðbundnar kenningar fiskifræðinnar segja til um, bæði geld- og hrygningarfiskur. Ef litið er til sögunnar þá hafa oft komið upp þorskleysisár á Íslandsmiðum. Ég tel miklar líkur vera á því að hinar stóru þorskgöngur á Vestfjarðamiðum frá 1975-1990 og einnig fyrr á öldum hafi að hluta til komið frá Grænlandi. Hér er hugsanlega um að ræða fyrrum þorskseiði frá Íslandi að koma til baka frá Grænlandi miklu fyrr en fiskifræðileg rétthugsun segir til um og fiskurinn af allt öðrum árgöngum. Ég held að þegar stórar þorskgöngur geldfisks komu upp í Víkurál frá Grænlandi og þaðan á öll norðvesturmið að þá hafi verið réttu skilyrðin fyrir loðnu á landgrunninu norður af Íslandi og blöndun á heitum og köldum sjó rétt fyrir þorskinn. Þorskurinn er eins og flest mannfólkið; hann hugsar bara um mat og kynlíf og gefur lítið fyrir þjóðerni."
Réttu skilyrðin við Grænland
Brynjólfur ítrekaði að um göngur hrygningarfisks gilti kynlífið; þorskurinn væri gagntekinn kynhvöt og það eina sem hann hugsaði um á þeim tíma væri að finna réttan stað til að koma næstu kynslóð á legg, hvort sem það væri Selvogsbankinn eða Half Moon við Grænland. ,,Ég vissi að grálúðan væri ekki á íslensku vegabréfi í það minnsta gleymdi hún að sækja um vegabréfsáritun og loðnan væri líka í vaxandi mæli ,,þjóðernissvikari". En að þorskurinn á Íslandsmiðum væri að hluta til blandaður stofn milli Íslands og Grænlands voru mér ný sannindi. Það var á vissan hátt vonbrigði og mikil umskipti á þeirri fiskveiðiréttarhugsun sem ég var alinn upp við.
Þorskurinn við Ísland og Grænland er margstofna og staðbundinn að hluta en örugglega er stærsti þorskstofninn, sá sem veitt er úr á Grænlandssundi við Ísland og Grænland, sameiginlegur stofn okkar og Grænlendinga sem velur sér hrygningarstöðvar og hagagöngu eftir lífsskilyrðum en ekki lögsögu. Nú eru réttu skilyrðin við Grænland fyrir þorskinn og ég tel að við munum búa við lágan jafnstöðuafla í þorski á Íslandsmiðum næstu árin. Þeir sem hafa skuldsett sig í kvótakaupum á þorski í von um betri tíma þurfa kannski að bíða lengi eftir bata. Ég tel samt að engin ástæða sé til að örvænta því staðbundnu þorskstofnarnir okkar eru í góðu lagi," sagði Brynjólfur Oddsson. Skrifað af Þorgeir |
Eldra efni
Um mig Nafn: Þorgeir BaldurssonFarsími: 8620479Tölvupóstfang: thorgeirbald62@gmail.comHeimilisfang: Reynihlið 15 D 604 HörgárbyggðStaðsetning: HörgárbyggðUm: Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist SjávarútvegiTenglar
Flettingar í dag: 3981 Gestir í dag: 17 Flettingar í gær: 4063 Gestir í gær: 33 Samtals flettingar: 1123107 Samtals gestir: 52258 Tölur uppfærðar: 18.1.2025 08:21:18 |
© 2025 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is