Hér birtist myndasyrpa frá strandi togarans Jóns Baldvinssonar undir Keflavíkurbjargi á Reykjanesi 31. mars 1955 og fram yfir afdrif togarans. En myndirnar sendi Þorsteinn Pétursson á Akureyri okkur til birtingar. Jón Baldvinsson RE 208 var tæplega fjögurra ára þegar hann lauk ferli sínum þarna. Hann var smíðaður í Aberdeen í Skotlandi 1951 og hafði smíðanr. 826 hjá Hall Russel & co Ltd. Togari þessi var 7. togarinn í eigu Bæjarútgerðar Reykjavíkur og kom nýr til Reykjavíkur 25. júní 1951. Nafn hans var í höfuð Jóns heitins Baldvinssonar, fyrrum alþingismanns og forseta Alþýðusambands Íslands. Eftir að togarinn strandaði keyptu bræðurnir Guðni og Guðmundur Ingimundarsynir í Garði skipið á strandstað og björguðu úr honum öllu nýtanlegu áður en hann brotnaði á strandstað. Togarinn fór á hvolf 13. apríl sama ár, engu að síður var haldið áfram fram í október að bjarga úr skipinu og lauk því starfi 19. október, er skrúfunni var bjargað við illan leik.