Varðskipið Ægir © mynd Þorgeir Baldursson
Varðskipið Ægir er með grænlenska bátinn Qavak í togi og eru skipin á leið til hafnar í Reykjavík.
Grænlenska skipið var á leið til Danmerkur þegar það varð vélarvana í gærmorgun um 200 sjómílur suð-vestur af Reykjanesi með fjóra menn í áhöfn. Að sögn Landhelgisgæslunnar barst beiðni um aðstoð til stjórnstöðvar Gæslunnar í gegnum flutningaskipið Naja Arctica sem kom Qavak til aðstoðar og beið hjá bátnum þar til Ægir kom á svæðið. Þá hafði skipið rekið um 30 sjómílur í norð-vestur. Togskipið Qavak er um 200 tonn að þyngd og 22 metra langt og er í eigu Polar Seafood á Grænlandi.
Að sögn skipherra á Ægi var dráttarlínu skotið yfir í Qavak rúmlega níu í morgun og gekk aðgerðin vel. Að sögn skipherrans er áhöfn skipsins í góðu ásigkomulagi, veður á svæðinu hefur gengið þónokkuð niður frá því sem var í nótt en þó er talsverður sjór og ölduhæðin 4-6 metrar. Ágæt veðurspá er framundan og er búist við meðvindi á leið til Íslands. Reiknað er með að skipin komi til hafnar snemma á miðvikudagsmorgun.
Heimild visir.is