
Júpiter FD 42 © mynd þorgeir Baldursson i mai 2009
Færeyski
togarinn Jupiter tapaði jafnvirði 100 milljóna íslenskra króna vegna
aðgerða skoskra sjómanna í Peterhead síðastliðinn miðvikudag, en þeir
komu í veg fyrir löndun úr skipinu vegna makríldeilunnar við Færeyinga.
Jupiter átti að landa 1.100 tonnum af makríl í Peterhead til vinnslu
að verðmæti 140-160 milljóna íslenskra króna en varð að snúa frá
bryggju þegar 50-60 þarlendir sjómenn hindruðu löndun úr því.
Skipið sneri þá aftur til Færeyja og landaði farminum í bræðslu í
verksmiðjunni í Fuglafirði fyrir jafnvirði 40-60 milljóna íslenskra
króna, að því er segir í norskra sjávarútvegsblaðinu
Fiskeribladet/Fiskaren.
Norðmenn hafa sett löndunarbann á makríl úr íslenskum og færeyskum
skipum vegna makríldeilunnar og nú hefur ESB fylgt í fótspor þeirra að
því er fram kemur í blaðinu.
Færeyingar hafa lengi verið óánægðir með sinn hlut úr
makrílstofninum og þar sem engir samningar hafa náðst um nýtingu hans í
ár hafa Færeyingar sett sér einhliða 85.000 tonna kvóta eða fjórfalt
meiri ársafla en þeim hefur verið úthlutað hingað til. Íslendingar hafa
sett sér 130.000 tonna kvóta í ár eins og kunnugt er.