02.12.2010 20:44

Bátasmiðjan Vör 1971-1995

 Bátasmiðjan Vör hf., Akureyri.

a. Bátasmiðjan Vör hf., Akureyri.  Heimild www.aba.is

Bátasmiðjan Vör hf. Akureyri.

1971 til 1995.

   Bátasmiðjan Vör hf. Akureyri var stofnuð 20. júní 1971. Stofnfundurinn var haldinn við eldhúsborðið hjá Skapta Áskelssyni, framkvæmdastjóra og bar upp á afmælisdag hans. Skapti var einn af stofnendum Slippstöðvarinnar hf. árið 1952 og framkvæmdastjóri hennar frá þeim tíma til ársins 1970. 
   Stofnendur Varar hf. voru Hallgrímur Skaptason, Áskell Bjarnason, Áskell Egilsson, Kári Baldursson, Jón Steinbergsson og Gauti Valdimarsson.
Allir voru þessir einstaklingar starfsmenn Slippstöðvarinnar hf. er stofnfundurinn var haldinn og sögðu þeir störfum sínum lausum hjá stöðinni með þeim fyrirvara, sem samningar sögðu til um. Hallgrími vannst þó ekki tími til slíkra aðgerða því er tíðindi þessi spurðust þá sendi framkvæmdastjóri Slippstöðvarinnar hf. Gunnar Ragnars honum skriflega uppsögn þar sem honum var gert að yfirgefa skrifstofu sína samstundis. 
Flestum starfsfélögum Hallgríms þótti nokkuð harkalega að honum vegið með svo fyrirvaralausri uppsögn. Hann hafði þjónað Slippstöðinni hf. af trúnaði í rúma tvo áratugi og engin ástæða var til að ætla að þar yrði einhver breyting á þó að hann hygðist hasla sér völl á öðrum vettvangi. Hitt er svo aftur á móti annað mál að vafalaust hefur það ekki komið hinu nýstofnaða fyrirtæki illa að Hallgrímur gat unnið við uppbyggingu Varar hf. á fullu kaupi frá Slippstöðinni hf.
   Ósagt skal látið hvað hratt stofnun félagsins af stað en benda má á nokkrar augljósar staðreyndir. Í það fyrsta þá er það inngreypt í þjóðarsálina að vera sjálfs síns herra og þar eru þeir félagar tæpast nein undantekning. Skipasmíðar var þeirra fag og við þá iðn vildu þeir fyrst og fremst vinna. Allir sex unnu þeir við smíði eikarbáts, sem Slippstöðin hf. afhenti ári fyrir stofnun Varar hf., og hefur sú vinna vafalítið nært faggen þeirra félaga. 
   Það hlýtur að teljast nokkuð sérstakt að synir þriggja bræðra skuli taka sig saman um stofnun fyrirtækis þó að með öðrum sé. Ef litið á bakgrunn þessara bræðrasona þá voru feður þeirra synir Áskels Hannessonar og Laufeyjar Jóhannsdóttir konu hans.
Áskell og Laufey bjuggu fyrst að Austari Krókum á Flateyjardal en fluttu þaðan að Skuggabjörgum í Fnjóskadal. Á þessum býlum fæddist þeim ellefu börn. Frá Skuggabjörgum lá leið þeirra að Fagraskógi við Eyjafjörð og þaðan að Svínárnesi á Látraströnd. Þar kvaddi Laufey þessa jarðvist eftir þunga legu en Áskell flutti með börn þeirra, sem í föðurhúsum voru, til Grenivíkur.
   Sagt er að eplin falli sjaldnast langt frá eikinni og má það til sanns vegar færa hvað þá frændur varðar því að Áskell afi þeirra var hagur maður á tré og járn.
Áskell nam smíðar af  tengdaföður sínum Jóhanni Bessasyni, kirkjusmiði að Skarði í Dalsmynni, sem lærði þær af Tryggva Gunnarssyni, síðar bankastjóra. Kunnáttu sína í smíðum nam Tryggvi af Ólafi, timburmeistara á Grund í Eyjafirði. 
Eins og fram hefur komið þá flutti Áskell til Grenivíkur frá Svínárnesi. Þar byggði hann íbúðarhúsið Ægissíðu ásamt sonum sínum 1928 til 1929. Á þessum árum var lifibrauð víkurbúa að mestu sjávarfang þó að örfáar kindur væru á flestum heimilum og einstaka belja. Synir Áskels, þeir Þorbjörn og Skapti, gerðu út bátinn Hjalta TH-272 frá árinu 1931 til ársins 1938.
   Þorbjörn tók snemma við búsforráðum á Ægissíðu af föður sínum ásamt konu sinni Önnu Guðmundsdóttur, ljósmóður. Á því heimili eyddu þau Áskell og Guðbjörg Ingimundardóttir, móðir Önnu, ævikvöldi sínu.
   Skapti byggði íbúðarhúsið Bjarg á Grenivík og flutti þar inn ásamt konu sinni, Guðfinnu Hallgrímsdóttur, árið 1936. Þar leit frumburður þeirra hjóna, Hallgrímur, fyrst dagsins ljós. Til Akureyrar flutti fjölskyldan árið 1938. 
Elsti bróðirinn, Bjarni, keypti Bjarg af Skapta og Guðfinnu en hann var kvæntur Jakobínu Sigrúnu Vilhjálmsdóttur.
Áskell Bjarnason, sleit því barnsskónum í húsinu, sem Skapti byggði.
   Egill Áskelsson, faðir Áskels Egilssonar, byggði Borg á Grenivík ásamt konu sinni Sigurbjörgu Guðmundsdóttur árið 1933. Fjölskyldan flutti árið 1942 í Arnarneshrepp norðan Akureyrar og þaðan að Hléskógum í Höfðahverfi þar sem hún bjó lengst af.
Áskell ólst því upp við almenn sveitastörf en gerði smíðarnar að ævistarfi sínu.
   Kári Baldursson, sem var elstur þeirra félaga, var frá Nolli í Grýtubakkahreppi. Fyrir miðja síðustu öld hafði Kári meðal annars þann starfa að flytja mjólk úr hreppnum, á báti sem hann átti, frá Nolli til Akureyrar.
Jón Steinbergsson var innfæddur Akureyringur en Gauti Valdimarsson á ættir að rekja fram í Eyjafjörð.
   Á bakkanum vestan Ægissíðu stóð smiðja Áskels Hannessonar og þar lærði margur afkomandi hans fyrstu smíðatökin.
Aflinn í smiðju Áskels var knúinn fótstignum físibelgi, sem ekki var ónýtt fyrir unga fætur að spreyta sig á að stíga. 
   Við stofnun Varar hf. var fyrirtækinu gefið nafnið Narfi hf. en það nafn komst aldrei inn í þinglýsingarbækur. Guðmundur Jörundsson, útgerðarmaður frá Hrísey bað þess að nafnið yrði ekki notað en hann var búinn að gera út báta með þessu nafni árum saman. Við þessum óskum urðu stofnendur og var nafninu breytt í Vör hf.
   Vör hf. reisti myndarlegt stálgrindarhús að Óseyri 16 yfir starfsemi sína en gata þessi er norðan Glerárósa. Gólfflötur skipasmíðahússins er um 560 m2. því láta mun nærri að lengd þess sé 35 m. og breiddin 16 m. Í húsinu var hægt að ganga frá skipum með rá og reiða. Við enda skipasmíðahússins að sunnan var reist 100 m2 tveggja hæða bygging.
Á neðri hæðinni voru trésmíðavélar í upphafi staðsettar en rýminu var síðar breytt í kaffistofu. Á efri hæð voru skrifstofur og teiknistofa. Þvert af skipasmíðahúsinu til austurs var í fyllingu tímans byggt 575 m2 verkstæðishús yfir trésmiði og stálsmiði. Húsið er um 25 m. langt og 23 m. breitt. 
   Það féll í hlut Hallgríms Skaptasonar að stýra fyrirtækinu en jafnframt því vann hann við sjálfar skipasmíðarnar.
Staða framkvæmdastjóra var Hallgrími ekki ókunn því að árum saman var hann búinn að vera aðstoðarmaður föður síns hjá Slippstöðinni hf.
   Þegar teningnum var kastað höfðu þeir félagar samband við Þorsteinn Þorsteinsson, skipasmíðameistara hjá Slippstöðinni hf. og föluðust eftir teikningum af bátum, sem hann hafði teiknað og Slippstöðin hf. smíðað. Þorsteinn tók vel í þessa málaleitan en babb kom í bátinn er forráðamönnum Slippstöðvarinnar hf. barst þetta til eyrna. Þorsteini var gert ljóst að yrði hann við þessari málaleitan þá jafngilti það uppsögn af hans hálfu. Skiljanlega vildu þeir félagar ekki verða til þess að Þorsteinn kæmist í slíkan vanda þeirra vegna enda maðurinn meistari þeirra allra. 
   Leitað var til Páls Hjartarsonar, skipatæknifræðings og hann beðinn um að teikna og útfæra nýja báta í samvinnu við þá félaga. Páll varð við þessari beiðni en hann var á þessum tíma starfsmaður Slippstöðvarinnar hf.. Seinna flutti Páll sig um set og gerðist deildarstjóri hjá Siglingastofnun Íslands og áttu Vararmenn mikil og góð samskipti við hann á þeim vettvangi. 
   Fyrsti báturinn var byggður fyrir Sjöfn sf. Grenivík. Eigendur Sjafnar hf. þekktu vel til Vararmanna vegna fyrri viðskipta við þá er þeir unnu hjá Slippstöðinni hf. Frændsemi var þarna einnig til að dreifa því að Oddgeir og Vilhjálmur Ísakssynir og Áskell Bjarnason eru systkinasynir. 
   Samningur um smíði bátsins var undirritaður á haustdögum 1971 og var hann tilbúinn til afhendingar er eigendur komu af vetrarvertíð í maí 1972. Þarna sýndu þeir félagar strax hversu af þeim mátti vænta.
   Eigendur Varar hf. lögðu mikið upp úr skipulagningu verka. Smíðatími allra stokkbyrðinga, sem þeir afhentu, var frá rúmum 12.000 klst. og upp í rúmar 14.000 klst. á bát og segja þessar tölur allt sem segja þarf um afköst þessara manna.
   Til marks um skipulögð vinnubrögð er gaman frá að greina að bönd í þrjá báta voru eitt sinn söguð niður í einni lotu af tveimur mönnum á örfáum dögum. Skipulagið eitt hefði þó dugað skammt ef ekki hefðu að verki staðið duglegir og hundþjálfaðir skipasmiðir. 
   Er búið var að bandreisa tíunda bátinn og byrða hann að hluta dundi ógæfan yfir fyrirtækið. Hún birtist að nóttu í rauðgulum eldtungum er skipasmíðahúsið stóð í björtu báli. Brann þarna allt sem brunnið gat að skrifstofu fyrirtækisins undanskyldri.
Aldrei varð fyllilega ljóst hvað brunanum olli en út frá rafmagni stafaði hann ekki því að öllu rafmagni hafði verið slegið út í húsinu kvöldið fyrir brunann. Einna helst var að því hallast að kviknað hefði í út frá ámoksturstæki, sem Norðurverk hf. átti. Ámoksturvélin var tekin inn í skipasmíðahúsið í lok vinnutíma nóttina fyrir brunann en á þessum tíma var Norðurverk hf. með hluta húsnæðis Varar hf. á leigu.  Þessi bruni reið fyrirtækinu næstum að fullu. Framleiðslan stöðvaðist en reynt var að afla tekna með almennri trésmíðavinnu samhliða endurbyggingu hússins.
Þó að húsið væri þokkalega tryggt þá rýrnaði tryggingarupphæðin jafnt og þétt í óðaverðbólgu þessa tíma á meðan að unnið var að endurreisn þess. Sá háttur var viðtekinn á þessum árum að gengið var frá upphæð tjónabóta samkvæmt mati og tryggingarfélagið skammtaði síðan tjónþola úr hnefa eftir framvindu verksins.
Er forráðamaður tryggingarfélagsins innti Hallgrímu eftir hvernig verkið gengi þá svaraði hann því til að sá galli væri á gjöf Njarðar að þrátt fyrir það að eldar hefðu verið slökktir í mars þá brynni enn í Vör. Spyrillinn hváði við þessu svari Hallgríms, sem leiddi honum fyrir sjónir að vaxtalausir peningar á verðbólgutímum væru ekki þeir sömu á dag og þeir voru í gær.
Eftir nokkurt þóf féllst tryggingarfélagið á þessar röksemdir Hallgríms og greiddi fyrirtækinu vexti á tjónaupphæðina, sem þá var aldeilis ekki venja. 
   Fimm ár liðu frá brunanum þar til næsta báti var hleypt af stokkunum. Hann var síðasti stokkbyrðingurinn, sem Vör hf. smíðaði. Einn súðbyrðing smíðaði í Vör hf. fimm árum seinna og rak hann lest þeirra báta sem fyrirtækið smíðaði. 
   Til frekari fróðleiks má geta þess að alla járnsmíði í báta Varar hf. annaðist Marinó Jónsson, Kjartanssonar, ættaður framan úr Eyjafirði. Um frágang vélbúnaðar sá Vélsmiðjan Oddi hf. og komu þar mest við sögu Jakob Kristinsson, Gunnar Baldvinsson og Sverrir Þórisson. 
Vegna verkefnaskorts við bátasmíði þá haslaði fyrirtækið sér völl á almennum byggingarmarkaði og byggði meðal annars Slökkvistöðina á Akureyri, grunn og sökkla undir viðbyggingu við Flugstöðina á Akureyrarflugvelli, sá um innréttingar á Íslandsbanka við Skipagötu á Akureyri og byggði hús og vann að fleiri verkum fyrir Laxá fóðurverksmiðju.
Fyrir verksmiðjuna í Krossanesi voru unnin viðamikil verk og fyrir Akureyrarhöfn annaðist fyrirtækið margskonar viðhald og smíði. Auk þessa var tilfallandi verkum, sem gjarnan fylgja svona rekstri, sinnt svo sem tími og aðstæður leyfðu. 
   Reksturinn gekk þó ekki sem skyldi eftir að bátasmíðin lagðist af og var Vör hf. lýst gjaldþrota í desember 1994 og fyrirtækið tekið til gjaldþrotaskipta árið 1995.
   Þar með lauk þessum kafla í sögu skipasmíða á Akureyri rúmum tuttugu og tveimur árum eftir að til var stofnað við eldhúsborð Skapta Áskelssonar.  
Hér að neðan verður getið þeirra báta sem fyrirtækið smíðaði og þeirra aðila, sem smíðað var fyrir.

Sjöfn ÞH-142.   ( 1262 )   B-1.
Stærð: 16,30 m. 26,40 brl. Smíðaár. 1972. Eik. Stokkbyrðingur.
Báturinn var smíðaður fyrir Sjöfn sf. Grenivík en að því fyrirtæki stóðu bræðurnir Oddgeir og Vilhjálmur Ísakssynir og mágur þeirra Erhard Joensen.                                                                                               
Smíði bátsins hófst um áramót í þann mund er þeir félagar fóru suður á vertíð og var smíðinni lokið þegar þeir komu af vertíðinni í maí. Bátinn áttu þeir félagar í sex ár og var hann sem ný er þeir létu hann frá sér. 
   Báturinn hét Sigurpáll ÞH-130 er í vélarúmi hans kviknaði 2. september 2008 um fjórar mílur norður af Húsavík. Á bátnum voru tveir bræður og náðu þeir að senda frá sér neyðarkall og fór björgunarbáturinn Jón Kjartansson frá Húsavík þeim til aðstoðar. Mennirnir voru teknir um borð í björgunarbátinn og fluttir til Húsavíkur þar sem að þeim var hlynnt á heilsugæslustöð bæjarins.
Slökkviliðsmenn og lögregla náðu að slökkva eldinn í bátunum og var hann dreginn til hafnar á Húsavík þar sem slökkt var í glæðunum. 
Báturinn var mikið skemmdur eftir brunann en í október 2009 var hann komin á miðin aftur eftir umfangsmikla viðgerð og nú undir nafninu Vilborg ST-100. Djúpavík er heimahöfn bátsins og eigandi hans "Geir Þórarinn Zoega ehf.".
Nýtt stýrishús var sett á bátinn og var það fengið af Sólborgu RE-22 (284) sem árið 1961 sigldi nýsmíðuð frá Slippstöðinni hf. Akureyri undir nafninu Anna ÓF-7. Fastlega má gera ráð fyrir að stýrishúsið, sem þarna var flutt á milli báta, sé ekki upprunalega húsið af Önnu ÓF-7, sem er nú að grotna niður í Njarðvíkurslipp.

Kristján ÍS-122.    
( 1303 )   B-2.
Stærð: 17,40 m. 28,80 brl. Smíðaár. 1973. Eik. Stokkbyrðingur.  
Báturinn var smíðaður fyrir Jón Kr. Jónsson og Sæmund Árilíusarson, Ísafirði en var seldur smíðaárið til Flateyrar.
Árið 2009 heitir báturinn Örn ÍS-31 og er í eigu A.Ó.A. útgerðar hf. á Ísafirði.

Arnarnes ÍS-133.   ( 1357 )   B-3.
Stærð: 17,47 m. 29,00 brl. Smíðaár. 1974. Eik. Stokkbyrðingur.  
Báturinn var smíðaður fyrir Arnarnes hf. Ísafirði en seldur smíðaárið feðgunum Gunnari Níelssyni og sonum hans Níelsi og Halldóri, Hauganesi Árskógsströnd.
Báturinn fékk nafnið Níels Jónsson EA-106 og er enn árið 2010 í eigu afkomenda Gunnars Níelssonar. 
Báturinn hefur þá sérstöðu að 80% af notkun hans hefur hin seinni ár verið bundin fiskveiðum en 20% ferðaþjónustu.
Að geta notað fiskibát til hvalaskoðunar og skemmtisiglinga með ferðafólk er mjög sérstakt og örugglega ekki á færi annarra en sérstakra snyrtimanna.
Mjög vel hefur verið hugsað um bátinn alla tíð frá því að hann kom á Hauganes og er lítinn mun á honum að sjá í dag og þann dag er hann hljóp af stokkunum fyrir rúmum 35 árum síðan.
Báturinn heitir Níels Jónsson EA-106 árið 2010.

Frosti ÞH-220.   ( 1373 )   B-4.
Stærð: 17,47 m. 29,00 brl. Smíðaár. 1974. Eik. Stokkbyrðingur.  
Báturinn var smíðaður fyrir Frosta hf. Grenivík en að þeirri útgerð stóðu bræðurnir Hörður og Jakob Þorsteinssynir. Bátinn áttu þeir bræður í rúm fjögur ár.
Útgerðarsaga þeirra bræðra teygir sig aftur til ársins 1910 er afi þeirra Ágúst Jónsson hóf útgerð ásamt konu sinni Kristjönu Sigvaldadóttur. Ágúst var kominn í beinan karllegg af Jóni Guðmundssyni bónda á Hellu á Árskógsströnd, sem galdra Jón var kallaður. Það skal því engan undra að hún sé göldrum líkust, útgerðarsaga ættarinnar.
Er Ágúst var alkominn í land þá tóku synir hans, Þorsteinn og Guðjón, við útgerðinni. Synir Þorsteins, Hörður og Jakob voru næstir til að reka útgerðina en nú stýra henni synir Harðar, þeir Þorsteinn og Sigurgeir, og er togari fleyið sem ber þá um saltan sjá. 
Frá þeim bræðrum fór eignarhald bátsins til Húsavíkur og þaðan á Faxaflóa- og Breiðafjarðarhafnir. Hann hefur nú, árið 2010, borðið á annan tug nafna á þessu hafsvæði.
Þann 16. september 2009 sökk báturinn við bryggju á Akranesi en náðist á flot og var tekinn á land í Daníelsslipp á Akranesi. Við óhappið skemmdist einn byrðingsplanki og var um hann skipt. Allur rafbúnaður varð ónýtur og var hann því endurnýjaður. 
Í janúar 2010 fór báturinn til Grundarfjarðar, fékk nafnið Gustur SH-55 og eigandi Sigurður Pétur Pétursson. Í apríl 2010 fékk báturinn nafnið Láki SH-55 og skráður eigandi SH-55 slf.
Báturinn er kynntur til sögunnar, á vef Hafþórs Hreiðassonar, Húsavík, sem ferðaþjónustubátur í eigu Gísla Ólafssonar, Grundarfirði. 

Vöttur SU- 3.   ( 1414 )   B-5.
Stærð: 17,47 m. 29 brl. Smíðaár. 1975. Eik. Stokkbyrðingur.  
Báturinn var smíðaður fyrir Fiskiðjuna Bjarg hf. Bakkafirði en því fyrirtæki stýrði Hilmar Einarsson. Báturinn var öðrum þræði keyptur í þeim tilgangi að þrýsta á stjórnvöld um varanlega hafnargerð á Bakkafirði.
Heimildarmaður að forsögu þessara kaupa er sonur kaupandans, Steinar Hilmarsson.
Þessi áform gengu þó ekki eftir og því seldi Fiskiðjuna Bjarg hf. Útgerðarfélaginu Þór sf. Eskifirði hlut í bátnum. Þeir aðilar sem stóðu að Þór sf. höfðu árum saman verið í viðskiptum við Fiskiðjuna Bjarg hf., sem Hilmar rak og lagt þar upp afla af 10 tonna báti sem þeir gerðu út.
Vöttur var því skráður á Eskifirði lengst af og að mestum hluta gerður þaðan út þau ár sem hann var í eigu þessara aðila.
Árið 1978 fór báturinn til Dalvíkur og hét þar Vinur EA-30, því næst Reykjavíkur þar sem hann hét Aðalbjörg ll RE-236 og þá til Þorlákshafnar þar sem hann fékk nafnið Gulltoppur ÁR-321.
Til Húsavíkur kom báturinn árið 1997 þar sem hann var skírður Haförn ÞH-26 og í eigu Ugga firkverkun ehf. Húsavík.
Árið 2010 er báturinn enn á Húsavík, undir sama nafni og í eigu sömu aðila. Hann lítur nánast út sem nýr sé og er greinilega vel við haldið.

Ægir Jóhannsson ÞH-212.   ( 1430 )   B-6.
Stærð: 17,47 m. 28,8 brl. Smíðaár. 1975. Eik. Stokkbyrðingur.  
Báturinn var smíðaður fyrir Ægi hf. Grenivík en að útgerðarfélaginu stóðu Guðjón Jóhannsson, Jóhann Ingólfsson, Sævar Sigurðsson, Pétur Eyfjörð og Gísli Árnason. 
Báturinn var í eigu þessara aðila í tæp átta ár, eða til ársins 1983, er hann var seldur til Húsavíkur þar sem hann hélt nafni sínu og einkennisstöfum.
Frá Húsavík fór báturinn til Sandgerðis árið 1993 og fékk þar nafnið Erlingur GK-212 en árið 1996 er einkennisstöfum breitt í GK-214.
Árið 1996 fékk báturinn nafnið Dagný GK-91 með heimahöfn í Vogum en tveimur árum seinna, eða 1998, var hann kominn til Vestmannaeyja og hét þar María Pétursdóttir VE-14.
Árið 2001 fékk báturinn nafnið Birta VE-8 og heitir svo enn árið 2010 og er í eigu TT Luna ehf. Vestmannaeyjum.
Skemmdir urðu á bátnum við bryggju í Keflavík í mars 2010, sem lagfærðar voru að einhverju leyti í Hafnarfirði en áætlað er að sigla honum til Akureyrar til fullnaðarviðgerðar.
Báturinn heitir frá 10 nóvember 2010 Víðir ÞH-212 með heimahöfn á Grenivík.

Hrönn ÞH-275.   ( 1452 )   B-7.
Stærð: 17,47 m. 28,8 brl. Smíðaár. 1976. Eik. Stokkbyrðingur.  
Báturinn var smíðaður fyrir Þorgeir Hjaltason,Raufarhöfn, sem átti hann í fjögur ár.
Frá Raufarhöfn fór báturinn til Grímseyjar og hét þar Þorleifur EA-88.
Eftir veru sína í Grímsey flutti báturinn sig á Siglufjörð þar sem nafnið Guðrún Jónsdóttir SI-155 kom á hann, fór þá á Ólafsfjörð undir sama nafni en einkennisstafir hans þar voru ÓF-27.
Báturinn gerði stuttan stans á Ólafsfirði og kom aftur til Siglufjarðar án nafnbreytingar og fékk þar gömlu einkennisstafina sína, SI-155.
Árið 2008 fékk báturinn nafnið Steini Vigg SI-110 með heimahöfn á Siglufirði. Eigandi bátsins er Rauðka ehf., sem er  ferðaþjónustufyrirtæki á Siglufirði, og hefur verið unnið að því að gera bátinn upp til til siglinga með ferðamenn.
Steini Vigg SI-110 verður tekinn í notkun í þágu ferðamanna á vormánuðum 2010.

Sigrún ÞH-169.   ( 1468 )   B-8.
Stærð: 17,47 m. 28,8 brl. Smíðaár. 1976. Eik. Stokkbyrðingur.  
Báturinn var smíðaður fyrir Sævar hf. Grenivík en stofnendur útgerðarfélagsins voru Daði Eiðsson og bræðurnir Brynjar og Sævar Sigurðssynir frá Svínárnesi á Látraströnd, sem var æskuheimili þeirra bræðra.
Báturinn var í eigu þessarar útgerðar í tæp tvö ár en fór þá á Siglufjörð og fékk nafnið Rögnvaldur SI-77. Næsta heimahöfn bátsins var Reykjavík frá árinu 1980 og þar hét hann Reykjaborg RE-25.
Eftir átján ára dvöl í höfuðstaðnum fór báturinn vestir á Patreksfjörð 1998 og hét þar Von BA-33 en eftir ársdvöl fyrir vestan fór báturinn á Eyrarbakka og fékk þar nafnið Hrímnir ÁR-51. Eftir fjögurra ára dvöl fyrir suðurlandinu sigldi báturinn fyrir Reykjanes og hafði tveggja ára dvöl í Garðinum, sem Harpa GK-40.
Svo virðist sem komin hafi verið heimþrá í bátinn og hann viljað sigla þau hafsvæði sem fóstruðu hann nýsmíðaðan því 2005 settti hann á norðlæga stefnu, gerði tveggja ára stop á Þingeyri, sem Björgvin ÍS-460 og ÍS-468, og sigldi síðan þaðan beint til Húsavíkur.
Til Húsavíkur kominn árið 2007 fékk báturinn nafnið Silvía ÞH. og hefur það hlutverk að sigla með ferðafólk á hvalaslóðir.
Eigendi og útgerðaraðili er hvalaskoðunarfyrirtækið Gentle Giants Whale Watching á Húsavík, sem árið 2010 notar Silvíu ÞH. til siglinga um Skjálvandaflóann ásamt öðrum bátum fyrirtækisins.

Flosi ÍS-15.   ( 1499 )   B-9.
Stærð: 17,47 m. 28,8 brl. Smíðaár. 1977. Eik. Stokkbyrðingur.  
Báturinn var smíðaður fyrir Jón M. Egilsson og Græðir hf. Bolungarvík og var í eigu þessara aðila í sex ár.
Báturinn heitir Ýmir BA-32, árið 2009, og er skráður á Bíldudal.

Bandreistur bátur. Brann 1978.   B-10.
Þessi bátur átti að vera í svipuðum dúr og þeir sem fyrirtækið hafði áður byggt en það lá ekki fyrir honum að mynnast við Ránardætur. Hann brann á stokkunum.

Þingey ÞH-51.   ( 1650 )   B-11.
Stærð: 12,6 m. 11,9 brl. Smíðaár. 1983. Eik. Stokkbyrðingur.
Báturinn var smíðaður fyrir Auðun Benediktsson, Kópaskeri, sem átti hann í tuttugu og fjögur ár en seldi þá Sjóferðum Arnars ehf. Báturinn er frambyggður og alla tíð verið mjög vel um hann hirt.
Bátinn teiknaði Brynjar Ingi Skaptason, skipaverkfræðingur, bróðir Hallgríms.
Báturinn var að því leyti frábrugðin öðrum bátum, sem fyrirtækið smíðaði að bolur hans var úr eik en yfirbygging öll úr áli. Það er að segja stýrishús, hádekk, þilfar og lunningar. Þessari byggingaraðferð höfðum þeir félagar kynnst í Noregi en þangað fóru þeir til að skoða nýjungar í tréskipasmíðum. 
   Teikningar af bátnum, frá kili að masturstoppum, voru sendar Siglingastofnun til samþykktar svo sem lög mæla fyrir um. Eitthvað stóð þessi nýi byggingarmáti í stofnuninni því að engin svör bárust frá henni í sex mánuði þrátt fyrir eftirrekstur.
Þar sem engin hreyfing var á málinu í allan þennan tíma þá tilkynntu þeir félagar stofnuninni að báturinn yrði byggður samkvæmt reglum Det Norske Veritas. Þegar málin voru komin í þennan farveg þá sá Siglingastofnun sitt óvænna og gaf leyfi til smíðinnar.
   Litlu munaði að illa færi er vinna við suðu á áldekki bátsins stóð yfir. Atburður sá er hér skal lýst átti sér stað er allur mannskapurinn var heima í hádegismat.
Á heimili Hallgríms sat húsbóndinn að snæðingi en skyndilega fékk hann hugboð um að eitthvað væri að úti í Vör. Svo sterkt sótti þetta á að hann hljóp frá mat sínum og keyrði út í Vör. Þegar þangað kom gaus á móti honum megna brunalykt úr smíðaskálanum. Stökk hann rakleiðis um borð í bátinn vopnaður brunaslöngu og sá strax að eldur var laus á milli banda aftast í bátnum. Tókst honum að slökkva eldinn og hringdi svo á slökkvilið bæjarins til öryggis. Frekari aðgerða reyndist ekki þörf en þarna mátti mjóu muna.
   Hvort bruni Varar fimm árum áður hafi setið í Hallgrími eða dulin öfl varað hann við skal ósagt láti. Um það verður hver og einn að dæma en alkunna er að sumir hafa öflugri sagnaranda en aðrir. 
Árið 2010 heitir báturinn Þingey ÞH-51 og er í eigu Sjóferða Arnars ehf. Kópaskeri.

Sævar NK-18.   ( 1818 )   B-12.
Stærð: 9 brl. Smíðaár. 1987. Fura og eik. Súðbyrðingur. Þilfarsbátur.
Báturinn var skarsúða og smíðaður fyrir Ármann Herbertsson, Neskaupsstað og var í eigu hans fram yfir aldamótin.
Báturinn hét Sævar NK-18 er hann var tekinn úr rekstri og felldur af skipaskrá 20. ágúst 2004.   
 
Samtals byggði Vör hf. ellefu báta. Mælitölur miðast við mestu lengd.
Brúttórúmlestir eru skráðar eins og upp er gefið í skipaskrá.
 
Samantektarlisti. 
Ár: Nöfn:  Efni: Stærð.  Heima­höfn: Tegund:
1972 Sjöfn ÞH-142.  Eik. 26,40 brl.  Grenivík.  Fiskiskip.
1973 Kristján ÍS-122.  Eik. 28,80 brl. Flateyri.  Fiskiskip.
1974 Arnarnes ÍS-133. Eik. 29,00 brl. Ísafjörður. Fiskiskip.
1974 Frosti ÞH-220. Eik. 29,00 brl. Grenivík.  Fiskiskip.
1975 Vöttur SU-3. Eik. 29,00 brl. Eskifjörður. Fiskiskip.
1975 Ægir Jóhannss. ÞH-212.  Eik. 28,80 brl. Grenivík.  Fiskiskip.
1976 Hrönn ÞH-275. Eik. 28,80 brl. Raufarhöfn.  Fiskiskip.
1976 Sigrún ÞH-169.  Eik. 28,80 brl. Grenivík. Fiskiskip.
1977 Flosi ÍS-15, Eik. 28,80 brl. Bolungarvík. Fiskiskip.
1983 Þingey ÞH-51. Eik. 11,90 brl. Kópasker. Fiskiskip.
1987 Sævar NK-18. Fura. Eik. 9,00 brl.  Neskaupsstaður Fiskiskip.
 
 
Í vinnslu 2010.
Árni Björn Árnason.
 
 


Senda fyrirspurn / ábendingu varðandi skipasmið
Nafn
Netfang
Ábending

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Þorgeir Baldursson

Farsími:

8620479

Heimilisfang:

Reynihlið 15 D 604 Hörgárbyggð

Staðsetning:

Hörgárbyggð

Um:

Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist Sjávarútvegi

Tenglar

Flettingar í dag: 4356
Gestir í dag: 17
Flettingar í gær: 4063
Gestir í gær: 33
Samtals flettingar: 1123482
Samtals gestir: 52258
Tölur uppfærðar: 18.1.2025 08:42:18
www.mbl.is