12.02.2011 01:55

Ólafur Guðnasson Skyndihjálparmaður ársins 2010

       

                        Ólafur Guðnasson  © mynd Morgunblaðið Ómar Óskarsson 2011

                    Ólafur Diðrik Ólafsson og Ólafur Guðnasson © Mynd Morgunblaðið Ómar Óskarsson 2011

Rauði kross Íslands hefur valið Ólaf Guðnason sem skyndihjálparmann ársins 2010 fyrir að sýna hárrétt viðbrögð á neyðarstundu þegar hann lenti í bílslysi fjarri byggð í fyrrasumar.

Samkvæmt upplýsingum frá RKÍ bjargaði Ólafur lífi sonar síns, Ólafs Diðriks Ólafssonar, með því að stöðva miklar blæðingar á höfði og handlegg hans þegar bíll þeirra valt á Háreksstaðaleið á Jökuldalsheiði.

Þegar slysið varð var Ólafur eldri sofandi í farþegasætinu en Ólafur Diðrik ók bílnum. Ólafur Diðrik sofnaði undir stýri og missti stjórn á bílnum með þeim afleiðingum að bíllinn fór út af og valt. Bíllinn gjöreyðilagðist, allar rúður brotnuðu og nota þurfti klippur til að ná Ólafi Diðriki út úr honum.

Ólafur faðir Ólafs Diðriks rumskaði fyrst á hvolfi þegar bíllinn var í loftköstum á leið út af veginum. Hann komst að sjálfsdáðum út úr bílnum en skömmu síðar kom vegfarandi að sem hringdi í Neyðarlínuna 112.

Ólafur kallaði í son sinn en hann svaraði ekki heldur umlaði og var greinilega með skerta meðvitund. Handleggurinn á honum lá út um gluggann á bílnum og höfuðið á gluggakarminum. Á höfðinu voru margir skurðir, höfuðleðrið hafði flest af og það fossblæddi úr hnakkanum. Ólafur notaði bol til að þrýsta á sárið og reyna að stöðva blæðinguna. 

Fleira fólk var þá komið á vettvangi og kona úr hópi viðstaddra lánaði honum handklæði til að vefja um höfuðið á Ólafi Diðriki. Síðar fengust betri þrýstiumbúðir til að gera að sárum hans. Ólafur Diðrik var aldrei með fullri meðvitund og barðist um en Ólafur faðir hans reyndi að tala við hann og halda honum rólegum á meðan þeir biðu eftir aðstoð sem barst um 40 mínútum eftir slysið. 

Ólafur Diðrik var fyrst fluttur á Egilsstaði og síðan til Reykjavíkur þar sem kom í ljós að hann var með brákaða höfuðkúpu og brákaða háls- og hryggjaliði. 

Ólafur eldri hefur unnið sem skipstjórnarmaður og hefur farið á mörg skyndihjálparnámskeið hjá Slysavarnaskólanum. Rauði krossinn hefur eftir læknum, að telja megi það algert kraftaverk að Ólafur Diðrik skyldi ekki lamast. 

Þetta er í tíunda sinn sem Rauði krossinn velur Skyndihjálparmann ársins. Viðurkenninguna hlýtur sá einstaklingur sem hefur á árinu veitt skyndihjálp á eftirtektarverðan hátt. 

Sex aðrir einstaklingar hljóta einnig viðurkenningar hjá deildum Rauða krossins fyrir að hafa beitt skyndihjálp og bjargað lífi á eftirtektarverðan hátt. Þeir eru Ágúst Þorbjörnsson fyrir endurlífgun á félaga sínum sem starfar í næsta húsi við vélsmiðju hans á Hvammstanga; Sæþór Þorbergsson fyrir endurlífgun á gesti sem fór í hjartastopp í líkamsræktarstöð á Stykkishólmi; Erna Björg Gylfadóttir fyrir endurlífgun á systur sinni ásamt vinnufélögum í HB Granda á Akranesi; Borghildur Sverrisdóttir í Hafnarfirði fyrir að losa aðskotahlut úr hálsi á föður síns í sumarbústaðaferð fjölskyldunnar; Alfreð Gústaf Maríusson fyrir að endurlífga samstarfsmann sinn í grunnskóla í Hafnarfirði; og Benedikt Gröndal, einnig í Hafnarfirði, fyrir að losa aðskotahlut úr hálsi sonar síns.

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Þorgeir Baldursson

Farsími:

8620479

Heimilisfang:

Reynihlið 15 D 604 Hörgárbyggð

Staðsetning:

Hörgárbyggð

Um:

Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist Sjávarútvegi

Tenglar

Flettingar í dag: 2696
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 4063
Gestir í gær: 33
Samtals flettingar: 1121822
Samtals gestir: 52256
Tölur uppfærðar: 18.1.2025 06:10:23
www.mbl.is