Novaspaský © Mynd þorgeir Baldursson 2000
Einn hinna svokölluðu Rússatogara þessi mun vera um 20 metrar á breidd og 108 metrar á lengd
Við eftirlitsflug Sifjar, flugvélar Landhelgisgæslunnar í gær var komið að sex rússneskum og einum spænskum togara að veiðum á Reykjaneshrygg á úthafskarfaveiðisvæði en samkvæmt reglum Norðaustur Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar-NEAFC (North East Atlantic Fisheries Commission), mega úthafskarfaveiðar ekki hefjast fyrr en 10 maí.
Með greiningarbúnaði flugvélar Landhelgisgæslunnar sást greinilega að togararnir voru allir með veiðarfæri í sjó. Eitt skipanna var auk þess með slökkt á ferilvöktunarbúnaði.
Á heimasíðu sjávarútvegsráðuneytisins segir að á fundi nefndarinnar í mars sl. náðist samkomulag um veiðar úthafskarfa á Reykjaneshrygg milli Íslands, Grænlands, Færeyja, Evrópusambandsins og Noregs en fulltrúar Rússlands mættu ekki til fundarins. Viðræður hafi staðið yfir árum saman en samkomulagið sem gert var gildir út árið 2014.
Málið verður kannað nánar, segir í frétt frá Gæslunni.