Kristján Guðmundur og Þorsteinn Már
Samkeppniseftirlitið hefur fyrir sitt leyti samþykkt kaup Snæfells ehf., dótturfélags Samherja hf., á aflaheimildum, landvinnslu og tveimur skipum Brims hf. Eins og áður hefur komið fram var skrifað undir kaupsamninga þann 1. maí sl. með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Ákveðið hefur verið að nýtt fyrirtæki beri nafnið Útgerðarfélag Akureyringa, ÚA, og mun Samherji formlega taka við rekstrinum eftir sumarlokanir nú í byrjun ágúst.
ÚA verður rekið sem sérstakt félag innan Samherja. Yfirstjórn félaganna verður sameiginleg og mun Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja, stýra útgerð ÚA. Gestur Geirsson, framkvæmdarstjóri landvinnslu Samherja, mun stýra landvinnslu félagsins. Fram hefur komið í fréttum að Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Brims á Akureyri, hefur verið ráðinn forstjóri Norðurorku.
"Útgerðarfélag Akureyringa á sér langa sögu og góða og skipar sérstakan sess í huga margra heimamanna. Það er að sjálfsögðu ábyrgðarhluti að taka við þessum rekstri en við munum leggja okkur fram um að hann gangi sem best," segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Heimild www.samherji.is