01.12.2011 09:25

Nýting sjávarafla

                               Snæfell Ea 310 © Mynd þorgeir Baldursson 2010

        Sigmundur Sigmundsson skipstjóri ©  mynd þorgeir Bald


Sigmundur Sigmundsson skipstjóri á Snæfelli Ea 310
Sigmundur Sigmundsson skrifar:
Að gefnu tilefni rita ég þennan pistil. Maður er alveg rasandi yfir ruglinu. Nú er staðan þannig hjá okkur sjómönnum mörgum, a.m.k eins og er, að það dynja látlaust á okkur nánast óvinnandi kröfur um bætta nýtingu á sjávarafurðum. Fyrir það fyrsta þá eru kröfurnar um að hirða allt af bolfiski sem fellur til við vinnslu á afla, það er hausa, afskurð og nú síðast lifur og hryggi. Þetta er gert á sama tíma og öllum útgerðum landsins er gerð grein fyrir því að nú megi þær hafa sig hægar því að ekki sé víst að þær haldi veiðiheimildunum sem þær hafa í dag, um nánustu framtíð.

Hvaða heilvita manni dettur þá í hug að fara út í fjárfrekar framkvæmdir við að endurnýja skipakost svo hægt verði að framfylgja auknum kröfum um nýtingu sjávarafurða? Það kaupir enginn heilvita maður nýtt innbú ef það á að brenna ofan af honum á morgun eða hvað? Þessar aðgerðir þýða bara eitt. Skipum mun fækka og störfum um leið! Sjómenn, sem starfað hafa lengi við sjófrystingu, hafa ávallt reynt að nýta afla eins vel og hægt er á hverjum tíma. 

Það eru ár og dagar síðan farið var að hirða afskurð af bolfiski á frystitogurum. Einnig er langt síðan farið var að frysta þorskhausa. Eins eru ár og dagar síðan byrjað var að hirða hausa og sporða af grálúðu. Af hverju? Það eru menn sem vinna við að finna nýja markaði fyrir sjávarafurðir til að selja á. Þeir selja það sem hægt er að selja. 

Það er a.m.k. svo hjá þeirri útgerð sem undirritaður hefur starfað hjá sl. 25 ár. Svo er það alltaf spurningin um það hvort hlutirnir borgi sig. Þetta hefur verið gert án þess að misvitrir þingmenn eða ráðherrar hafi fundið upp á því að þetta væri hægt og jafnvel fá greitt fyrir afurðirnar. Spurningin er hvort til séu markaðir fyrir viðkomandi afurð eða ekki? Það er að sjálfsögðu ekkert annað en fráleitt að eyða í kostnað við að framleiða afurð eða vöru ef ekki fæst upp í kostnað á henni.


Arðsemi
Þegar þetta er skrifað erum við staddir á frystitogara í 1.400 sjómílna fjarlægð frá Íslandi í Barentshafi sem er um 5 sólarhringa sigling til heimahafnar í sæmilegu veðri. Hér erum við að berjast við að nýta þann afla sem við megum fiska. Erum að frysta allt sem við getum og í raun að vinna við að skerða launin okkar vegna þess að við erum að frysta afskurð, hausa og hryggi sem falla til við vinnsluna. Fáum nokkrar krónur fyrir hausana og nokkrar krónur fyrir afskurðinn en spurning er hvort nokkuð fáist fyrir hryggina. Þetta erum við og höfum verið að gera í nafni góðrar nýtingar í mörg herrans ár. 

Reyndar hirða fæstir, sem sækja í Barentshaf, afskurð, hvað þá hausa því íslenskar reglugerðir ná ekki þangað. Flestir sem sækja í Barentshaf reyna að hámarka afköstin til að vera ekki lengur en þarf til að fiska sinn kvóta. Sumir hafa fleiri verkefni en aðrir og geta þá leyft sér að vera fljótari og sleppa því að standa í atvinnubótavinnu á fjarlægum miðum. 
Ekki er alltaf spurt hvort nokkuð fáist fyrir afurðirnar, hvað þá vinnuna! Það er jafnvel verið að borga með umbúðunum sem fara utan um afurðirnar. Síðan má kannski nefna það að hér í Barentshafi, þar sem aukið hefur verið við kvótann um margra ára skeið, hefur verið prýðis veiði, svo góð að við erum að eyða um 300 - 400 lítrum af svartolíu á klukkustund á meðan við erum að frysta margnefndar aukaafurðir sem við fáum síðan lítið sem ekkert fyrir! Við erum ekki að fiska á meðan við bíðum eftir að vinnslu ljúki við afskurð, hausa og hryggi.


Afleiðingar
Svo má benda á alvarlegar afleiðingar af þessu ótímabæra rugli með nýtingarreglugerðir. Það eru útgerðir sem munu leggjast af vegna þessara reglugerða um bætta nýtingu. Íslenski fiskiskipaflotinn er háaldraður, það eru skip sem hreinlega verður lagt vegna þessara krafna. 

Þetta get ég vitnað um þar sem undirritaður er með menn sem losuðu sig úr slíkri óvissu á dögunum. Sjómenn hafa oftast borið sig vel þó svo að kjör hafi á tíðum verið misjöfn. Það hafa verið misgóðir tímar til sjávar og sveita. Við sjómenn erum latir við að svara fyrir okkur. Það sést best á því hvernig við höfum látið misvitra ráðamenn setja á stéttina jafnt lög sem ólög í gegnum tíðina.

Lög voru sett á sjómannastéttina þegar það hentaði ráðamönnum vegna þess að útvegurinn var undirstaða þjóðarbúsins eins og sagt var. Það var a.m.k. einu sinni viðurkennt. Veit ekki hvað ráðamenn telja vera undirstöðu þjóðarbúsins í dag. Er á því að þeir viti það ekki sjálfir!

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Þorgeir Baldursson

Farsími:

8620479

Heimilisfang:

Reynihlið 15 D 604 Hörgárbyggð

Staðsetning:

Hörgárbyggð

Um:

Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist Sjávarútvegi

Tenglar

Flettingar í dag: 3572
Gestir í dag: 61
Flettingar í gær: 1455
Gestir í gær: 74
Samtals flettingar: 994993
Samtals gestir: 48568
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 14:07:43
www.mbl.is