Nú í vikunni gekk Samherji frá kaupum á Carisma Star, 52 metra löngu og 11 metra breiðu línuveiðiskipi. Carisma Star var áður í eigu Carisma Star AS í Måløy Noregi. Skipið var smíðað í Noregi 2001 og fór í gagngera yfirhalningu árið 2008 þar sem vinnsludekkið var meðal annars endurbyggt og vistarverur endurbættar. Skipið er mjög vel með farið og vel útbúið til línuveiða en skipið er með brunn í miðju skipinu, fremst í vélarrúmi þar sem línan er dregin í gegnum en fá skip í heiminum eru þannig útbúin. Aðbúnaður fyrir skipverja er allur til fyrirmyndar. Samherji hyggst gera skipið út á bolfisk á Íslandi á næstu mánuðum og mun skipið landa ferskum afla til vinnslu í landvinnslunum á Dalvík og Akureyri. Skipið er vel útbúið til vinnslu um borð, bæði fyrir flökun og heilfrystingu. Skipið er komið úr sinni síðustu veiðiferð í Noregi og landar á mánudaginn og fer síðan í slipp og verður í framhaldi af því afhent nýjum eigendum.