Línuskipið Þorlákur ÍS er kominn til hafnar á Ísafirði en togarinn Páll Pálsson ÍS dró það þangað í kjölfar þess að kælirör fór í vélarrúmi skipsins fyrr í dag með þeim afleiðingum að mikill sjór streymdi inn í vélarrúm þess. Þorlákur ÍS var þá á veiðum á Ísafjarðardjúpi.
Fjögur skip fóru á vettvang og þar á meðal kom björgunarskipið Gunnar Friðriksson frá Ísafirði og tvö fiskiskip frá Bolungarvík. Sjó var dælt úr Þorláki ÍS þar sem skipið hafði leitað vars undir Grænuhlið við norðanvert Ísafjarðardjúp. Páll Pálsson ÍS tók það síðan í tog til Ísafjarðar. Þyrla Landhelgisgæslunnar var á Ísafirði í viðbragðsstöðu á meðan skipin sigldu til lands en er nú á leið suður til Reykjavíkur.
Gunnar Friðriksson og dráttarbáturinn Sturla Halldórsson ÍS fylgdu skipunum síðasta spölinn inn á höfnina á Ísafirði. Jón Guðni Pétursson, skipstjóri á línuskipinu Þorláki ÍS, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að engin alvarleg hætta hafi verið á ferðum en áður en sjó hafi verið dælt úr skipinu hafi hins vegar ekki verið ljóst hvað hefði valdið lekanum.
|
Þorlákur is kemur til hafnar á Isafirði ©Halldór Sveinbjörnsson BB.IS |