„Við fundum loðnuna um daginn um 30 mílur suðvestur úr Kolbeinsey,“ segir Daði.
„Við byrjuðum á því að fara tíu mílur í alveg óslitnu og góðu lóði í vestur frá Kolbeinsey og svo lá hún þar í norðvestur að eynni. Þá var komið skítaveður svo við fórum að dóla okkur suður um, en þá kom aðalpakkinn. Þá vorum við í nánast óslitnu lóði en misþykku og sterku einar 25 til 30 mílur. Það var mjög mikið að sjá á þessu rjátli, þetta virtist alltaf vera að slæðast undir. Biggi á Vilhelm var á einhverju sjö mílum austur af okkur og hann var líka í lóði svo þetta var töluvert svæði.“
Hafró fer líklega um miðjan mánuðinn á svæði til mælinga. „Þeir ætluðu að leyfa okkur að finna þetta fyrst og fara svo af stað,“ sagði Daði.
Eskja gerir einnig út uppsjávarskipið Jón Kjartansson. Hvað er að frétta af honum?
„Hann er á kolmunna og kominn með 750 tonn. Hefur verið að fá upp í 300 tonn í holi. Hann er sunnarlega í færeysku lögsögunni, suður af Munkagrunni rétt norðan við línu. Við tökum venjulega á móti kolmunnanum við línuna, þegar hann kemur inn í færeyskan sjó og fylgjum honum svo þaðan út og svo norður eftir, eftir loðnuvertíð.“
Kolmunnakvótinn hefur verið aukinn en Daði segir að hann megi sennilega ekki vera mikið meiri upp á verðið á honum til bræðslu. Það megi ekki fara niður fyrir 15 til 18 krónur, því þá borgi sig ekki að veiða þetta kvikindi. „Það var alveg skelfilega lítið sem sat eftir á kolmunnanum í fyrra. Það var talið í tíu þúsundköllum. Ég er búinn að heyra að bræðsluverðið byrji ekki nema í 20 krónum, en verð á mjöli og lýsi hefur fallið alveg svakalega síðan í fyrra.“
Daði er ánægður með gang mála á síðasta ári.
„Síðast ár var mjög gott hjá okkur. Við náðum að vera á makrílveiðum alveg fram í október og náðum öllum okkar kvóta í honum. Heildarafli og verðmæti liggur ekki alveg fyrr en árið var gott. Það gekk einnig vel á Jóni Kjartanssyni sem fiskaði mjög vel á loðnu og var aflhæstur á kolmunnanum. Útlitið fyrir árið í ár er líka nokkuð gott. Aukinn kolmunnkvóti, vonandi aukinn makrílkvóti, en síldin er niður um þriðjung og lítill upphafskvóti í loðnu. Það getur breyst til batnaðar en þessi djöfuls veiðileyfagjöld er hrikalega ósanngjörn. Þar er ekkert tillit tekið til þess hvað það kostar á ná í fiskinn og hve langt þarf að sækja hann. Eins og útlitið er, eru nokkrar útgerðir sem ekki hafa bræðslurnar með sér sem óvíst er að fara nokkuð á kolmunna. Menn kæra sig ekkert um að borga með sér á veiðunum,“ sagði Daði.
Meðfylgjandi myndir af Daða Þorsteinssyni og skipinu Aðalsteini Jónssyni SU í höfn á Akureyri tók Þorgeir Baldursson.
Heimild www.Kvotinn.is