Umtalsverðar breytingar eru nú orðnar á rekstrarumhverfi báta í krókakerfinu. Á síðasta ári var aflétt þeim stærðarmörkum sem voru á bátunum, það er 15 brúttótonn og hámarkið fært upp í 30 tonn. Í kjölfarið hefur smíði á stærri bátum farið af stað. Trefjar afhentu á síðasta ári einn slíkan báta innan lands og munu afgreiða tvo til viðbótar á næstunni.
„Síðasta var ágætt,“ segir Högni Bergþórsson hjá Trefjum í samtali við kvotinn.is. „Við afgreiddum níu báta bæði innan lands og erlendis, svipað og verið hefur síðustu árin. Það var heldur meira af bátum selt til útlanda en innan lands en undir lok ársins afgreiddum við 30 tonna bát til Bolungarvíkur, Jónínu Brynju. Ég held að það sé örugglega fyrsti nýsmíðaði 30 tonna báturinn í þessu nýja kerfi, sem breytt var síðastliðið sumar. Þegar menn vita af einhverjum slíkum breytingum í farvatninu, halda þeir að sér höndum, þar til breytingarnar liggja fyrir. Svo fór annar 30 tonna bátur fyrripart ársins til Noregs,“ segir Högni.
Þannig að það hefur verið nóg að gera?
„Það er annars þannig,“ segir Högni, „að fjöldi bátanna segir ekki alla söguna um umfangið. Það fer aðallega eftir því hvernig báta er um að ræða, bæði hve stórir þeir eru og hve flókin smíðin er. Þannig er meiriparturinn af smíðunum í fyrra fremur flóknar smíðar. Veltan var því kannski hærri en fjöldi bátanna segir til um. Við vorum svo með fleiri báta í smíðum í fyrra og afhendum til dæmis tvo 30 tonna báta fyrir innlendan aðila á fyrstu mánuðum ársins og sjáum framhald á slíkri smíði. Árið í ár er því vel bókað hjá okkur.“
Eru trillukarlarnir þá að stækka við sig í stórum stíl?
„Þrátt fyrir að nú sé heimilt að vera með allt að 30 tonna báta í kerfinu er meirihluti útgerða í kerfinu ekki í slíkum hugmyndum. Margir eru að spá í minni báta, sem ætla sér ekki í svona stórt, en geta nú betur sniðið þá að þörfum sínum en áður eftir að leyfilegt er að fara yfir 15 tonna markið. Við erum með samninga um nokkra slíka báta í gangi hérna innan lands. 30 tonna bátarnir tveir eru fyrir Einhamar í Grindavík. Þeir eru nú með þrjá 15 tonna báta með beitningarvélum um borð og eru að endurnýja með þessum stóru, sem einnig verða með beitningarvélum.
Við erum líka að smíða báta í annað en fiskveiðar og til dæmis afgreiddum við einn farþegabát í fyrra og reynum að vera ekki með öll eggin í sömu körfunni. Það hefur reynst okkur vel undanfarin ár til að vera ekki alveg háðir sveiflunum í sjávarútveginum, bæði hér heima og erlendis. Við erum að afgreiða báta til landa víða í Evrópu og jafnvel einn og einn í öðrum heimsálfum. Heimamarkaðurinn er þó fyrst og fremst Ísland og Norður-Evrópa.“
En hvernig sér Högni fyrir sér að þróunin í smíði báta fyrir krókakerfið verði í nánustu framtíð?
„Einhverjir fara í það að stækka bátana sína í 30 tonn, en flestir eru ekki að hugsa svo stórt. Margir eru með minni báta og una glaðir við sitt umfang og endurnýja báta sína í svipaða stærð áfram, meðan aðrir eru kannski að bæta við sig heimildum til að skapa grundvöll til stækkunar bátanna. Hingað til hefur verið regla frekar en undantekning að menn hafa verið að byggja bátana eins stóra og leyfilegt er innan kerfisins og beita til þess ýmsum aðferðum, en nú ættum menn síður að þurfa þess. Þeir sníða sér frekar stakk eftir vexti. Auðvitað mun afkoma af veiðunum frá ári til árs spila þarna stórt hlutverk einnig.
Þá er talsverður verðmunur á 15 tonna og 30 tonna bát og afkastagetan í takt við það. Menn hafa möguleika á því að gera miklu meira á 30 tonna bát eins og gefur að skilja, t.d. varðandi meðferð á afla, aðbúnað fyrir skipverja og að geta sótt í verra veðri.“
En hvað kostar svona fleyta?
„30 tonna bátur getur kostað frá rúmlega 100 milljónum upp i 160 til 170 milljónir, eftir því hvaða búnaður er settur um borð. Mesti verðmunurinn liggur í því hvort um er að ræða bát með beitningarvél eða balabát og hvort hann er yfirbyggður eða ekki. Verð á vélbúnaði, siglinga- og fiskleitartækjum er einnig mjög breytilegt. Þar getur legið tugmilljóna munur,“ segir Högni Bergþórsson.
Á meðfylgjandi mynd eru bátarnir tveir sem Trefjar eru að smíða fyrir Einhamar í Grindavík.