Fjölnir SU 57 Kemur til Húsavikur © mynd Þorgeir
„Við fengum 20% verðfall á allar afurðir í upphafi síðasta ár eins og aðrir og ég held að bolfiskfyrirtækin hafi ekki klárað að vinna úr því á árinu. Menn voru almennt með slakari afkomu í bolfiski í fyrra en árið áður. Staðan nú er heldur betri enda menn að laga til hjá sér og hagræða. Ég held að afleiðingin af lægra afurðaverði, sérstaka veiðigjaldinu og tækniframförum veiða og vinnslu síðustu ára verði að um verulega samþjöppun verður að ræða. Það er búið að leggja það miklar álögur á greinina að hún getur ekki haldið áfram óbreytt. Einhverjir verða tilneyddir til að hætta, eins og reyndar alltaf hefur verið, en mesti skaðinn yrði sá ef menn missa áhugann á því að stunda útgerðina og hætti því einfaldlega af þeim sökum. Það sé ekki lengur þess virði að standa í þessu þegar allt sem er búið til verði af þeim tekið,“ segir Pétur Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis hf. í Grindavík í samtali við kvotinn.is
„Ég held reyndar að við séum með um 30% of mörg skip í bolfiski á miðunum og sé því fyrir mér þriðjungsfækkun á næstu þremur árum eða svo. Það eru mjög mörg skip, sem eru ekki nýtt að fullu og ljóst að menn verða annaðhvort að sameinast um rekstur eða sameina fyrirtæki. Hagræðingin snýst ekki endilega um það hver stór fyrirtækin eru, hvort þau eru með 5% eða 10% kvótans. Hún snýst um það að þau skip, sem eru í útgerð hafi næg verkefni allt árið um kring og þau fiskhús sem áfram verða í rekstri hafi nægt hráefni allt árið. Það er eina leiðin til að hægt sé að byggja upp þokkalegt markaðsstarf. Í framhaldinu er síðan hægt að vinna úr öllu sem til fellur með einhverjum skipulegum hætti. Við erum í dag með mjög mörg skip, sem eru ekki nýtt nema hluta úr viku allan ársins hring og eða lagt vikum saman yfir sumarið. Í mörgum tilfellum er samsetning á kvóta bátanna þannig að þeir geta ekki verið að allt árið. Því verður þróunin þannig að á sjó verða aðeins skip sem hafa heimildir sem duga allt árið,“ segir Pétur.
En hvernig gengur þeim ‚ nýta sína báta, sem eru fimm og allir á línu?
„Við gerum reyndar okkar báta út meira og minna allt árið, en við erum kannski of stóran hluta þess að veiða fisk, sem er ekki mjög arðbær. Við erum erum mikið í keilu og löngu og ég tel að gengið sé nokkuð nærri þessum stofnum. Þetta eru þó helstu stofnarnir sem við bjóðum útlendingum að veiða úr, það er Norðmönnum og Færeyingum. Veiði á keilu er eins og akuryrkja. Það er hægt að nýta svæðin með ákveðnu millibili og Færeyingar og Norðmenn vita hvernig við högum okkur og eru búnir að „yrkja“ svæðin áður en við komum á þau. Ég myndi ekkert gráta það þó Norðmenn færu héðan út og í raun og veru eigum við bara að semja við Norðmenn um gagnkvæmar veiðiheimildir, þorsk í Barentshafi fyrir þorsk á Íslandsmiðum. Af hverju á línuútgerðin að gjalda fyrir það að togarar héðan séu að sækja þorsk í Barentshafið. Það gildir annað um Færeyinga, því við erum ekki með bolfiskveiðiheimildir á móti hjá þeim og allir vilja gjarnan rétta þeim hjálparhönd þegar illa stendur á fyrir þeim. Mér finnst einfaldlega rangt að veita þeim leyfi til veiða úr þessum stofnum sem eru þeir sem eru hvað veikastir á Íslandsmiðum auk þess að þeir eru það smáir að þeir þola ekki mikla sókn. Svo er það að auki mjög athugunarvert að bæði Norðmenn og Færeyingar undirbjóða okkur alveg stöðugt á mörkuðum fyrir þessar fisktegundir. Þeir bjóða saltfisk úr keilu og löngu á það lágu verði að það setur okkur í verulegan vanda.
Við teljum, að þó skipin okkar séu að meira og minna allt árið, getum við veitt miklu meira á þau með því að beina þeim í þorsk, hætta að forðast hann og fara að veiða hann. Gætum við breytt sóknarmynstrinu þannig, gæti það alveg leitt til um 20% aflaukningar. Við eigum að geta tekið rúmlega 4.000 tonn á þessi stóru línuskip á ári. Við myndum þannig treysta okkur til að taka 20.000 tonn á okkar fimm báta, en erum að veiða 17.000 tonn. Væru svona bátar í þorski allt árið og stoppuðu aldrei gæti hámarksveiði hjá þeim verið um 5.000 tonn.“
Pétur sér því fyrir sér að miðað við aðstæður séu eins og nú, muni skipunum fækka enn meira en er í dag.
„Ísfiskskipunum mun fækka og þau verða öflugri og smábátaflotinn getur tekið sínar heimildir á helmingi færri báta en nú er gert. Ég er nokkuð viss um að þessi tilfærsla er byrjuð. Auðvitað ýtir veiðileyfagjaldið undir þessa þróun, en burt séð frá því eiga menn alltaf að leita mestu hagræðingar, sem náð verður. Menn komast í raun ekkert upp með annað og það ætti ekki að þurfa auknar álögur til að ýta mönnum út í hagræðinguna,“ segir Pétur.
En er ekki eðlilegt að útgerðin greiði til samfélagsins fyrir aðganginn að auðlindinni?
„Það finnst öllum sjálfsagt að menn borgi meiri skatta í þessari atvinnugrein en öðrum. Menn geta haft hvaða skoðun sem er á því hvað er best í þeim efnum fyrir þjóðina í heild. Um það er orðin sæmileg sátt svo lengi sem skattheimtan sé hófleg. Þeim mun hærra sem farið er í skattheimtunni falla fleiri fyrir borð. Á síðustu 20 árum er búið að taka þriðjung af þorskveiðiheimildum aflamarksskipanna og dreifa þeim annað, þannig að miklu fleiri eru að taka fiskinn en þörf er á. Þróunin í uppsjávarfiskinum hefur verið þveröfug. Þar hafa menn safnast saman í nokkrar öflugar einingar og afkoma þeirra er fyrir vikið mun betri en bolfiskfyrirtækjanna. Þau eru því færari um að taka á sig auknar álögur en við sem erum í bolfiskinum, þó í raun eigi jafnt yfir alla að ganga.
Það má líka deila um það hvernig skattheimtunni skuli háttað. Hvort taka eigi skatt af framlegð, eftir fisktegundum, eða ákveða fasta tölu eða einfaldlega ákveðna prósentu af hagnaði hvers og eins. Ég sé ekki fyrir mér að stjórnvöld láti skuldsett félög fara á hausinn vegna gjaldanna. Þá þarf að koma einhver vörn gagnvart skuldapakkanum og þá er í raun verið að gera það sama og ef farið er í gegnum efnahagsreikninginn og hagnaðurinn skattlagður. Þess vegna væri að mínu mati besta aðferðin að greitt væri fast gjald fyrir veiðiheimildirnar samkvæmt framlegð hverrar tegundar á hverjum tíma og síðan ákveðið fast hlutfall af hagnaðinum. Þannig leiðir fjárfesting í skipum og vinnslubúnaði til lægri gjalda og virkaði því hvetjandi til fjárfestingar en er ekki stöðvuð fyrirfram. Það er löngu orðin veruleg þörf á endurnýjun í bolfiskveiðum.“ segir Pétur Pálsson. Heimild Kvotinn.is
|