Nýr bátur, Ásdís ÍS 2, bættist í flota Bolvíkinga á laugardag. Það er Mýrarholt ehf., sem kaupir bátinn sem áður hét Margret SH 177 og var gerður út frá Rifi á Snæfellsnesi. Þegar báturinn var um það bil kominn í höfn í Bolungarvík á laugardag var honum snúið við en annar bátur, Einar Hálfdáns ÍS-11, hafði orðið vélarvana og þurfti að draga hann í land. „Það var bara eitthvað smotterí að honum, hann var farinn út aftur eftir skamma stund,“ segir Guðmundur Einarson útgerðarmaður í Bolungarvík.
Fyrirtækið keypti einnig 12,4% aflahlutdeild í innfjarðarækju í Ísafjarðardjúpi. Guðmundur á Mýrarholt ásamt Jóni Þorgeiri bróður sínum og sonum þeirra beggja. Aðspurður hvort frekari aflaheimildir en hlutdeildin í Djúprækjunni hafi fylgt með í kaupunum segir Guðmundur svo ekki vera. „Hann fer á rækju í haust en við erum að vonast til að geta fengið kvóta til að fara dragnótarveiðar í sumar. Rækjukvótinn sem Guðmundur og félagar kaupa var áður á Matthíasi SH sem var á rækjuveiðum í Ísafjarðardjúpi í vetur.
Báturinn er smíðaður í Póllandi og kláraður hjá Ósey í Hafnarfirði árið 1999 en hann var skutlengdur árið 2008. Hann er 65 brúttótonn að stærð. Fyrsta árið eða svo verður Guðmundur skipstjóri á bátnum en seinna meir mun Einar sonur hans taka við skipstjórn.
Heimild BB.is
Frá komu Ásdisar IS 2 með Einar Hálfdáns is 11 i togi
|