Bobbiarnir klárir til sjósetningar á Flateyri
Það er að lifna yfir útgerð Bobby-báta á Flateyri nú þegar líður að sumri. Bátarnir eru gerðir sjóklárir einn af öðrum og vestur á Firði koma Þjóðverjar í stórum stíl til að fara á sjóstangaveiði. Steinþór Bjarni Kristjánsson, framkvæmdastjóri Iceland Pro Fishing, segir að aukning verði á veiðinni í sumar, Þjóðverjunum fari nú fjölgandi eftir nokkra lægð síðustu ár. Fyrirtækið á 22 smábáta frá Seiglu, sem eru sérhannaðir fyrir veiðar af þessu tagi, en um 16 eru að jafnaði í drift hverju sinni. Steinþór Bjarni er því líklega með fleiri báta í útgerð en aðrir starfsbræður hans í fiskveiðum.
Það var því frekar létt yfir Steinþóri Bjarna, þegar kvotinn.is spjallaði við hann. „Okkar stærsti hópur eru Þjóðverjar sem koma ár eftir ár til að veiða og njóta náttúrunnar hér fyrir vestan. Við höfum ekki verið að auglýsa þetta markvisst fyrir Íslendinga en tökum alltaf ferðir með þeim, þegar þess er óskað og við getum komið því við. Hávertíðin stendur yfir hjá okkur í júní, júlí og ágúst, en við höfum verið að reyna að lengja tímabilið og erum í raun í gangi frá því um miðjan apríl og út september. Yfir veturinn eru bátarnir svo teknir upp, því fyrir þá eru engin önnur verkefni önnur. Við getum ekki farið með þá á aðrar veiðar,“ segir Steinþór Bjarni. Hann leggur áherslu á að þó ekki sé um hefðbundna fiskibáta að ræða, uppfullir þeir allar kröfur um öryggi sem í gildi eru fyrir slíka báta.
Ferðirnar eru settar þannig upp að oftast eru fjórir eða sex saman í hóp og eru með bátinn í viku. Þeir veiða þá á daginn og landa aflanum í frystihús á svæðinu, sem kaupa hann til vinnslu. Veiðimennirnir fá semsagt ekki fiskinn sem þeir veiða, en útgerðin er með samninga við húsin sem kaupa fiskinn og geta ferðmennirnir fengið 20 kílóa einangraðar töskur af frystum fiski til að taka með heim. Þannig er útgerð bátanna fjármögnuð með fisksölu auk gjaldsins sem ferðamennirnir greiða.
En hvernig er það, þarf ekki kvóta til að haldi úti svona öflugri sjóstangaveiði?
„Jú við þurfum kvóta. Hér áður fyrr gat það verið vandamál og útvega kvóta en síðustu árin hefur ráðuneytið gefið út kvóta til frístundaveiði. Hann er nú 300 tonn og hefur alveg dugað þeim fyrirtækjum sem eru svona útgerð, sem eru nokkur, meðal annars tvö önnur hér fyrir vestan. Við greiðum fyrir þessar heimildir ákveðið hlutfall af leiguverði á almennum markaði daginn áður. Þetta gengur alveg upp og við erum bara þokkalega brattir,“ segir Steinþór Bjarni Kristjánsson.
Meðfylgjandi myndir tók Þorgeir Baldursson.
|