| 
						 Nýi Sigurður mynd af vef Isfélags Vestmannaeyja 
						Nýju skipi Ísfélags Vestmannaeyja hf. var gefið nafnið Sigurður í Celiktrans skipasmíðastöðinni í Istanbúl í Tyrklandi í dag. Skipið verður afhent tilbúið til veiða á næstu dögum og fær það einkennisstafina VE 15. 
						Sigurður VE er 80 metra langur og 17 metra breiður og er vel búinn til veiða á uppsjávarfiski s.s. loðnu, síld, makríl og kolmunna.  Aðalvélin er 4.500 kW og kæligetan er 2x1.300.000 kcal/?klst. Kælitankar skipsins  eru 12 og eru samtals 2.970 rúmmetrar þannig að burðargeta skipsins er mikil og styður hún vel við öfluga landvinnslu félagsins í Vestmannaeyjum og á Þórshöfn. 
						Eldra skip Ísfélagsins með sama nafni var smíðað árið 1960 í Þýskalandi og var 72 metra langt og 10 metra breitt.  Í því var 1.766 kW Nohab Polar aðalvél og bar skipið um 1.500 tonn í lestum sem ekki voru útbúnar til að kæla aflann.  
						Í fréttatilkynningu Ísfélagsins segir að kaupin séu liður í endurnýjun á skipaflota Ísfélagsins og þáttur í hagræðingaraðgerðum þess ekki síst í kjölfar  sífellt aukinnar skattlagningar stjórnvalda. „Félaginu er ætlað að greiða um einn og hálfan milljarð í veiðigjöld og tekjuskatt á þessu ári og er félaginu því nauðsynlegt að fækka skipum og auka hagræði á öllum sviðum rekstursins.“ 
						Gera má ráð fyrir að hið nýja skip leysi tvö af eldri skipum félagsins af hólmi með tilheyrandi lækkun olíu- og launakostnaðar.  
						Skipstjóri á Sigurði VE 15 er Hörður Már Guðmundsson og yfirvélstjóri er Svanur Gunnsteinsson. 
						 |