04.01.2015 16:15

Hákon EA 148 Mokfiskar Sild

                2407-Hákon EA 148  á Stakksfirði  © Þorgeir 2014

Þeir byrjuðu árið vel á Hákoni EA. Fóru á síld vestur af Garðskaga og tóku 700 tonn í tveimur stuttum holum. Síðan hafa þeir verið að flaka og frysta síldina við Helguvík og klára það væntanlega í nótt.
„Við erum á síld í fyrsta túr eftir áramótin. Það gekk bara vel við fórum þarna út og fengum fínan afla og höfum síðan legið hérna inni undir Helguvík og verið að vinna. Við fengum þetta um 90 til 95 mílur vestur úr Garðskaganum. Það var ágætt að sjá á þessum bletti sem við vorum á. Við fórum ekki yfir mikið svæði. Maður er ekkert að því þegar alltaf er brjálað veður. Maður reynir þá að nota tímann sem gefst vel og fá í skipið til að vinna úr. Annars er daga munur á þessu eins og er alltaf á síld, en reyndar hefur gengið vel að ná í síld í allt haust þarna úti, bara mjög vel,“ sagði Arnþór Pétursson, stýrimaður á Hákoni, þegar kvotinn.is sló á þráðinn til hans.
Veiðar á íslensku síldinni hafa gengið vel í haust og hefur nú nánast öll verið tekin nokkuð vestur af landinu en ekki inni á Breiðafirði eins og undanfarna vetur. „Þeir byrjuðu þarna einhvers staðar uppi á Flákanum og svo eru menn búnir að vera djúpt í Kolluálnum og búið að veiða meirihlutann af þessu þarna úti, 80 til 90 mílur vestur úr Garðskaganum,“ sagði Arnþór.
Þetta fer allt í frystingu en þeir eru að frysta ríflega 100 tonn á sólarhring. „Þetta er svona 300 til 330 gramma meðalvigt, mjög feit og falleg síld. Við erum að flaka og roðfletta síldina og þá fara upp í 110 tonn í gegn á sólarhring. Hún fer á markaði í Frakklandi og Rússlandi. Við höfum ekki verið að taka mikið af samflökum núna og erum að velja úr þá rússnesku kaupendur sem menn telja að geti borgað. Við verðum búnir að vinna einhvern tíman í nótt og löndum svo afskurðinum í bræðslu í Helguvík á morgun. Ég hugsa að það verði svo ekkert veiðiveður fyrr en á föstudag, jafnvel laugardag. Það er alltaf hundleiðinlegt veður þarna úti og erfitt sjólag. Það er alveg þokkalega tíður gestagangaur af lægðum á þessum tíma árs. Þær eru svo ægilega krappar líka, eru alvöru gusur sem koma. Þess vegna er gott að geta notað þessar stundir sem dúrar til að veiða og geta svo bara verið í vari með síldina í kælitönkunum að vinna í nokkra daga, en þá þarf líka að landa hratinu reglulega.“
Þeir á Hákoni eru komnir með um 7.500 tonn af íslensku síldinni síðan í haust en kvótinn hjá þeim er um 8.800 tonn. „Íslandssíldin hefur verið okkar sterkasta vígi, eigum hlutfallslega mestar heimildir  þar. Það er ekki alveg búið að útfæra hvernig þetta verður svo hjá okkur núna á næstunni, en við verðum einhverja daga áfram á síld. Best væri svo að fara á loðnu, en kolmunninn kemur einnig til greina. Þeir hafa verið að fá einhvern kolmunna við Færeyjar, eitthvert rjátl búið að vera hjá þeim. En við verðum einhverja daga á síldinni.
Hákon er með um 3.000 tonna loðnukvóta miðað við bráðabirgðaúthlutun sem er aðeins ríflega 120.000 tonn. Þá eru þeir með um 10.000 tonna kvóta í kolmunna svo næg verkefni eru framundan á næstunni að sögn Arnþórs.
Ljósmynd Þorgeir Baldursson.

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Þorgeir Baldursson

Farsími:

8620479

Heimilisfang:

Reynihlið 15 D 604 Hörgárbyggð

Staðsetning:

Hörgárbyggð

Um:

Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist Sjávarútvegi

Tenglar

Flettingar í dag: 1318
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 4063
Gestir í gær: 33
Samtals flettingar: 1120444
Samtals gestir: 52254
Tölur uppfærðar: 18.1.2025 05:49:23
www.mbl.is