10.01.2015 13:49

30 ár frá strandi 989 Sæbjargar Ve 56 við Hornafjörð

 

 

 

 

 989 Sæbjörg VE 56 á strandstað mynd Morgunblaðið Rax 

 

30 ár frá strandi Sæbjargar Ve 56 17.des. nk.

 

Á loðnuveiðar með Sæbjörgu VE 56.

Hausti 1984 bjó ég og fjölskylda mín í Keflavík og ég réð mig á Sæbjörgu Ve 56 til loðnuveiða.        Hringt var í mig og mér tilkynnt að veiðar mættu byrja 4. nóv. og mín vænst til Eyja 2. nóv. Við litla fjölskyldan sigldum með Herjólfi til Eyja 2. nóv. ég fór beint um borð í Sæbjörgu, nótin var að koma niður á bryggju og var tekin um borð. Okkur var sagt að mæta á miðnætti þá yrði lagt í hann.                                  Við mættum á tilsettum tíma og lagt var af stað þegar allt var tilbúið. Á þessum árstíma er loðnan vestur og norð vestur af landinu og var stefnan tekin þangað þegar við vorum komnir vestur fyrir Reykjanesið.

Þegar búið var að sleppa fangalínum skipsins, varð maður að finna sér kauju til að sofa í, ég fékk efri kaujuna í fremstu káetunni. Klefafélagi minn varð gæskurinn að austan hann Kristbergur Einarsson.            Þegar ég var búinn að koma fötunum mínum fyrir í skápnum og ganga frá sæng og kodda, lagðist ég í kauju mína og ætlaði að sofna. Ég var ræstur um morguninn og sagt að ég eigi vakt upp í brú eftir tíu mínútur. Ég fór upp og fékk mér morgunmat og svo upp í brú. Stefán Geir Gunnarsson 2. stýrimaður var á vakt og stjórnaði Sæbjörgu VE 56. Við vorum komnir vestur undir Reykjanestá og vorum að fara að beygja í stjór og taka stefnuna vestur fyrir Snæfellsnes. Þokkalegasta veður var og spáin góð. Ég hafði mjög gaman að því að horfa fram eftir skipinu, svakalega er þetta langt skip, ég hafði ekki verið á svona löngu og stóru skipi áður, með allar lestar fullar af loðnu mældust það um 610 tonn úr skipinu.

Þeir sem voru skráðir á Sæbjörgu þetta haust voru eftirtaldir: Ögmundur Magnússon skipstjóri, Hafþór Theódórsson 1. stýrimaður, Stefán Geir Gunnarsson 2. stýrimaður, Theódór Ólafsson 1. vélstjóri og útgerðarmaður, Þorsteinn Árnason 2. vélstjóri, Þórir Andrésson kokkur og hásetarnir Víðir Kristjánsson, Daði Hrólfsson, Óðinn Þór Hallgrímsson, Guðjón Guðbergsson, Sigmundur Sigurðsson, Ólafur Ingi Þórðarsson, Kristbergur Einarsson auk mín.

Við komum á miðin fyrir vestan, var hann tregur og köstin ekki stór, við reyndum að fá eins og hægt var og fórum inn til Bolungarvíkur með rétt rúm 200 tonn, fórum í land þar sem bræla var komin. Nú vildi svo til að ríkisstarfsmenn töldu að laun sín væru ekki nóg og að ríkið yrði að hækka þau, en ríkið var því ekki sammála þannig að ríkisstarfsmenn fóru í verkfall sem byrjaði 4.okt og stóð til 30. október 1984. Sjónvarpið hætti að sjónvarpa, útvarpið þagnaði, engar veðurfréttir voru fluttar, strandstöðvar veittu aðeins nauðsynlegustu þjónustu við skip, gáfu þeim samband við Veðurstofu Íslands, lítið annað var hægt að eiga samband við þessar ágætu stöðvar, nema til að tilkynna sig út og inn í höfn. Annað var það sem við sjómennirnir fengum að kenna á, það var þegar við fórum upp á símstöð til að hringja heim til kvenna okkar og fjölskyldu, þurfti maður að sitja við símann í einn til einn og hálfan tíma til að reyna að hringja heim, á endanum náði maður sambandi en maður varð að hafa fyrir þessu.

Farið var aftur út og eitthvað lagaðist fiskiríið og við fylltum eftir nokkur köst, stefnan var tekin á Siglufjörð og landað þar. Nú fór veiðin að vera góð hjá okkur og fylltum við í öllum túrum og var þetta ævintýri líkast hjá okkur. þegar við vorum búnir að fylla bátinn einu sinni var ákveðið að landa í Reykjavík, siglt var suður með Vestfjörðum og stefnan tekin til Reykjavíkur, er við vorum komnir suður fyrir Snæfellsnes. Kallt var í höfuðstaðnum, þar var farið í bíó og myndin Never ending story vakti mikla athygli hjá okkur.

                                                        

Loðnan færðist austur með norðurlandi og aðal veiðisvæði varð fyrir norðaustan land, mokið var alveg ótrúlegt hjá okkur, engin túr misheppnaðist við fylltum alltaf og Sigmundur háseti sem var á Sæbjörgu árinu áður, sagði við mig í eitt skiptið þegar forlestin var að fyllast, „við settum enga loðnu í forlestina í fyrrahaust, en núna fyllum við hana í hverjum túr“. Núna varð okkar aðal löndunarhöfn á Seyðisfirði. Veður hafði verið þolanlegt allt þetta haust og lítið um frátafir í veiðum vegna veðurs. Ég tók myndavélarnar mínar með frá Reykjavík, tók myndir af veiðunum en í hlutarins eðli gat ég ekki myndað mikið nema þegar dælt var úr nótinni.

Þegar nótin var dregin voru göt og rifur dregnar frá og ég sá um að gera við það þegar loðnunni var dælt úr nótinni, ég kallaði alltaf mér til hjálpar á Daða Hrólfsson, hann hélt í netið þegar ég gerði við. Menn voru oft að gantast með hver ætti hitt og þetta kastið, þ.e.a.s. sá háseti sem var á hásetavakt í brúnni átti kastið þegar kallað var klárir, og ef köstin voru stór þá þökkuðu menn sér fyrir hve stórt kastið væri eða á hinn bóginn hve kastið væri lítið þá væri það þessum að kenna.

Við fórum til Eyja til að taka helgarfrí, á þessum árum var talið nóg að sjómenn ættu tvo daga í frí á mánuði, við vorum nokkrir sem fórum upp á land í fríinu þar sem við bjuggum þar. Við sigldum til Þorlákshafnar með Herjólfi og svo fórum við hver til síns heima. Ég og kona mín fórum í bíó í Keflavík þar sem nýbyrjað var að sýna myndina Dalalíf. Ég hafði gaman af því að sjá konurnar í hléinu þegar

vísifingur og langatöng þeirra var í  V þar sem þær voru með stóra vindla á milli fingranna, það var út af verkfalli ríkisstarfsmannanna og sígarettur voru orðnar sjaldséðar á höfuðborgrsvæðinu og allt reykt sem rauk úr. Ég var að vellt því fyrir mér hvort ég ætti að taka myndavélarnar með mér aftur, langaði mikið að taka þær með en á endanum ákvað ég að skilja þær eftir.

Þegar við komum úr fríinu var enn sama mokið hjá okkur, alltaf var farið inn á Seyðisfjörð og ef brældi var legið þar inni. Við skipverjarnir fórum í nokkur skipti í bíó þar, einnig kom fyrir að við fengum okkur í glas og skemmtum okkur. Í desember fóru veður að versna og þegar komið var fram að miðjum mánuðnum vorum við í nokkra daga inni á Seyðisfirði vegna þess að ekki var veður til                                      

veiða. Þegar kom að 16. des. ákvað Ögmundur að sigla til Eyja, síðasti veiðidagur á nótaskipum fyrir jól er 17. des. þannig að við vorum að renna út á tíma. Þegar við sigldum var sv. skælingur alla leið  og ég átti vakt upp í brú frá miðnætti til kl. tvö um nóttina, ég fór í kauju og sofnaði fljótt. Við vorum komnir vestur undir Stokksnes.

Sæbjörg strandar

Ég vaknaði við það að aðalvél skipsins drap á sér og skipið fór að flatreka, að sjálfsögðu fór ég fram úr kaujunni minni til að ath. hvað væri um að vera. Vélin var sett í gang og um leið og kúplað var að drap hún á sér, vélin gekk undir sjálfri sér en um leið og nota átti hana drapst á henni.  Skonnorstblásari við vélina hafði gefið sig og því fékk hún ekki nóg loft að sér til að geta unnið. Við rákum í átt að landi, ekki var það björgulegt þar sem stutt var í Stokksnesið, við sáum vel ratarskermanna frá bandaríska herliðinu á Stokksnesi. Ögmundur skipstjóri kallaði í Erling KE 45 sem var þarna stutt frá og komu þeir siglandi strax til okkar.

Við fórum að undirbúa snurpuvírinn okkar, þar sem ég hafði starf við spilið þegar nótinni var kastað fór ég ásamt spilmönnunum fram á til að græja vírinn. Við drógum endann upp á dekk og biðum eftir Erlingi, meðan við biðum varð mér hugsað, síðast var ég á skipinu sem reyndi að ná hinu í tog, en núna er ég á skipinu sem er verið að taka í tog. Ég leit á skipverjana hvern á fætur öðrum til að athuga hvort ég sæi feygðarsvip á þeim, en sá ekki en gerði mér grein fyrir að ekki var spegill þarna þannig að ekki sá ég sjálfan mig. Skipverjar á Erlingi komu taug yfir til okkar, við tengdum hana við vírinn hjá okkur og vírinn var dreginn yfir í Erling. Eftir einhvern tíma var byrjað að draga okkur áleiðis frá landi, ruddasjór var þarna og átökin mikil og þegar ein aldan skall á okkur slitnaði vírinn og við fórum að flatreka aftur.

Við stefndum að stórgrýttri fjörunni við Stokksnes, þar braut sjórinn mikið og ekki leist okkur vel á þann stað en við gátum ekkert gert. Allir voru æðrulausir og gerðu það sem Ögmundur skipstjóri sagði okkur að gera, ef hann sagði manni að gera eitthvað var það gert mögnunarlaust, hann stjórnaði og við hlýddum orðalaust. Skipverjar á Erlingi reyndu enn að koma taug yfir til okkar þeir fylgdu okkur alveg að grunnbotunum en ekkert gerðist. Ögmundur sagði okkur að láta ankerin falla, við spilmennirnir létum bæði ankerin falla. Ég hafði ekki mikla trú á að þau gerðu gagn, þar sem sandbotn var þarna, en skipið snerist við þetta og hægði á rekinu. Þegar við vorum að vinna á dekkinu og millidekkinu vorum við látnir vita þegar brot riðu yfir skipið og gripum við í það næsta sem fyrir hendi var til að hendast ekki eitthvert og slasast.  Nú var okkur sagt að loka öllum lúgum og mannopum og koma okkur niður.

Þegar við komum niður var lítið annað að gera en að bíða og vona það besta, þrátt fyrir æðruleysi manna sá ég óttasvip á sumum, sem ég tel mjög eðlilegt. Ekki vildu menn láta sælgæti fara til spillis og þeir sem áttu gos  og súkkulaði náðu í það og komu með upp í borðsal, slegin var upp sælgætisveisla og menn fóru að spila á spil.  Meðan þessu fór fram voru Ögmundur skipstjóri, Hafþór stýrimaður, Stefán 2. stýrimaður og Theódór vélstjóri upp í brú. Við fundum fyrir því þegar við komum inn í brimgarðinn og líka þegar skipið fór að taka niðri, fyrst fann maður þegar afturhluti kjalarins lenti á botninum með skelli og töluverðum hávaða. Niðurtökurnar urðu fleiri og loks byrjaði skipið að halla á stjórnborðshlið.

Fyrst leit út fyrir að skipið ræki upp í stórgrýtta fjöruna við Hafnartanga, en svo fór ekki skipið breytti um stefni og rak á milli skerja og upp í Hornsvík og strandaði í sandfjöru. Hallinn á skipinu var um 45°og það er vont að sitja eða standa þegar hallinn er svona mikill, við höfðum lokað fyrir öllum kýraugum til að minka líkur á að gluggarnir myndu brotna og sjór kæmist inn. Fljótlega drap ljósavélin á sér þar sem sjór var byrjaður að streyma inn í vélarhúsið, þar með var ég viss um að skipinu yrði aldrei bjargað, þarna myndi Sæbjörg bera sín bein. Við biðum eftir að Björgunarfélagið á Hornafirði kæmi á strandstað til að bjarga okkur í land. 

Björgunafélagið var mætt á staðinn stuttu eftir að við strönduðum, skotið var lína frá Sæbjörgu, og hafðist það í þriðju tilraun og gengið var frá björgunarstól til að draga okkur í land. Á þessum árum voru íslenskir stjórnmála menn að takast á um það hvort kaupa ætti þyrlu til að bjarga mönnum úr sjávarháska eða ekki. Þyrlan var ekki og við vorum dregnir í land hver á fætur öðrum. Byrjað var að draga yngsta hásetann í land og goggunarröðin var þannig elsti hásetinn fór síðastur af hásetunum, síðan var farið eftir stöðu manna um borð, skipstjórinn fór síðastur í land. Fyrsti skipverjinn var kominn í land kl. 08,48 og sá síðasti var komin í land kl. 09,35.

Björgunarstóllinn var bundin í afturmastrið á Sæbjörgu og í landi var hann festur í krana á vörubíl, og var krananum lyft upp þegar menn voru dregnir, en skipið vallt þar sem það lá í fjörunni og slakknaði á tauginni þannig að menn gátu farið í miklar sveiflur.  Þegar ég var dreginn lyftist Sæbjög upp og það slaknaðist á tauginni, ég sá sjóinn nálgast mig á ógnarhraða og ég reiknaði með að lenda í sjónum, stígvél mín rétt snertu sjávarflötinn og var ég búinn að lyfta fótunum eins mikið upp og ég gat, síðan datt Sæbjörg aftur í sína stöðu og ég skaust upp og ég fór alveg á hvolf, ég hélt ég myndi fara hringinn. Fjöruborðið nálgaðist hratt þar sem kröftugir björgunarsveitamenn drógu mig að landi. Brókin sem hangir niður úr björgunarhringnum sem ég sat í, skarst upp í klof mitt og það var einfaldlega sárt að sitja þarna, en sem betur fer kom ég upp í fjöruna þurr og þessi verkur gleymdist fljótt.

Þegar ég var komin úr björgunarstólnum vildi ég líta á skipið þar sem það lá en var strax látinn fara inn í rútu sem þarna var, auðvitað var það það eðlilegasta sem hægt var að hugsa sér. Þannig að við værum ekki að þvælast fyrir björgunarmönnunum og sumir komu hundblautir eftir volkið í land.       Þegar Hafþór stýrimaður var komin í brókina og byrjað að draga hann festi hann annan fótinn sinn í rekkverkið og sat þar fastur, björgunarsveitarmenn toguðu og toguðu þannig að Hafþór meiddist á fætinum. Síðastur kom Ögmundur skipstjóri.

Nú var okkur keyrt í slysavarnahúsið í Höfn þar sem okkur var gefið kaffi og kökur, einhverjar ræður fluttar og við hughreystir á alla kanta, þaðan var okkur keyrt í Kaupfélagið á Hornafirði þar sem verslað var á okkur fatnaður, við vorum eingöngu með það sem við vorum klæddir í. Frá kaupfélaginu fórum við á Hótelið þar sem við gátum farið í sturtu og lagt okkur. Flestir náðu að sofna eitthvað, en borðaður var hádegismatur á hótelinu. Flugvél frá Sverri Þóroddsyni kom austur og flaug með mennina sem fóru til Eyja, við sem fórum til Reykjavíkur biðum meðan flugvélin fór til Eyja, hún kom aftur austur á Hornafjörð og við fórum um borð í flugvélina.

Það vildi svo skemmtilega til að Halldór Bjarni Árnason, gamall nágranni frá Hlaðbæ á Austuveginum var flugmaðurinn, ég hafði nokkur skipti flogið með honum á Cessnu 150 flugvélinni hans þegar hann átti heima hér í Eyjum. Ég fékk að sitja fram í flugvélinni hjá Halldóri, var með heyrnatól á eyranu og míkrafón og við gátum rabbað saman. Stefnan var fyrst sett á stefnuvitann á Ingólfshöfða, þaðan var stefnan til Reykjavíkur. Nú var dimma skollin á þegar við flugum yfir Suðurlandið. Ég verð að viðurkenna að það var ótrúlega gaman að sjá hve mikil byggð er á Suðurlandi, það sá maður á ljósunum við hvern sveitabæ og líka við byggðirnar á Suðurlandi.

Flugvélin lenti á Reykjavíkurflugvelli og fréttamaður og ljósmyndari frá NT. tóku á móti okkur og ræddu við okkur og mynduðu. Foreldar Víðis Kristjánssonar og Daða Hrólfssonar voru líka mættir út á flugvöll. Foreldrar Víðis vildu endilega að ég kæmi með þeim og buðu mér heim til sín. Þau höfðu slegið upp stórveislu með læri í matinn og borðaði ég góðan kvöldmat hjá þeim. Ekki var það í umræðunni að ég færi með rútu til Keflavíkur og keyrði þetta heiðursfólk mér heim til mín á Hafnargötu 67. Þegar ég kom að útidyrunum var hurðin opnin og fyrir innan voru Grétar og Hildur, Hildur lyfti upp hægri hönd sinni og strauk vinstri kinn mína og Grétar lyfti báðum höndum sínum og vildi komast upp til mín, hann klappaði mér oft.

Guðjón Guðbergsson, var maður Rutar Reginalds og áttu þau mánaðar gamla dóttur, og þegar Guðjón var komin á þura fjöruna í Hornvík og ákvað þar, þar sem lífsbjörgun hans var orðin að veruleika að hann skildi skíra dóttur sína Sæbjörgu. Dóttirin var skírð Sæbjörg eftir skipinu.

Núna var staðan þannig að ég var atvinnulaus, ég fór daginn eftir og skráði mig þannig, ekki þurfti ég að koma með vottorð um hitt og þetta, allir voru með blöðin fyrir framan sig og sáu mig og nöfnin á okkur sem vorum á Sæbjörgu. Annað var það en það voru bæturnar fyrir eigur okkar um borð í Sæbjörgu. Ég skráði niður það sem ég tapaði, gekk á milli verslanna og fékk uppgefið lágmarksverð og hámarksverð á gallabuxum og sokkum svo dæmi sé tekið. Ég setti inn á skýrslu mína þessi verð og meðalverðið á milli og reiknaði öll verðin og fór inn til TM. sýndi einum fulltrúa þessa skýrslu, hann lýsti yfir ánægju sinni með hve vel þetta væri unnið og greiddi mér hámarksverðið. Næstu daga hringdu skipverjar af Sæbjörgu hver á fætur öðrum í mig til að fá upplýsingar um hvað gallabuxur og skyrtur kosta mikið. Það var bara gaman af því að geta veitt þeim þessar upplýsingar.

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=119868&pageId=1603109&lang=is&q=%ED%2014%20skipverjum%20bjarga%F0%20%ED%20bj%F6rgunarst%F3lum%20%ED%20land%20skipverjum

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=257462&pageId=3592178&lang=is&q=%ED%20Spilu%F0u%20og%20h%E9ldu%20veislu%20%ED%20matsalnum%20%ED%20og%20og

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=224257&pageId=2895748&lang=is&q=S%E6bj%F6rg%20Ve%2056 

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=190007&pageId=2496933&lang=is&q=VE

http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1704992

Allar myndir fyrir utan þá fyrstu eru teknar af Óskari Pétri Friðrikssyni

sem og greinin er skrifuð af honum 

 

Ögmundur Magnússson skipst Mynd óskar pétur 

  Sæbjörg Ve með fullfermi á Siglufirði © Mynd Óskar Pétur Friðriksson 1984

                      Gott kast á siðunni © mynd Óskar Pétur 1984

              skipverjar á Sæbjörgu VE mynd Óskar Pétur 

         500 tonn i Nótinni © Óskar Pétur 

       Dælt i lestarnar Mynd Óskar pétur 

   Allt að gerast dæling á fullu © Óskar Pétur 

 stund milli striða myndir Óskar Pétur Friðriksson 

 

 

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Þorgeir Baldursson

Farsími:

8620479

Heimilisfang:

Reynihlið 15 D 604 Hörgárbyggð

Staðsetning:

Hörgárbyggð

Um:

Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist Sjávarútvegi

Tenglar

Flettingar í dag: 2696
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 4063
Gestir í gær: 33
Samtals flettingar: 1121822
Samtals gestir: 52256
Tölur uppfærðar: 18.1.2025 06:10:23
www.mbl.is