Engin landvinnsla á makríl verður hjá Hraðfrystihúsinu – Gunnvöru á vertíðinni sem hefst innan skamms.
Makrílkvóti fyrirtækisins verður allur veiddur og unninn á Júlíusi Geirmundssyni ÍS,
frystitogara fyrirtækisins. Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri HG,
segir allt til þessa árs var óheimilt að flytja makrílkvóta milli skipa fyrirtækisins
og það hafi stuðlað að sóun og óhagræði. „Við þurftum að byrja á Stefni,
flytja trollið svo yfir á Pál Pálsson og jafnvel aftur til baka eftir atvikum.
Það var mikið óhagræði í því að geta ekki veitt þetta allt á einu skipi eins og nú er heimilt að gera,“ segir Einar Valur.
Nú eru sumarleyfi í frystihúsi HG í Hnífsdal og standa þau í tvær vikur.
Allir togarar fyrirtækisins hafa farið í slipp í sumar.
Stefnir er búinn í slipp og Einar Valur gerir ráð fyrir að Páll Pálsson komi í kvöld eða á morgun.
Júlíus er að klára slipp og fer væntanlega á makrílveiðar á föstudag.
|
1977 Július Geirmundsson IS 270 Mynd þorgeir Baldursson 2015 |