Sæbjúgu humar og saltfiskur
by Hjörtur Gíslason | Jul 31, 2014 | Fréttir
Hafnarnes Ver er líklega minnsta humarvinnsla landsins, þar er þó hvergi slegið slöku við í vinnslunni. Ljósmynd Hjörtur Gíslason
Í Þorlákshöfn er fyrirtæki sem er bæði stórt og lítið. Það er líklega minnsta humarvinnsla landsins og stærst í veiðum og vinnslu á bæbjúgum. Saltfiskurinn og humarinn eru þó hryggjarstykkið í fyrirtækinu, sem hjónin Hannes Sigurðsson og Þórhildur Ólafsdóttir reka ásamt börnum sínum. Þau hafa stigið ölduna saman síðan síðan Þórhildur var kokkur á sjó með Hannesi. Útgerðin og fiskvinnslan gengur vel. Fjölbreytni í veiðum og vinnslu tryggir stöðuga vinnslu allt árið og þeim er umhugsað um að leggja sitt að mörkum til samfélagsins í heimabæ sínum.
Kvotinn.is skrapp í heimsókn í Hafnarnes Ver þar sem þau hjónin ráða ríkjum og rakti garnirnar úr Hannesi og maulaði harðfisk með honum.
„Útgerðin er burðarásinn í starfseminni og í landi er það saltfiskvinnsla og humar. Við erum líka í flatfiski og náum í makríl, þegar veiðar á honum eru í gangi. Við fluttum líka um tíma dálítið af harðfiski til Færeyja. Þá erum við töluvert í sæbjúgum, en það eru saltfiskurinn og humarinn sem bera landvinnsluna uppi mælt í verðmætunum,“ segir Hannes. „Við erum með bátana Friðrik Sigurðsson og Jóhönnu í veiðunum á fiski og humri og bát sem heitir Sandvíkingur sem stundar veiðar á sæbjúgum og loks Sæfara, sem hefur verið á rækju. Hjá okkur eru núna um 50 manns í vinnu til lands og sjós.
Þetta er svona nokkuð hefðbundið hjá okkur ár eftir ár og við náum að tengja veiðar og vinnslu saman þannig að alltaf sé eitthvað í gangi hjá okkur. Við erum að vinna um 2.000 tonn af slægðum fiski upp úr sjó á ári í saltið, það eru þorskur, ufsi og langa. Við njótum svo þess heiðurs að vera minnsti humarframleiðandi landsins, erum með um 40 tonna kvóta miðað við hala. Við löndum honum öllum heilum og reynum að gera úr honum eins mikil verðmæti og hægt er, eins og reyndar öllu öðru. Sæbjúgun voru líka að skila okkur töluverðu 2010 og 2011, en svo kom mikið af bjúgum frá Rússlandi inn á markaðinn. Það leiddi til offramboðs og verðfalls á markaðnum sem við vorum á með tilheyrandi erfiðleikum, en nú er þetta aðeins að koma til aftur. Nú verða innflutningstollar af sæbjúgum í Kína felldir niður í áföngum eftir frísverslunarsamning Íslands og Kína. Fyrir vikið eru innflytjendur í Kína áhugasamari en þeir hafa verið.“
Skrítinn fugl kanínan, sagði maðurinn og eins má kannski segja að sæbjúgað sé skrítinn fiskur, því fiskur er það alls ekki, frekar en kanína fugl. En um þetta veit Hannes betur en flestir aðrir.
Mikið er unnið af sæbjúgum hjá Hafnarnesi Ver og fara þau á markað í Kína. Ljósmynd Hjörtur Gíslason
„Við köllum veiðarnar á sæbjúgunum að slóðadraga enda er ég úr sveit og ólst upp við að slóðadraga túnin á vorin. Þetta í raun eins konar slóði sem dreginn er eftir botninum og á endanum er poki sem haldið er opnum með járnboga. Bjúgun skoppa upp við slóðann og lenda í pokanum en slóðinn er svo hífður á svona hálftíma fresti og losað úr pokanum, það sem í hann er komið. Bjúgun fara svo í fiskikör og er landað að kvöldi dags. Veiðarnar eru háðar því að veður sé gott og því geta verið landlegur í þessu langtímum saman. Því er gott að hafa bjúgun sem aukabúgrein
Við ýmist heilfrystum þau eða skerum þau upp og hreinsum innyflin úr og frystum þannig. Svo erum við aðeins farin að reyna okkur við þurrkun á bjúgunum en það er í þróun og hefur gengið misjafnlega. Það eru þó nokkrir sem vilja kaupa, en þá er slagur um verðið. Þetta er ágætis uppfylling og var fínt út úr því að hafa þegar best var og verður vonandi svo á ný.
Eitt af því sem gæti leitt til þess er að menn sækist frekar eftir sæbjúgum úr veiðum, en eldi, er að mjög mikið af bjúgum er alið í Kína. Þá hafa villt sæbjúgu úr hreinum sjó Norður-Atlantshafsins ákveðið forskot, en það getur tekið langan tíma að nýta það. Fjölmargar tegundir eru til af sæbjúgum og mjög misjafnt milli markaða hvaða tegund hentar þeim. Það getur verið eftir héruðum, landshlutum og jafnvel borgarhlutum. Lokaafurðin er þurrkuð og þá eru þau svo lögð í bleyti fyrir matreiðslu líkt og skreið. Þau tútna þá út og ná nánast fyrri stærð.
Það er til að þau séu notuð sem aðalréttur en meira er um að þau séu notuð í súpur og salöt og svo meðlæti með öðrum mat eins og til dæmis önd. Þau eru líka möluð í fæðubótarefni. Kínverjar hafa mikla trú á bjúgunum sem hollustufæði, þau séu góð fyrir líkamann, fyrir vöðva og vinni gegn gigt. Ég hef verið að éta þetta í pilluformi frá því um áramót og mér finnst að það komi meiri jöfnuður á líkamsstarfsemina, meiri ró yfir líkamann við það. Verð á sæbjúgunum er afskaplega mismunandi, sæbjúgu frá Japan eru eftirsóttust og dýrust. Íslensku bjúgun eru hins vegar svo kölluð „verkamannabjúgu“ og því á lágu verði.“
Það er báturinn Sandvíkingur sem stundar veiðarnar á bæbjúgunum. Til þess er notaður svokallaður slóði, sem báturinn dregur á eftir sér. Ljósmynd Hjörtur Gíslason
Þá komum við að afurðum, sem betur eru þekktar.
„Það gengur vel að selja humarinn og verðið á honum hefur ekki lækkað. Aðra sögu er að segja um saltfiskinn, því verðið á honum hefur stórlækkað. Það varð hreinlega verðfall, en verðið er hægt og bítandi að hækka á ný. Við framleiðum nær eingöngu á Portúgal, enda erum við aðeins með netafisk, en hann hentar mjög vel í flattan fisk fyrir Portúgal. Þetta er í raun bæði stór og góður fiskur enda láta menn netin liggja svo stutt nú orðið, allt niður í bara tvo tíma. Þegar mest er af fiskinum er það alveg nóg og menn eru að fá alveg fínasta afla. Við verkum af eigin bátum en kaupum líka töluvert á mörkuðum. Við höfum líka verið dálítið í því að frysta söltuð ufsaflök fyrir markaðinn í Brasilíu, en verðið var orðið ansi lágt, en er reyndar að hækka aðeins á ný. Við höfum líka verið að þurrka saltaðan ufsa fyrir Púertó Ríkó. Þegar mestur gangurinn var í því fór um gámur á viku frá Íslandi þangað en nú er þetta dottið niður í einn gám á mánuði eða annan hvern mánuð. Mikil samkeppni frá alaskaufsa hefur valdið þessum samdrætti. Við eru aldeilis ekki einir í heiminum.“
Hannesi er humarveiðin hugleikin og vill að farið verði út í veiðar í gildrur eins og gert er víða annars staðar.
„Gildruveiðarnar skila miklu betri og verðmætari vöru en trollið. Stór og þung troll fara vafalítið fremur illa með botninn á humarbleyðunum og alltaf brotnar dálítið af humrinum við togveiðarnar. Við slíkar gildruveiðar mætti gefa mönnum svolítið forskot þegar þeir eru að öðlast þekkingu og reynslu til að byggja veiðarnar á. Þá mætti tala um veiðar utan kvóta til að byrja með og einhvern afslátt af veiðigjöldum. Það kostar auðvitað einhverjar fórnir að þróa slíkar veiðar og getur tekið einhver ár að ná tökum á þeim með tilheyrandi fórnarkostnaði. Færeyingar veiða töluvert af humri í gildrur og hafa náð góðum tökum á því. Ég hitti mann þar sem stundar þessar veiðar. Hann kemur með humarinn lifandi í land og setur hann í sjótanka, þar sem hann heldur honum lifandi og selur síðan þegar verð er hátt og eftirspurn góð. Það tók hann langan tíma að ná tökum á þessu, til dæmis var ekki sama hvar hann tók sjó í tankana. Þetta var reynt hérna á sínum tíma, en þá lentu menn í samstuði við togbáta, sem voru að toga á sömu slóðum.
Það vantar svolítið í sjávarútveginn hér að ýta undir tilbreytingu og nýsköpun, eins og til dæmis gildruveiðar. Það er meira hugsað um eftirlit með mönnum en að gera þeim kleift að reyna eitthvað nýtt. Það er einnig oft eins og að þeim sem fyrir eru finnist að sér vegið þegar eitthvað nýtt kemur til sögunnar.“
En hvernig finnst Hannesi staðan almennt vera í sjávarútveginum? Jú, honum finnst hún bara nokkuð góð.
„Meðan við getum selt vöruna erum við í góðum málum. Verðið er aftur á móti númer tvö. Við verðum bara að fylgja markaðnum. Við getum ekki ákveðið verð sem við teljum okkur þurfa, en enginn getur búið við. Þá er allt stopp. Meðan við getum selt held ég að allt sé í góðu lagi. Markaðurinn ræður verðinu og við verðum að laga okkur að þörfum hans.
En sé litið á sjávarútveginn í heild á landinu er orðin ansi mikil samþjöppun og byggðaröskun samfara henni. Það er ákveðið áhyggjuefni og oft verða smærri byggðirnar illa úti í þessari þróun óverðugar. Það heyrir þá upp á Alþingi að finna eitthvert mótvægi við því sem frá byggðunum hefur farið í formi veiðiheimilda. Hér í Þorlákshöfn hefur til dæmis orðið mikill samdráttur sem hefur veikt byggðarlagið. Maður má ekki bara líta á dæmið sem útgerðarmaður, heldur sem almennur íbúi. Við eru þátttakendir í samfélaginu hver á sínum stað. Mig langar ekkert til að sjá höfnina hérna tóma. Það yrði mjög sorglegt. Alþingi verður að gæta þess að eitthvert lag sé á þessu og koma með virkar mótvægisaðgerðir sem til þessa hefur alveg skort. Löggjafinn verður að leysa þessi mál. Mér finnst það vera ákveðinn réttur byggðarlaganna að búa við öruggt aðgengi að lifibrauði eins og fiskveiðum, en það sýnist sitt hverju. Sífellt er talað um hagræðingu, en fyrir hvern er sú hagræðing? Og hver á að njóta ávinningsins af henni? Það eru margar siðferðislegar spurningar í þessu, sem ekki hefur verið svarað,“ segir Hannes.
Hann er búinn að stunda þorskveiðar og útgerð við Ísland býsna lengi. Hvernig metur hann stöðu þorskstofnsins og ráðleggingar Hafró um hæfilegan heildarafla?
„Það er ekki vafi að veiða mætti meira af þorski. Það myndi engan skaða. Manni finnst matið ansi einkennilegt og nauðsynlegt sé að skoða betur þær aðferðir sem beitt er við stofnstærðarrannsóknir og hve mikið megi veiða hverju sinni. Ég tel líka að það sé alveg jafnmikil áhætta við að veiða minna en ráðlagt er og veiða umfram ráðgjöf. Í ráðgjöfinni felst einnig mikil ábyrgð en það má ekki byggja ákvörðunina á of mikilli varfærni,“ segir Hannes.
Á efstu myndinni eru hjónin Hannes og Þórhildur á skrifstofu Hafnarnes Ver. Ljósmynd Hjörtur Gíslason.
Frétt af www.kvotinn.is
Myndir Hjörtur Gislasson