Verðmætið eykst minna en aflinn
by Hjörtur Gíslason | Jul 29, 2016 | Fréttir
Á myndinni eru þrír togarar ÚA og Samherja við bryggju að landa á Akureyri. Björgvin EA, Björgúlfur EA og Baldvin NC. Ljósmynd Þorgeir Baldursson.
Aflaverðmæti íslenskra skipa nam rúmum 11,1 milljarði króna í apríl sem er 7,3% aukning miðað við apríl 2015.
Þetta skýrist af auknu verðmæti þorsk- og ýsuafla og kolmunna.
Verðmæti botnfiskafla nam 8,3 milljörðum í apríl sem er 143 milljónum króna minna en í apríl 2015.
Heildarverðmæti uppsjávarafla í mánuðinum jókst um 678 milljónir króna sem er 70% aukning.
Á 12 mánaða tímabili frá maí 2015 til apríl 2016 var samanlagt aflaverðmæti um 144 milljarðar króna sem er 3,7% samdráttur miðað við sama tímabil ári fyrr.
Á þessu tímabili hefur verðmæti botnfiskafla aukist um 4,2% og flatfiskafla um 53,9% á meðan verðmæti uppsjávarafla hefur dregist saman um 32,4%.
Þetta kemur fram í frétt frá Hagstofu Íslands.
Athygli vekur að aukning í verðmæti er hlutfallslega mun lægri, 7,3%, en aukningin í magni í aprílmánuði.
Þá bárust á land 104.000 tonn, sem var 39% meira en í sama mánuði í fyrra. Það stafar mest af auknum afla af botnfiski sem var 17% meiri en í apríl í fyrra.
Þorskafli í apríl nú varð ríflega 43.000 tonn, sem er 29% meira en í sama mánuði í fyrra. Engu að síður eykst verðmæti hans aðeins um 14,3%.
Því má draga þá ályktun að verð á botnfiski og sérstaklega þorski hafi lækkað í apríl og eða að minna hlutfall af sjófrystum þorski hafi verið í lönduðum afla.
Uppsjávarafli í apríl var ríflega 57.000 tonn, sem er 60% aukning miðað við apríl í fyrra. Þessi afli var nær eingöngu kolmunni. Þarna er þróunin önnur,
því verðmætið þar hefur aukist um 70% og bendir það til hærra verðs á kolmunna og eða að aukið hlutfall sé sjófrystur fiskur.
Verðmæti skelfiskafla í apríl nú varð ríflega 500 milljónir króna, sem er 1,4% samdráttur.
Heimild Kvotinn.is