26.12.2016 13:07Loðnuveiðar á Sigurði Ve við Nýfundnaland 1975
I jólablaði Fiskifretta er þessi athyglisverða viðtal við Bóba á Sigurði Ve www.fiskifrettir.is Loðnuveiðar við Nýfundnaland 1975 "Ég var fyrstur Íslendinganna til að fara þarna vestur og þetta var árið 1975," segir hinn landskunni togaraskipstjóri Kristbjörn Árnason frá Húsavík, sem lengst af var skipstjóri á Sigurði VE. Þarna er átt við loðnuveiðar við Nýfundnaland sem íslensk skip tóku þátt í um tveggja ára skeið. GUÐJÓN GUÐMUNDSSON gugu@fiskifrettir.is Kristbjörn er þekkt aflakló. Hann byrjaði á nótaveiðum á Sigurði VE árið 1974 og var á honum þar til honum var lagt árið 2013, að undanskildum einum vetri. Veiðar á alþjóðlegu hafsvæði Hann segir að skömmu eftir að hann byrjaði á Sigurði VE hafi það kvisast út að Norðmenn hefðu fengið loðnu við suðurodda Nýfundnalands. Veiðarnar voru á alþjóðlegu hafsvæði utan lögsögu Kanada og var fjöldi erlendra skipa við þessar veiðar. Veiðarnar fóru fram á landgrunnskantinum og skammt frá veiðislóðinni var sagt að skemmtiferðaskipið Titanic lægi á botninum eftir að hafa steytt á ísjaka í jómfrúarferð sinni árið 1912. Landað var í norska bræðsluskipið Nordglobal sem Ísbjörninn á Íslandi átti 10% hlut í. "Við fórum vestur að Nýfundnalandi í júní 1975 til að prófa loðnuveiðar þar í samstarfi við Norðmennina og áttum að vera þar í samfylgd með norska loðnuveiðiflotnum. Það vissi enginn hver útkoman yrði. Norðmenn höfðu verið þarna áður og veiddu þá eingöngu í troll. Ég vildi nota nót við þessar veiðar. Svo kom það reyndar á daginn að öll norsku skipin, sem voru á annað borð með nót um borð, voru farnir að nota hana við veiðarnar. Þeir höfðu nánast allir nætur um borð sem ballest til þess að róa skipið," segir Kristbjörn. Norðmennirnir voru ekki á miðunum þegar Kristbjörn kom þangað á Sigurði VE og komu reyndar ekki fyrr en viku síðar. Þarna var Nordglobal eins og áður þegar Norðmenn höfðu verið þarna við veiðar. Kristbjörn byrjaði að reyna að veiða í troll en sá strax að það myndi ekki ganga. Með stærri loðnu "Ég hafði tekið smá hring þegar ég kom upp að landgrunnskantinum úti af Nýfundnalandi þar sem mér fannst líklegt að væri að finna loðnu. Þar var allt vaðandi í hval og ég taldi öruggt að loðna væri þar líka. Við sáum þó ekkert veiðanlegt þá. Suður af Nýfundnalandi var stór floti rússneskra skipa og við héldum þangað. Þar var endalaust þoka og lítið að hafa. Ég tók mig því upp og keyrði einn norður á svæðið sem ég hafði fundið þegar ég var að koma frá Íslandi. Ég reyndi fyrst fyrir mér með troll til að sjá hvort það væri einhver fiskur þarna en það lóðaði ekki neitt. Þegar við hífðum upp í fyrsta sinn fengum við 20 tonn af stórloðnu, stærri en ég hafði séð áður," segir Kristbjörn. Aflinn sem Sigurður VE fékk var loðna sem hafði lagst til hrygningar. Allt fór beint í bræðslu í Nordglobal en Kristbjörn sagði að slíkt myndi vart gerast í dag. Þrír fullfermistúrar "Ég man svo að á hádegi einn fyrstu dagana þarna þá var ég nýbúinn að setja út trollið. Það var ákaflega grunnt þarna, ekki nema 24 faðmar. Ég vissi ekki nema þarna væri harður botn og vildi því frekar fórna trollinu en nótinni. En þá var bara eins og hendi væri veifað að við vorum í torfu eftir torfu af loðnu. Við vorum fljótir að taka trollið inn og setja út næturnar og fylltum okkur í hvelli. Við vildum ekki láta vita af því hvar við værum. Við vissum að ef fregnirnar bærust Rússum yrði allur flotinn kominn þangað samstundis og þá yrði erfiðara að athafna sig. Ég fór svo krókaleið aftur á svæðið eftir að við höfðum landað í Nordglobal. Ef ég man rétt náðum við að taka þrjá fullfermistúra á þetta svæði áður en rússneski flotinn allur var mættur. Þetta voru heldur engir smádallar. Þeir höfðu einhvern veginn hlerað það að við hefðum fengið þarna góða veiði," segir Kristbjörn. Lá við árekstri í niðaþoku Rússneski flotinn veiddi þarna ágætlega í troll. Skipin toguðu frá norðri til suðurs og lögðust svo í vinnslu að því loknu. Rússarnir unnu loðnuna bæði til manneldis og í mjöl. "Það var ekki auðvelt að veiða í nót með Rússana togandi allt í kringum sig í niðaþoku. Við heyrðum bara drunurnar frá þeim og þeir toguðu alveg upp við okkur þótt þeir vissu að við værum með nót. Þetta var stórvarasamt. 17. júní vorum við með nót úti og heyrðum flaut fyrir aftan okkur. Við sáum ekki neitt en hljóðið nálgaðist. Ég svaraði með flauti. Þetta hélt svo áfram þar til ég ákvað að draga nótina inn og varaði þá strákana við að það gæti orðið árekstur. Stefni rússneska skipsins kom stuttu síðar í ljós alveg við nótarskúffuna. Það voru karlar fram á rússneska skipinu sem hljóðuðu af lífs- og sálarkröftum og gáfu merki um fulla ferð afturábak. Þarna mátti engu muna. En við höfðum aldrei nein samskipti við Rússana, menn vildu bara hafa hljótt um sig."
Sigurður VE var við loðnuveiðar við Nýfundnaland í um þrjá mánuði. Á þessu tíma kom Sigurður VE einu sinni til hafnar í St. John's þegar hann fylgdi Nordglobal þangað sem þurfti að ná í olíu. Þá var Sigurður VE með fullfermi. Síðan var Nordglobal fylgt að nýju út fyrir lögsöguna og landað í hann. Umtalaðir í Kanada Sigurður VE veiddi um 16.000 tonn á þeim tíma sem hann var við þessar veiðar sem stóðu yfir í innan við þrjá mánuði. "Við urðum frægir í Kanada þar sem því var slegið upp í fjölmiðlum að við hefðum sett heimsmet í fiskveiðum. Þetta var ævintýri og hálfgerð útlegð. Við sáum aldrei bjartan dag allan þennan tíma fyrir þoku og þekktum ekki karlana fram á hvalbak þegar við vorum að kasta. Svo var allstaðar hvalur og svo Rússarnir." Þegar hann var að yfirgefa svæðið og halda heimleiðis til Íslands fréttist af mikilli ungloðnu norðar á þessu svæði. Margir héldu af stað en þegar þangað var komið fannst ekkert. Árið eftir var haldið á ný á loðnuveiðar við Nýfundnaland. Sigurður VE var þó ekki þeim í hóp og fengu skipin lítinn afla í það skiptið. Kristbjörn er sestur í helgan stein en á lítinn bát, Lundey, sem hefur verið gerður út á strandveiðar. Sonur hans, Árni Björn, hefur séð um að róa honum. Skrifað af Þorgeir |
Eldra efni
Um mig Nafn: Þorgeir BaldurssonFarsími: 8620479Tölvupóstfang: thorgeirbald62@gmail.comHeimilisfang: Reynihlið 15 D 604 HörgárbyggðStaðsetning: HörgárbyggðUm: Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist SjávarútvegiTenglar
Flettingar í dag: 1337 Gestir í dag: 9 Flettingar í gær: 3759 Gestir í gær: 27 Samtals flettingar: 1330578 Samtals gestir: 56647 Tölur uppfærðar: 4.4.2025 04:36:44 |
© 2025 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is