Um borð i Beitir NK 123 Mynd Sigurjón M Jónusson 2017
Loðnukvótinn sem var sextánfaldaður á dögunum hefði líklega staðið óhreyfður
ef útgerðir loðnuskipa hefðu ekki kostað síðari leit Hafrannsóknarstofnunar.
Þetta kemur fram í fréttabréfi Síldarvinnslunnar .
Frétt mbl.is: Loðnukvótinn sextánfaldaður
Í fréttabréfinu segir að mælingin sem fyrsta úthlutun kvótans byggði á væri þó álitin óviss
þar sem slæmt veður og hafís höfðu truflað loðnuleitina verulega.
Ráðist var í nýjar mælingar dagana 3.-11 febrúar sem útgerðir loðnuskipa greiddu 25 milljónir fyrir.
Sú leit skilaði talsvert jákvæðari niðurstöðum og leiddi til þess að sjávarútvegsráðherra ákvað að sextánfalda heildarkvótann.
„Útgerðir loðnuskipanna eiga heiður skilinn fyrir að kosta síðari leitina,
sem hefði sennilega aldrei verið farin ef þær hefðu ekki tekið ákvörðun um að greiða þær 25 milljónir sem þurfti.
Síðari leitin leiddi til þess að nú fáum við loðnuvertíð sem skapar sennilega 16 milljarða í verðmæti
í staðinn fyrir 1 milljarð eða tæplega það,“ er haft eftir Þorsteini Sigurðssyni, fiskifræðingi hjá Hafrannsóknastofnun.
Sjóferðin gæti því á endanum skilað tekjum upp á 15 milljarða fyrir útgerðir og þjóðarbú.
Norsk skip, sem verið hafa að veiðum við landið, hafa landað töluverðri loðnu.
Þegar hafa veiðst 54 þúsund tonn og því aðeins fimm þúsund tonn eftir af kvóta þeirra í íslenskri landhelgi.
Þessi kvótaaukning skiptir miklu máli fyrir sjávarútvegsfyrirtækin og þjóðarbúið
og nú er loðnuveiði íslenskra skipa hafin af fullum krafti að afloknu sjómannaverkfalli.
Norsk skip, sem verið hafa að veiðum við landið, hafa landað töluverðri loðnu hér á landi og skipti það miklu máli á meðan á verkfallinu stóð.
Hlutur Síldarvinnsluskipanna og Bjarna Ólafssonar AK í loðnukvótanum er tæplega 18,5% eða 34.337 tonn,
en Bjarni Ólafsson er í eigu dótturfélags Síldarvinnslunnar.
Þá er hlutur viðskiptabáta Síldarvinnslunnar tæplega 12% af kvótanum,
en þeir eru Vilhelm Þorsteinsson EA, Hákon EA og grænlenska skipið Polar Amaroq.
Hafa ber í huga að viðskiptabátarnir eru allir vinnsluskip. Samtals er kvóti Síldarvinnsluskipanna og viðskiptabátanna 71.731 tonn.
Aðstæður á mörkuðum fyrir loðnuafurðir eru misjafnar.
Verð á mjöli og lýsi hefur farið lækkandi að undanförnu og enn gerir hið svonefnda Rússabann fyrirtækjunum erfitt fyrir,
en sala á frystum hæng á Austur-Evrópu verður takmörkuð vegna þess.
Japanir eru hins vegar áhugasamir um kaup á hrognafullri loðnu og loðnuhrognum .
Fulltrúar japanskra kaupenda hafa verið í Neskaupstað að undanförnu og fylgst með framleiðslu á frystri loðnu úr norskum veiðiskipum.
Heimild www.svn.is
|