2400 tonna kast mynd Orri Jónsson
Uppsjávarskipið Heimaey VE fékk í gærkvöld hátt í 2400 tonn af loðnu í einu kasti á loðnumiðunum á Sandagrunni suður af landinu. Þetta er með alstærstu köstum sem vitað er um.
Man ekki eftir öðru eins kasti
|
2772 Álsey Ve 2 Mynd þorgeir Baldursson |
Skipverjar þurftu að fá aðstoð frá öðru skipi, Álsey VE, þegar búið var að dæla 1500 tonnum um borð og var 700 tonnum dælt í Álsey. Verið er að landa loðnunni í Vestmannaeyjum, en skipið heldur á miðin að nýju í kvöld. Sigbjörn Óskarsson, háseti á Heimaey VE, segist ekki muna eftir öðru eins kasti. „Við fengum gott kast í upphafi vertíðar, um 1500 tonn, og okkur þótti nóg um. En ég hef ekki heyrt áður um svona stórt kast“ segir Sigbjörn.
Mikið af loðnu í sjónum
Hvernig verður mannskapnum við þegar svona stórt kast kemur í nótina?
„Það er mikil spenna og þetta er skemmtilegur veiðiskapur. Ég hef verið á vertíð í 15 til 20 ár og ég man ekki eftir öðrum eins köstum. Það er bara mikið magn af loðnu og þetta eru mjög þéttar lóðningar“.
Þannig að það hefur verið gaman á vertíð eftir að verkfalli lauk?
„Já það er alltaf gaman á loðnuvertíð og við erum alltaf mjög spenntir að komast af stað. Það er bara frábært að fá að taka þátt í þessu. Það leit ekki vel út að það yrði nokkur loðnuvertíð, en sem betur fer þá virðist vera nokkurt magn í sjónum. Þetta er skemmtilegur tími. Við erum að landa núna og verðum að því fram á kvöld og svo verður farið út aftur. Þetta snýst að mestu um veðrið. Baráttan heldur bara áfram“.
|