|
2891 Kaldbakur EA1 og 1395 Sólbakur EA301 mynd þorgeir Baldursson 2017
|
Kaldbakur EA 1, nýr ísfisktogari Útgerðarfélags Akureyringa, kom til hafnar á Akureyri fyrir hádegi í dag og var gestum boðið að skoða skipið frá klukkan 12-15. Búnaður verður settur upp á vinnsludekki Kaldbaks á og verður það verk unnið í umsjón Slippsins á Akureyri. Gert er ráð fyrir að Kaldbakur fari til veiða í kringum sjómannadag í byrjun júní. Skipstjórar verða Sigtryggur Gíslason og Angantýr Arnar Árnason, yfirvélstjóri er Hreinn Skúli Erhartsson. Alls verða 13-15 manns í áhöfn, misjafnt eftir verkefnum.
Skipið er hið fyrsta af fjórum systurskipum sem smíðuð eru hjá Cemre-skipasmíðastöðinni og fara tvö til Akureyrar, eitt á Dalvík og eitt til Sauðárkróks. Kristján Vilhelmsson, útgerðarstjóri, Samherja, segir að skipin séu tæknilega fullkomin og áhersla hafi verið lögð á hagkvæmni í orkunýtingu.
Kaldbakur hélt frá Istanbúl fyrir tveimur vikum og hefur heimsiglingin gengið vel að sögn Kristjáns. Í Biskajaflóa og norður undir Írland lenti skipið í brælu, rétt til að prófa skipið, sem reyndist hið besta, að sögn Kristjáns.