Bjarni Ólafur Hjálmarsson skipst og Karl Jóhann Birgisson mynd þorgeir 2017
Blængur NK kom til hafnar á Akureyri í gær eftir 12 daga veiði, en þetta er fyrsta veiðiferð skipsins eftir gagngerar breytingar sem gerðar voru á skipinu í Póllandi. Landaði skipið einum gámi af þorski auk þess sem þar var unnið að nokkrum lagfæringum og breytingum á vinnsludekki. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Síldarvinnslunnar sem gerir skipið út.
Haft er eftir Bjarna Ólafi Hjálmarssyni skipstjóra að þessi veiðiferð sé fyrst og fremst hugsuð til að prófa búnað um borð. Segir hann að veiðarfæri og veiðibúnaður hafi reynst vel sem og skipið.
„Við höfum að undanförnu verið að veiðum úti fyrir Norðurlandi og þar hefur mokveiðst af ufsa og þorski. Við höfum togað stutt á hverjum sólarhring og síðan látið reka á meðan aflinn er unninn. Ég reikna með að við verðum viku til viðbótar í þessum fyrsta túr eftir breytingar á skipinu,“ er haft eftir Bjarna.
|