Þrjú skip fengu góðan loðnuafla djúpt út af Bjargtöngum í gær. Guðmundur Huginn Guðmundsson, skipstjóri á Hugin VE, telur allar líkur á að um vestangöngu sé að ræða, en þá gengur loðnan suður með Vestfjörðum.
„Það er myndarleg hrygna fremst í þessari göngu og þroski hrognanna góður. Japanskur eftirlitsmaður hér um borð er mjög ánægður með loðnuna og við höfum ekki fengið eins mikið af hrognum í vetur eins og út úr þessu kasti,“ sagði Guðmundur, en hrognin vinna þeir og frysta um borð.
Þetta var síðasta kast þeirra á Hugin á vertíðinni þar sem kvótinn náðist með því. Einnig voru Heimaey VE og grænlenska skipið Qavag á sömu slóðum. Eftir er að veiða 5-6 þúsund tonn af 200 þúsund tonna loðnukvóta, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
|
Huginn ve 55 á loðnumiðunum Mynd þorgeir Baldursson
|