Hjörvar Hjálmarsson Skipst Berki NK
Beitir NK og grænlenska skipið Polar Amaroq létu úr höfn í Neskaupstað í gærkvöldi og héldu til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni. Bjarni Ólafsson AK hefur legið á Seyðisfirði undanfarna daga og hann mun sigla í kjölfar fyrrnefndu skipanna í dag.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Síldarvinnslunni.
Segir þar að Börkur NK hafi verið í slipp í Færeyjum en farið niður úr slippnum á mánudag og síðan legið í Runavík.
„Við erum farnir að hugsa okkur til hreyfings en í sannleika sagt er ekki spáð mjög góðu veðri næstu daga. Færeysku skipin liggja öll í landi og Færeyingarnir eru hinir rólegustu ennþá,“ er haft eftir Hjörvari Hjálmarssyni, skipstjóra á Berki.
„Miðað við síðustu ár ætti kolmunninn að fara að ganga inn í færeyska lögsögu. Í fyrra hófust veiðar 8. apríl en oft hafa þær ekki byrjað fyrr en um miðjan mánuð. En þetta er örugglega alveg að fara að koma. Við liggjum hér í Runavík og erum að dytta að ýmsu um borð; hér er málað og snyrt,“ segir Hjörvar.
|