|
Mikill fjöldi Skemmtiferðaskipa heimsækir Akureyri ár hvert mynd þorgeir
|
„Það stefnir í algjört metár á þessu ári og miðað við bókanir fyrir næsta ár er allt útlit fyrir að árið 2018 verði enn betra,“ segir Pétur Ólafsson, hafnarstjóri Hafnasamlags Norðurlands, um komur skemmtiferðaskipa til landsins, en Pétur er jafnframt formaður samtakanna Cruise Iceland.
Halda þau utan um hagsmuni þeirra fyrirtækja sem þjónusta skipin hér á landi. Pétur segir að bókanir um skip nái allt til ársins 2026, en það ár hafa t.d. fjögur skip boðað komu sína í sólmyrkvaferðir.
Aukinn áhugi er á viðkomustöðum í minni höfnum á landsbyggðinni og hafa æ fleiri sveitarfélög og hafnir gerst aðilar að samtökunum Cruise Iceland, nú síðast Sveitarfélagið Skagafjörður. 68 skip eru væntanleg til Reykjavíkur í sumar og 60 til Akureyrar. Árlega bætast við nýir áfangastaðir skipanna; í ár eru það Akranes og Þorlákshöfn.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Pétur vilja til þess hjá skipafélögunum að lengja tímabilið, hefja siglingar fyrr á vorin og vera lengur fram á haust. Hafa norðurljósaferðir að vetri til einnig komið til tals.