og siðan hoppað uppi rútu og ekið austur i þingeyjarsveit mynd þorgeir 2017
af Mbl.is
Myndir Þorgeir Baldursson
Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins, Celebrity Eclipse, kom til hafnar á Akureyri í morgun. Forstjóri skipafélagsins gaf þá fyrstur allra í söfnunarbauk á bryggjunni, en Hafnasamlag Norðurlands mun í haust planta 2.000 trjám, hið minnsta, í samstarfi við Skógræktarfélag Eyfirðinga til að kolefnisjafna vegna þeirra skemmtiferðaskipa sem koma til bæjarins í sumar.
Um borð í morgun voru um 2.800 farþegar og starfsmenn eru um 1.200. Verkefni Hafnasamlagsins var þá ýtt formlega úr vör, en það felst í því að 10 trjám hið minnsta verður plantað í norðlenskan svörð í haust. Það var Lisa Lutoff-Perlo, forstjóri Celebrity Cruises, eiganda Celebrity Eclipse, sem fyrst gaf í söfnunarbaukinn en hún var á meðal farþega.
„Hafnasamlagið leggur fram andvirði 2.000 plantna og svo bætist við það sem safnast meðal farþega,“ sagði Pétur Ólafsson hafnarstjóri við Morgunblaðið. Hann segist ekki vita til þess að hafnir annars staðar í heiminum hafi tekið upp á þessu. Alls kemur rúmlega hálft hundrað skemmtiferðaskipa til Akureyrar í sumar, þar af um 30 sem hafa viðkomu í Grímsey.
Veðrið var ekki til að hrópa húrra fyrir á Akureyri í morgun: rigning og þriggja stiga hiti. Gránað hefur í fjöll síðustu daga eftir mikinn hlýindakafla í síðustu viku en fjöldinn dreif sig þó frá borði, vel klæddur og vopnaður regnhlífum. Margir gengu um bæinn eða fóru í hvalaskoðun en megnið af farþegum hefur þó líklega farið í kynnisferðir, aðallega austur um og til Mývatns, en mikill bílafloti frá fjölda ferðaþjónustufyrirtækja beið á bryggjunni í morgun.
Celebrity Eclipse heldur úr höfn aftur síðdegis og kemur til Reykjavíkur fyrir hádegi á morgun.
|