Morgunblaðið /Skapti Hallgrimsson
Myndir .Þorgeir Baldursson
Nýjasta nýtt í ferðaþjónustu á Akureyri er forláta svifnökkvi sem brunar um Pollinn. Þar er á ferð Arinbjörn Kúld, sem fékk gripinn fyrir nokkrum dögum og er þegar byrjaður að þeysa um með farþega. Hefur prófað að stoppa og taka mynd á sandeyrum sem koma í ljós á fjöru og segir að auðveldlega megi skoða hvali með þessum hætti.
Aðeins verður farið með einn farþega í hverri ferð þótt þeir megi vera tveir; a.m.k. tveir „léttir“ einsog hann orðar það. Og nökkvarnir verða fleiri. Arinbjörn flytur þá inn sjálfur, bæði til eigin nota og til sölu. Hann segir ýmsa ólma í að eignast svona farartæki, meðal annars björgunarsveitir og ýmis fyrirtæki.
Arinbjörn segir nökkvann komast á staði þar sem önnur farartæki lendi í vandræðum eða komist alls ekki; nefnir mýrlendi og eyrar. „Þeir svífa hvar sem er yfir sjó og land, geta til dæmis farið yfir viðkvæm svæði þar sem utanvegaakstur er bannaður. Loftpúðinn undir nökkvanum gerir það að verkum að aðeins sést lítil rák eftir þá í stutta stund.“
Arinbjörn gerir út frá lítilli sandvík við Leiruveginn, sunnan við athafnasvæði siglingaklúbbsins Nökkva. „Mér fannst vanta afþreyingu. Þessi er geggjuð; stutt en spennan mikil meðan á ferðinni stendur,“ segir hann.
|
Arinbjörn Kúld Mynd þorgeir Baldursson 2017
|
Svifnökkvinn og Arnbjörn á Pollinum Mynd þorgeir Baldursson 2017
|
Svifnökkvinn heldur af stað mynd þorgeir Baldursson 2017
|
Stjórntæki Svifnökkvans Mynd þorgeir Baldursson 2017 |
|
|
|
|
|