Ísfisktogarinn Barði NK kom til Neskaupstaðar í nótt. Skipið var kjaftfullt, með 112 tonn, og var uppistaða aflans stór og fallegur þorskur. Skipstjóri í veiðiferðinni var Bjarni Már Hafsteinsson og var þetta fyrsta veiðiferð hans í skipstjórastólnum á Barða. Í samtali við heimasíðuna sagði Bjarni að nú væri loksins genginn stór fiskur á hefðbundin austfirsk togaramið en að undanförnu hefur þar einungis fengist smár fiskur. Þá sagði Bjarni að í veiðiferðinni hefði orðið vart við makríl á Fætinum. „Þessi veiðiferð gekk ágætlega rétt eins og fyrsta veiðiferðin mín sem skipstjóri á Bjarti NK á sínum tíma og það er alltaf gott að byrja vel. Við hófum veiðar á Lónsbugtinni og vorum þar í ýsu en afli var heldur tregur. Þá var haldið á Lúlla og Lovísu og reyndar þaðan upp undir Borgarstjórann og var aflinn þar sæmilegur. Næst lá leiðin á Undirbyrðarhrygg og þaðan út á Þórsbanka í karfa og ufsa. Síðan veiddum við í Vonarbrekku og norður undir Herðablað og þar fékkst stór og góður þorskur. Í reyndinni var þar aðgæsluveiði,“ sagði Bjarni.
|
1976 Barði Nk 120 á veiðum Mynd Þorgeir Baldursson 2017
|