Hjördis hu uppi á bryggju á Akranesi þann 15 sept 2017
Ofhleðsla fiskiskipa er enn og aftur komin í umræðuna eftir nýja skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa. Hún fjallar um Hjördísi HU sem var nærri sokkin á Breiðafirði í byrjun ársins.
„Afdráttarlaust verði gert refsivert að ofhlaða fiskiskip og eftirlit með því verði tryggt.“
Þessa tillögu í öryggisátt gerði Rannsóknarnefnd samgönguslysa(RNSA) til innanríkisráðuneytisins, nú samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytis, í kjölfar skýrslu um þann atburð þegar dragnótarbátnum Jóni Hákoni BA hvolfdi vegna ofhleðslu á Vestfjarðamiðum í júlí 2015 og einn maður fórst. Skýrslan kom út fyrr á þessu ári.
Löggjöf verður endurskoðuð
Ráðuneytið svaraði með bréfi dagsettu 5. september sl. Þar kemur fram að ráðuneytið óskaði eftir því að verkefnisstjórn um öryggi sjófarenda veitti umsögn sína um tillögurnar. Ráðuneytið lýsir sig sammála þeim sjónarmiðum sem fram koma í umsögn verkefnisstjórnar.
„Að því er varðar tillögu nr. 1 (ofhleðsla/?refsing, innsk.) hyggst ráðuneytið setja af stað endurskoðun á löggjöf um skip með það fyrir augum að leggja fyrir Alþingi frumvarp á 149. löggjafarþingi, sem ráðgert er að hefjist í september 2018.“
Í umsögn verkefnisstjórnar um öryggi sjófarenda kemur fram að hún styður tillögu RNSA um að það verði gert refsivert að ofhlaða skip. Jafnframt bendir verkefnisstjórnin á að samhliða þurfi að ráðast í eftirfarandi aðgerðir og úrbætur:
- Að bæta haffærnisskoðanir skipa og eftirlit m.a. með skýrari leiðbeiningum í skoðunarhandbókum skoðunarmanna þannig að óhaffær skip séu ekki á sjó.
- Að ítreka að Samgöngustofa framkvæmi skyndiskoðanir á skipum.
- Að kveða þurfi skýrar á í lögum um hleðslu báta.
- Að tryggt sé að allir bátar hafi sýnileg hleðslumerki.
- Að spjöld séu í stýrishúsi með upplýsingum um hámarkshleðslu viðkomandi báts.
- Að bæta og gera aðgengilegra fræðsluefni um stöðugleika báta.
- Að bæta veiðimenningu sem hvetur til ofhleðslu með áróðri og fræðslu.
- Að kannaðir verði möguleikar á að koma upp einhvers konar punktakerfi eða hið minnsta áminningum vegna ofhleðslu sem byggi m.a. á löndunartölum Fiskistofu, tilkynningum Landhelgisgæslunnar um brot á hleðslu þannig að ítrekuð brot leiði til refsinga.
Undir bréfið skrifar Ásbjörn Óttarsson, formaður verkefnisstjórnar um öryggi sjófarenda.
Af hafsbotni. Jón Hákon var hífður upp í júní 2016 og færður til Ísafjarðar. Beitt var spilum varðskipsins Þórs. mbl.is/?Halldór Sveinbjornsson
Báturinn var ofhlaðinn
Skýrsla Rannsóknarnefndar samgönguslysa, sem hér um ræðir, var birt í mars síðastliðnum og fjallar um sjóslys sem varð á Vestfjarðamiðum að morgni 7. júlí 2015. Þá hvolfdi dragnótarbátnum Jóni Hákoni BA 60 þar sem hann var að veiðum. Fjórir menn voru um borð og drukknaði einn þeirra en hinum var bjargað um borð í nærstaddan bát, Mardísi ÍS. Á þessum tíma var veður norðan 6-7 m/?s og ölduhæð 1-1,5 metrar. Jón Hákon var 27 brúttólesta stálbátur, smíðaður hjá Bátalóni í Hafnarfirði.
Niðurstaða rannsóknar nefndarinnar var svo kunngjörð í 80 síðna skýrslu.
Niðurstaðan var, samantekin:
Nefndin telur orsök slyssins vera þá að skipið var ofhlaðið og með viðvarandi stjórnborðshalla. Þetta leiddi til þess að í veltingi átti sjór greiða leið inn á þilfar skipsins bæði yfir lunningu og um lensport. Vegna óþéttleika á lestarlúgukarmi bættist stöðugt sjór í lestina. Varð þetta til þess að skipið missti stöðugleika og því hvolfdi þegar öldutoppur rann óhindrað yfir lunningu þess.
Frekari umfjöllun má finna á síðu 60 í Morgunblaðinu sem kom út þann 7. desember.
|