2626 Guðmundur i Nesi RE 13 mynd þorgeir Baldursson 2013
36 sjómönnum í áhöfn frystitogarans Guðmundar á Nesi hefur verið sagt upp störfum eftir að Útgerðarfélag Reykjavíkur (ÚR) ákvað að setja togarann á söluskrá. Í tilkynningu frá félaginu segist Úr harma aðgerðirnar.
Í upphafi þessa árs gerði ÚR út fjóra frystitogara frá Reykjavík - Brimnes, Guðmund Í Nesi, Kleifaberg og Vigra. Í upphafi næsta árs mun félagið aðeins gera út einn slíkan, Kleifaberg, og þá mun sjómönnum félagsins hafa fækkað um samtals 136.
Í tilkynningu ÚR segir að ástæður þessarar óheillaþróunar séu fjölmargar en þær helstu eru „erfiðar rekstraraðstæður frystitogara sem stjórnvöld á Íslandi bera verulega ábyrgð á með óhóflegri gjaldtöku stimpil- og veiðigjalda.“ Þá er verkfall sjómanna í fyrra einnig tekið inn í myndina og segir félagið að kjarasamningar í kjölfar verkfallsins hafi gert rekstur frystitogara erfiðan.
ÚR hlynnt sanngjörnum veiðigjöldum
Runólfur Viðar Guðmundsson, framkvæmdastjóri ÚR, segir í tilkynningu að forsvarsmenn ÚR og annarra sjávarútvegsfyrirtækja hafa marg oft tekið þetta ástand upp við ráðamenn en talað fyrir daufum eyrum.
„Að óbreyttu er mikil hætta á að útgerð frystitogara dragist hratt saman á næstu árum með þeim afleiðingum að aflaverðmæti tapast og jafnframt hverfi mikilvæg þekking og reynsla sjómanna og skipstjórnarmanna af úthafsveiðum,“ er haft eftir Runólfi.
Hann segir að ÚR sé hlynnt sanngjörnum veiðigjöldum en á móti ranglátum gjöldum sem þjóna aðeins hagsmunum stjórnmálamanna og vinna gegn hagkvæmri og sjálfbærri nýtingu fiskistofna allt í kringum landið. „Þá er það von okkar hjá ÚR að hægt verði að endurskoða kjarasamninga sjómanna til þess að missa ekki störf sjömanna á frystitogurum úr landi,“ er haft eftir Runólfi.
Töluverðar breytingar hafa verið hjá ÚR síðustu misseri. Félagið hét áður Brim en nafninu var breytt á hluthafafundi í september. Í vor keypti félagið 34% hlut í HB granda og nýlega seldi það HB Granda allt hlutafé í útgerðarfélaginu Ögurvík.
|