Lárus List mynd þorgeir Baldursson 2018
Lárus H. List gerir upp tvo gamla eikarbáta á Akueyri
Svíður meðferð menningarverðmæta
Hagleiksmaðurinn og listamaðurinn Lárus H. List á Akureyri stendur fyrir uppgerð á gömlum eikarbát, Pétri Þór frá Bíldudal og ráðgerir að hann verði tilbúinn næsta sumar. Lárus var í hollvinafélagi um endurgerð á Húna II, 130 tonna eikarbát, sem var smíðaður í skipasmíðastöð KEA á Akureyri 1963, og er nú ein helst prýði og aðdráttarafl í höfninni á Akureyri. Lárus segir Íslendinga mjög aftarlega á merinni hvað viðkemur varðveislu gamalla báta og skipa.
GUÐJÓN GUÐMUNDSSON
gugu@fiskifrettir.is
Til marks um það hversu illa er staðið að varðveislumálum nefnir Lárus að það þurfi til að mynda að greiða hafna- og vitagjöld sem hlaupa á hundruðum þúsunda á hverju ári af fornum bátum sem gegna ekki öðru hlutverki en að vera menningarauki í sjávarútvegsplássum.
Í fóstri
Rekstur Húna II hófst árið 2006 og hefur bátnum verið siglt í kringum landið, til Færeyja og Noregs. Báturinn er í eigu Iðnaðarsafnsins á Akureyri en í fóstri hjá Hollvinafélagi Húna II sem sér alfarið um rekstur og viðhald hans.
Það var í einni ferðinni með Húna II fyrir um það bil sex árum sem komið var við í Bíldudal. Þar sá Lárus 16 metra langan eikarbát í lélegu ástandi við höfnina sem hafði verið úreltur. Honum bauðst að kaupa hann á 500.000 krónur. Báturinn hafði verið smíðaður árið 1977 og verið mestan hluta tímans á Bíldudal. Hann var gerður út á fiskveiðar.
Lárus segir að báturinn hafi verið í slæmu ásigkomulagi. Hann lét draga hann upp í fjöru þar sem ákveðið var að gera hann sjófæran og draga síðan til Akureyrar til uppgerðar. Í september 2013 var hann dreginn út Arnarfjörðinn og alla leið til Akureyrar þar sem hafist var handa við uppgerðina. Lárus segir að það hafi tekið eitt ár að ná allri málningu af bátnum að utan og innan. Brúin sem var ónýt var fjarlægð og nú er Pétur Þór að breytast í opna skonnortu. Lárus segir að skrokkurinn hafi verið í ágætu ásigkomulagi en nauðsynlegt hafi reynst að endurnýja lunninguna og ýmislegt annað ofanþilja.
Lítill áhugi hér
Aðspurður um hvað vaki fyrir honum með þessu segir Lárus það eingöngu menningarlegan áhuga sem ráði sínum gjörðum. Hann hefur ferðast til annarra Evrópulanda og nefnir að í mörgum borgum sé sérstök aðstaða í dýrustu hverfunum við hafnirnar og mikið haft við til að geta sýnt enduruppgerða eikarbáta sem tengjast atvinnusögu hvers staðar. Um leið séu bátarnir mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Á þessum stöðum sé þannig hlúð að menningararfinum og fyrir vikið verði blómlegt mannlíf við hafnirnar. Hér á landi séu þessu öfugt farið. Lítill áhugi sé á uppgerð gamalla báta og ekkert gert til þess að stuðla að varðveislu þeirra. Þvert á móti sé steinn lagður í götu þeirra fáu sem vilji bjarga menningarverðmætum af þessu toga með álagningu hafnargjalda, vitagjalda og ýmissa annarra gjalda sem íþyngja mjög áhugamönnum á þessu sviði.
Lárus nefnir til marks um þetta sinnuleysi að einu nafntogaðasta fiskiskipi Íslands, Sigurði VE, var leyft að grotna niður í Vestmannaeyjahöfn án þess að tilraun yrði gerð til varðveislu þess. Þó hafði það borið meiri verðmæti á land en flest önnur skip þess tíma. Það var að lokum selt í brotajárn. Lárusi áskotnaðist einnig annar eikarbátur, Fjóla BA, 17 metra langur, að gjöf frá Jóhannesi Haraldssyni fyrir nokkrum árum. Báturinn var meðal annars notaður til að flytja Bíldudals grænar baunir til Reykjavíkur á sínum tíma. Hann var í mjög góðu ástandi og saman liggja bátarnir nú við bryggju í fiskihöfninni á Akureyri og báðir hlotið aðhlynningu m.a. í Slippnum á Akureyri.
Heimild Fiskifrettir.
Guðjón Guðmundsson
Lárus H. List vill bjarga þeim menningarverðmætum sem felast í gömlum bátum og skipum. Myndir/Þorgeir Baldursson
|