2350 Árni Friðriksson RE 200 á Eyjafirði Mynd Andri Snær 2019
Mikil leit að loðnu í allan vetur hefur ekki borið árangur og ákveðið var á mánudag að hætta formlegri leit. Það er þó ekki aðeins loðnan í vetur sem veldur áhyggjum því fyrstu mælingar á árganginum sem bera á uppi veiðar næsta vetrar gáfu ekki tilefni til bjartsýni. Þá er óvissa varðandi fleiri uppsjávartegundir.
Ekki verður annað sagt en mikið hafi verið lagt í loðnuleit vetrarins. Þannig hafa rannsóknaskipin verið í um 40 daga samtals við leit og veiðiskip í alls 76 daga frá því að Heimaey VE fór í leiðangur skömmu fyrir jól. Kostnaður af úthaldi veiðiskipanna er hátt í 130 milljónir og skiptist hann á útgerðir í samræmi við hlutdeild í loðnu.
Að auki svipuðust tvö norsk skip eftir loðnunni fyrir austan og norðan í nokkra daga í febrúar. Um borð í veiðiskipunum voru hverju sinni 2-4 starfsmenn Hafrannsóknastofnunar, oftast fjórir.
Þó svo að formlegri loðnuleit hafi verið hætt í fyrradag þá mun Hafrannsóknastofnun áfram fylgjast með fréttum af loðnu fyrir norðan land og gera ráðstafanir þyki tilefni til. Á Húnaflóa veiddist hrygningarloðna eftir miðjan marsmánuð í fyrra, að því er fram kemur í fréttaskýringu um loðnuleitina í Morgunblaðinnu í dag.
|