Stormur HF 294 Mynd Tryggvi Sigurðsson 2017
Samist hefur um kaup kanadísks útgerðarfélags á línu- og netaskipinu Stormi HF af Stormi Seafood í Hafnarfirði. Kaupverðið er 140 milljónir evra, um 1,9 milljarður ÍSK. Nú er aðeins beðið eftir frágangi á fjármögnun kaupanna. Skipið hefur legið við festar í Reykjavíkurhöfn í á þriðja ár. Hingað kom það úr breytingu í Póllandi í desember 2017.
Skipið var smíðað á Nýfundnalandi árið 2005 og var 25 metrar á lengd og 9,20 á breidd. Smíðin var fjármögnuð af Landsbankanum og komst skipið í eigu þrotabús bankans í hruninu. Þá hafði verið lokið við um 80% af smíði skipsins. Það hafði verið til sölu í mörg ár þegar Stormur Seafood keypti það loks árið 2015. Skrokkurinn var dreginn til Gdansk í Póllandi þar sem skipið var lengt um 23 metra sem er Íslandsmet í lengingu.
Ákvörðunin um kaupin og endursmíði skipsins var tekin í tíð Steindórs Sigurgeirssonar, þáverandi framkvæmdastjóra og eiganda Storms Seafood. Eftir að skipið kom til Íslands seldi Steindór fyrirtækið og kvóta sem og skipið til nýrra eigenda.
Fyrsta rafknúna fiskiskipið
Stormur er eitt hið tæknilegasta og óvenjulegasta í íslenska flotanum. Það er fyrsta rafknúna fiskiskip landsins. Rafmagnið er framleitt í þremur ljósavélum og öll orkustýringin er sjálfvirk og skipið einkar orkusparneytið. Það er jafnt hægt að gera það út á línu- og netaveiðar. Á stjórnborða er hliðarbrunnur þar sem línan verður dregin. Vegna þess hve rafmótorinn er fyrirferðalítið er lestarrýmið mjög stórt miðað við skip af þessari stærð og svipar til lestarrýmis nýrra skipa HB Granda.
Stormi var siglt frá Póllandi til Íslands 2015 og hefur síðan legið óhreyft í Reykjavíkurhöfn. Kanadíska útgerðarfélagið, sem er staðsett á sunnanverðu Baffinslandi, ætlar að gera skipið út á grálúðuveiðar á línu. Fulltrúar þess hafa í þrígang komið til landsins til að skoða skipið. Undirritaður hefur verið samningur um kaupin. Útgerðin hefur frest fram til 15. apríl að ganga frá fjármögnuninni.
Heimild Fiskifrettir
mynd Tryggvi Sigurðsson
|