30.07.2019 22:56

Ættardjásnið Áskell Egilsson

    Halldór, Sævar ,og Egill Áskelssynir  Mynd þorgeir Baldursson 2019

     Bræðurnir um borð i Kela Mynd þorgeir Baldursson 2019

Ekki bara bátur heldur ættardjásn“

Bræðurnir Egill, Halldór Ómar og Sævar Lárus Áskelssynir á Akureyri keyptu fyrir nokkrum misserum tæplega 30 tonna eikarbát. Enginn þeirra hefur réttindi til að sigla honum en með kaupunum heiðruðu þeir minningu föður síns og annarra sem smíðuðu bátinn og fleiri slíka í bátasmiðjunni Vör við Óseyri.

Faðir bræðranna, Áskell Egilsson, var einn stofnenda og eigenda Varar, þar sem smíðaðir voru eikarbátar svo fallegir að bræðurnir fylgdust grannt með þeim lengi þar til langþráður draumur rættist og þeir keyptu einn gömlu Vararbátanna. Upphaflega hét sá Vöttur SU-3, smíðaður 1975, og fyrsta heimahöfn hans var Eskifjörður. Hann var síðast í eigu Ólafs Ármanns Sigurðssonar á Húsavík og notaður við veiðar allt þar til fyrir nokkrum árum að útgerðarmaðurinn fékk sér nýrri bát. Hét þangað til Haförn en nafninu var breytt í Ási þar sem Ólafur notaði Hafarnarnafnið á nýja bátinn. Til stóð að rífa þann gamla en þegar bræðurnir settu sig í samband við Ólaf var hann meira en til í að selja þeim gripinn.

„Við vorum búnir að hugsa mikið um þetta; það hefur lengi blundað í okkur að gaman væri að eignast einn af gömlu Vararbátunum,“ segir Halldór Áskelsson. „Við höfðum alltaf haft mikinn áhuga á eikarbátum, það gerir líklega uppeldið,“ bætir Egill við. „Við höfðum gjarnan þann starfa að hempa nagla; að festa tjöruhamp við hausinn á nöglunum sem voru svo notaðir til að festa eikarborðin.“

Egill segir þá bræður hafa reynt að vera viðstaddir í hvert einasta skipti sem bátur var sjósettur í Vör „og svo var maður mættur niður á bryggju alla daga þegar skólinn var búinn til að fara með í prufusiglingar.“

Halldór, sá kunni knattspyrnumaður á árum áður bætir við: „Þá var slegist um að vera fremst, það var svo spennandi að fá gusur í andlitið.“

Þannig atvikaðist að Halldór var staddur á Húsavík haustið 2015 vegna atvinnu sinnar og fór, eins og svo oft áður, niður á höfn að skoða báta! Þar eru einmitt margir afar glæsilegir eikarbátar, notaðir í hvalaskoðun. „Þar sá ég þennan og ræddi það við Egil strax og ég kom heim að nú væri tækifærið. Við komumst að því hver átti bátinn, Egill hringdi í hann og karlinn sagðist strax vilja selja okkur hann.

„Hann gaf mér upp verð, ég sagði að ef okkur litist á bátinn myndum við kaupa hann á þessu verði. Við fórum svo austur og þú veist hvernig þetta endaði!“

Þeir vilja ekki gefa upp kaupverð en segjast vitaskuld meira en að segja það að fara út í slíka fjárfestingu. „Við erum hins vegar að kaupa miklu meira en bát; fortíðarþráin er svo mikil og þessir bátar eru glæsilegar mublur. Við erum alls ekki bara að kaupa bát heldur ættardjásn.“

Stofnendur og eigendur Varar voru sex skipasmiðir sem starfað höfðu í Slippstöðinni hf. en hættu þar og stofnuðu eigið fyrirtæki. Þeir voru Kári Baldursson, Jón Steinbergsson, Gauti Valdimarsson, Áskell Egilsson sem áður er nefndur og náfrændur hans, Áskell Bjarnason og Hallgrímur Skaptason. Þrír síðarnefndu voru bræðrasynir, ættaðir frá Grenivík.

 

Báturinn var dreginn til Akureyrar og bræðurnar tóku til við ýmsar lagfæringar. Hvalbak hafði verið bætt á bátinn og fyrst verk þeirra var að rífa hann af, því þeir vildu hafa bát sinn eins og hann var upprunalega.  Síðan var skrapað og málað og annað gert sem nauðsyn þótti.

Myndir  Þorgeir Baldursson 

Texti Skapti Hallgrimsson 

               1414 Áskell Egilsson i Hvalaskoðun þann 8 júli 2019

         Björgvin Sigurjónsson skipst mynd þorgeir Baldursson 

        1414 Áskell Egilsson á leið i Hvalaskoðun  mynd þorgeir Baldursson 

 

 

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Þorgeir Baldursson

Farsími:

8620479

Heimilisfang:

Reynihlið 15 D 604 Hörgárbyggð

Staðsetning:

Hörgárbyggð

Um:

Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist Sjávarútvegi

Tenglar

Flettingar í dag: 2696
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 4063
Gestir í gær: 33
Samtals flettingar: 1121822
Samtals gestir: 52256
Tölur uppfærðar: 18.1.2025 06:10:23
www.mbl.is